141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru hárrétt sjónarmið hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, sumar skattahækkanir eru meira áríðandi en aðrar. Miðað við það ástand sem nú er fyrir hendi mundi ég telja afar mikilvægt að efna þau loforð sem gefin voru við gerð kjarasamninga um lækkun tryggingagjalds. Þá á ég við raunverulega lækkun tryggingagjalds en ekki færslu milli mismunandi liða tryggingagjaldsins eins og ríkisstjórnin boðar nú.

Ég held að það skipti verulegu máli vegna þess að þar með er með tiltölulega stuttum fyrirvara hægt að lækka kostnað fyrirtækja við að hafa fólk í vinnu og ýta þar með undir að fólk verði ráðið í vinnu. Það fólk fer síðan af atvinnuleysisskrá og ávinningurinn verður tvöfaldur. Í staðinn fyrir að hafa fólk á atvinnuleysisskrá er það komið í launaða vinnu og borgar skatta af tekjum sínum.

Ég held að slíkar aðgerðir hljóti að vera mjög framarlega í röðinni. Hvað varðar hins vegar ríkisfjármálin almennt megum við heldur ekki horfa á það þannig að núverandi ríkisstjórn hafi náð einhverjum stórkostlegum eða ævintýralegum árangri í sparnaði því að því miður er sá sparnaður sem birtist okkur í fjárlögum undanfarinna ára allt of mikið sparnaður í framkvæmdum, bæði innan einstakra stofnana og einstakra ráðuneyta. Menn hafa ekki farið í reksturinn heldur hafa þeir miklu frekar sparað sér framkvæmdir, sparað að kaupa nýjar tölvur á skrifstofurnar, sparað að kaupa nýjar vélar, sparað að gera við húsin, sparað að laga vegina o.s.frv. Menn hafa ýtt slíkum hlutum á undan sér úti um allt kerfið. En hins vegar er mikil vinna óunnin í því að fara í gegnum (Forseti hringir.) ríkiskerfið og meta hvaða verkefnum ríkið á raunverulega að sinna og (Forseti hringir.) hvernig ríkið getur sinnt þeim á sem hagkvæmastan hátt.