141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil minna hv. þingmenn á þá staðreynd að brottfall úr framhaldsskólum er allt of mikið hér á landi. Fjögur af hverjum tíu ungmennum hafa ekki lokið framhaldsskólanámi við 24 ára aldur. Það er alvarlegt mál fyrir þjóð sem tryggja vill hagvöxt til framtíðar. Margar rannsóknir sérfræðinga á sviði menntunarfræða og hagfræði hafa sýnt að hvert ár í framhaldsskóla eykur þann hagvöxt sem einstaklingur skilar til samfélagsins umtalsvert. Það er því í mörgum skilningi nauðsynlegt að taka myndarlega á þessum vanda.

Vandamálið er ekki nýtt hér á landi en árangurinn af glímunni við brottfallið hefur látið á sér standa. Við þurfum að taka mið af þeim greiningum og rannsóknum sem gerðar hafa verið og skoða hvað er ólíkt í skipulagi á náms- og framhaldsskólastigi hér á landi því sem gerist í nágrannalöndunum. Eitt atriði hrópar á athygli, það er lengd námsins.

Staðreyndin er sú að Ísland er eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu sem skipuleggur nám til stúdentsprófs þannig að miðað er við að nemendur ljúki því 20 ára gamlir. Reyndar er meðalnámstími til stúdentsprófs lengri en fjögur ár og meðalaldurinn hærri en 20 ár hér á landi. Að þeirri staðreynd eigum við að beina sjónum okkar þegar fjallað er um brottfall úr framhaldsskólum og einnig þegar fjallað er um þann hagvöxt sem hver einstaklingur skilar til samfélagsins. Uppeldisaðferðir, stuðningur foreldra, agi og raunhæfar kröfur skipta máli og aðgengi að námi spilar auðvitað stórt hlutverk. En lengd námstímans á framhaldsskólastigi þarf að stytta svo íslensk ungmenni standi jafnfætis jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum og séu samkeppnishæf við þá.

Það er einnig mikilvægt að skoða skipulag námsins þegar við veltum fyrir okkur (Forseti hringir.) hvað við eigum að gera til að glíma við brottfallsvanda úr framhaldsskólum.