141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður nefndi í svari sínu að það væri bagalegt hversu óaðgengilegt frumvarpið væri og kom inn á vinnu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem rýnir tekjuhluta frumvarpsins. Vinnubrögðin við fjárlagafrumvarpið í fyrra fyrir árið 2012 voru þannig að tekjuhlutinn var ekki rýndur af hv. efnahags- og skattanefnd, sem þá hét svo. Núna var verið að leggja fram tekjuhlutann í frumvarpinu, breytingarnar á sköttunum, eftir að 2. umr. hófst, þannig að það er ekki einu sinni byrjað að funda um það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um áhugaverðan hlut sem hv. þingmaður hefur reyndar mjög oft tekið upp í þingsölum. Ég hygg að hv. þingmaður hafi verið sá fyrsti sem gerði það þegar hún fór að ræða um eignir þrotabúanna eða hrægammasjóðina eins og þeir eru stundum kallaðir. Ég man það mjög vel að ég upplifði það þannig að það færi kliður um salinn og það væri verið að gefa í skyn að það sem hv. þingmaður var að segja væri í raun og veru bara tóm vitleysa. Þetta snerist um snjóhengjuna og hvernig menn ætluðu að koma þessum gjaldeyri út úr landi.

Ég held að það hafi hins vegar komið í ljós á undanförnum vikum og mánuðum, jafnvel dögum, að margir eru farnir að taka undir þá skoðun hv. þingmanns að þetta sé gríðarlega mikið vandamál og verði að leysa með þeim hætti sem hv. þingmaður hefur nefnt.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki tekið undir með mér að það sé óviðunandi að við hv. þingmenn allir, hverjir sem þeir eru, skulum heyra það til að mynda í fréttum að Seðlabankinn hafi áhyggjur af fjármálastöðugleika landsins vegna skuldabrasksins milli nýja og gamla bankans. Hvers konar upplýsingagjöf er þetta til þingsins?