141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeirri spurningu verð ég eiginlega að svara með þeim orðum að reynslan er því miður sú að það er miklu auðveldara að koma á nýjum sköttum en að afnema þá sem fyrir eru. Þess vegna óttast ég að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér að því leyti að ekki yrði hægt að afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar á fyrstu sex mánuðum nýrrar ríkisstjórnar. Ég þori ekki að fullyrða hversu langan tíma þyrfti en það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ekki er hægt að gera það einn, tveir og þrír, það yrði að gerast í áföngum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það yrði ábatasamt fyrir þjóðfélagið og efnahagskerfið í heild og almenning í landinu að afnema þá skatta í áföngum sem núverandi ríkisstjórn hefur komið á og eru sumir skattarnir alveg víðáttuvitlausir. Á sumum sviðum mætti jafnvel ganga lengra og skera meira niður í þeirri skattheimtu sem lengi hefur þvælst fyrir á mörgum sviðum, eins og til dæmis í vörugjaldakerfinu og víða annars staðar þar sem auðvitað er bara um að ræða skattheimtu sem bitnar á neytendum í landinu.

Við erum með gríðarlega flókið vörugjaldakerfi sem ég held að gott væri að skera upp. Við náðum reyndar nokkrum árangri í því að einfalda vörugjaldakerfið og lækka vörugjöld á árunum fyrir hrun, eins og sagt er, en það var með fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar að snúa því öllu til baka. Ég mundi telja það mjög mikilvægt.

Ég held líka að þó að við viðurkennum að ekki verði hægt að breyta um skattstefnu á einni nóttu eða þegar í stað við ríkisstjórnarskipti (Forseti hringir.) þurfum við samt sem áður að byrja að snúa skipinu og þótt það taki svolítinn tíma (Forseti hringir.) verðum við að stefna í rétta átt.