141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að verða eins og léleg morfískeppni hérna. Ég fór yfir það að á undangengnum árum hefur orðið blóðugur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það sagði ég oft í ræðu minni. Hv. þingmaður hefur ákveðið að leggja lykkju á leið sína í andsvarinu. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður kannast við að búið er að loka fjölmörgum sjúkrarúmum á landsbyggðinni á fjölmörgum heilbrigðisstofnunum á undangengnum árum. Hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér það? Að sjálfsögðu er það þannig og það er ekki verið að vinda neitt ofan af því. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru heilt yfir litið.

Hv. þingmaður hefur heilmikla þekkingu á til að mynda högum minnar heimabyggðar, Fjallabyggðar, og ég hefði haldið að hann hefði meiri skilning á grundvallaratriðum eins og íslenskum sjávarútvegi. Hann virðist lifa í öðrum veruleika en margir aðrir hvað þau mál snertir. Þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á norðausturhorni landsins kemur hv. þingmaður, fulltrúi Vinstri grænna, hingað upp skipti eftir skipti og talar um að þetta sé flokkur velferðar. Ég fór yfir það hvernig fjárlagafrumvörp undangenginna ára hafa farið með grunnþjónustu víðs vegar um landið í heilbrigðismálum og löggæslumálum. Svo heldur hv. þingmaður því fram að sá sem hér stendur hafi ekki rætt um fjárlagafrumvarpið.

Það er mjög erfitt að eiga vitræn samskipti þegar menn haga málflutningi sínum svona, saka þingmenn um að lesa ekki heimavinnuna. Ég hvatti menn til að fara í efnislega umræðu. Þetta er alveg gjörsamlega með ólíkindum og enn og aftur held ég að menn ættu heldur að sitja í sætum sínum en að bera svona lygi á borð.