141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa fagnað þeim áfanga sem náðist í gær í sögu Palestínu og hrósa sérstaklega vaskri framgöngu hæstv. utanríkisráðherra í þessu málefni sem og þingsins.

Ég er komin hingað upp til að lýsa áhyggjum mínum sem ég hef áður lýst á fundum þingnefnda og innan þingflokks á því hversu skammur tími er gefinn fyrir okkur til að fara yfir frumvarp til stjórnarskipunarlaga, stjórnarskrá lýðveldisins. Ég held að það sé málinu öllu mjög til góðs og heilla að gefa mun meiri tíma, að við höfum fram í janúar til að fara yfir þetta mál. Öll viljum við vanda okkur. Öll viljum við sýna þessu máli yfirvegun og kostgæfni þannig að við getum öll með góðri samvisku sagt að við höfum sýnt stjórnarskrá lýðveldisins þá virðingu sem hún á skilið. Ég tel ekki að það skemmi fyrir málinu heldur þvert á móti að það geri gagn. Það er ekki bara til góðs fyrir þingheim heldur líka alla þá ólíku aðila í samfélaginu sem hafa margt fram að færa í þessum efnum og vilja koma að því en geta það ekki með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni. Þess vegna held ég að við eigum að sameinast um að lengja þessa fresti þannig að við getum öll unað við.