141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:35]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir mjög góða ræðu og markvissar ábendingar sem sýndu fram á að það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir er hvorki fugl né fiskur. Hann rakti ýmsar skerðingar sem skipta miklu máli í samfélaginu og vega þungt og sýndi fram á það með mjög góðum rökstuðningi að víða væri pottur brotinn. Það gerði hann með umfjöllun þar sem ég leit svo á að hvert einasta orð væri um það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um tvö atriði sem lúta að skerðingum þar sem ég tel að í báðum tilvikum hafi ríkisstjórnin gengið fram með meiri skerðingar en almennt hefur gerst hjá öðrum. Annars vegar er það íslenska þjóðkirkjan og hins vegar eldri borgarar landsins sem hafa orðið fyrir miklum skerðingum á undanförnum árum. Skömm er að því svo vægt sé til orða tekið, virðulegi forseti.