141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mátti ekki ætla af ræðu hv. þingmanns áðan að hann hefði lesið fjárlagafrumvarpið. Þannig var ræða hans, m.a. um atvinnulífið og fjárfestingar í landinu. Hvað sagði Hagstofan sem gaf út þjóðhagsspá þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og síðan nýja spá núna í nóvember?

Fjárlagafrumvarpið byggist á fjárfestingum. Spá Hagstofunnar er að samkvæmt lögum um fjárfestingar í atvinnulífinu hafi þær aukist jafnt og þétt frá árinu 2011. Þær hafa aukist á þessu ári og munu aukast á næsta ári — hvar? Í sjávarútvegi, umfram allt annað. Þá segir hv. þingmaður: Það er botnfrosið, það er ekkert að gerast í sjávarútvegi, það er núll, alkul. Bendir það til þess að hv. þingmaður hafi lesið fjárlagafrumvarpið eða forsendur þess? Nei, það er ekkert sem bendir til þess.

Hv. þingmaður virðist hafa áhyggjur af því hvort það sé meiri hluti á Alþingi fyrir fjárlagafrumvarpinu. Við skulum láta reyna á það. Við förum bara með það í atkvæðagreiðslu. Það þarf ekkert að deila þá um það meira, förum bara með það í atkvæðagreiðslu á morgun, athugum hvað þingið vill gera við þetta fjárlagafrumvarp sem hv. þingmaður heldur fram að feli í sér niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Það er algjörlega þveröfugt og undirstrikar enn að hv. þingmaður virðist ekki hafa kynnt sér meginefni fjárlagafrumvarpsins. Það er ekki gerð nein aðhaldskrafa í sjúkrahúsum eða heilbrigðiskerfinu í þessu fjárlagafrumvarpi. Núll.

Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar snúa að stærstum hluta að því að auka útgjöld í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Hv. þingmaður virðist ekki hafa kynnt sér það. Það er mjög erfitt að ræða þetta þegar menn halda að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru.