141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:38]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mitt sjónarmið að við eigum að hafa forgang í því að sinna ákveðnum grunnþáttum í samfélaginu þar sem við erum að véla um aðstöðu og fyrirkomulag hluta gagnvart öryrkjum, börnum, heilbrigðisþjónustunni og eldri borgurum. Í samfélagi okkar sem um margt er fordekrað, sem lýsir sér í því að við gerum miklar kröfur sem eru stundum djarfari og marksæknari en í mörgum þeim löndum sem við miðum okkur við, verðum við líka að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir. Þær skerðingar sem hafa orðið hjá eldri borgurum á undanförnum árum eru með ólíkindum. Við eigum ekki að raska ró eða rugga bátnum þar sem við erum að fjalla um það fólk sem lagði grunninn að því góða samfélagi sem við eigum að geta unnið okkur upp í aftur til framtíðar litið. Við eigum að virða það fólk og taka tillit til þess en ekki sýna því lítilsvirðingu með þeim skerðingum sem hafa verið látnar ganga yfir.