141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla, með leyfi yðar, að vitna í orð Bjargar Thorarensen sem hún lætur falla vegna umsagnarferlis um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni. Hún segir, með leyfi, í bréfi sem hún sendir til þingnefnda:

„Ég spyr, er í alvöru ætlast til þess að hægt sé að vinna vandaðar umsagnir til þingnefnda á þessum fordæmalaust stutta fresti við meðferð Alþingis á frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, fresti sem á sér tæpast hliðstæður í meðferð venjulegra lagafrumvarpa jafnvel um smámál? Þótt ég kasti öllum öðrum verkefnum frá efast ég um að mér tækist að útbúa ásættanlega greiningu á þessum atriðum.“

Þetta skrifar Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, í bréfi til þingnefnda sem óskuðu eftir umsögn.

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að veita þessum orðum lagaprófessorsins athygli og bregðast við þeim. Besta leiðin til að gera það er auðvitað sú að lengja umsagnarfrestinn og vinna þetta mál eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa lagt til með bókun; leitað sé með eðlilegum hætti umsagna og málið unnið eins og það á skilið. Þetta sleifarlag og þessi handarbakavinnubrögð sem lagt er upp með eru þinginu ekki til sóma. Ég vona að þeir hv. þingmenn sem hafa stjórn á þessu máli hlusti á það sem fram kemur hjá lagaprófessornum og bregðist ekki við slíkum athugasemdum öðruvísi (Forseti hringir.) en að taka mark á þeim því þær eru augljóslega settar fram af góðum hug og til þess fallnar að gera þinginu gagn.