141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að brottfall í framhaldsskólum er vá fyrir framtíð Íslands. Þarna er verið að brjóta niður ungt fólk, oft og tíðum karlmenn, að ég held, og þeir fara ekki í háskóla. Þetta er mjög hættulegt og ég held að þingmenn ættu allir að taka höndum saman um að greina vandann og leysa hann sem fyrst.

Mig langar til að tala um þá 38 daga sem eru eftir af þinginu og þau verkefni sem standa fyrir dyrum. Við eigum eftir að fara í þrjár umræður um eignarhald á kvótanum og því sem því fylgir. Við eigum eftir að fara í tvær umræður um stjórnarskrána og ég ætla að vona að tími gefist til þess. Við eigum eftir að klára fjárlögin og fara í 3. umr. um þau. Það verður mjög erfitt vegna þess að ríkisstjórnin er með minni hluta og það getur komið út þannig að hún þurfi að kaupa atkvæði stjórnarliða með því að samþykkja fjárveitingar hingað og þangað. Þetta var rætt í gær varðandi Hólaskóla. Þetta getur orðið mjög skaðlegt fyrir ríkissjóð og fjárlögin í heild.

Síðan eigum við algerlega eftir að ræða tekjufrumvarpið við þrjár umræður og rammaáætlun. Ég velti fyrir mér hvort við þurfum ekki að breyta dagskrá þingsins, breyta skipulagi funda þannig að við störfum meira í janúar. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé ástæða til að breyta skipulaginu þannig að við ráðum við allt þetta magn af málum. Svo gleymdi ég að nefna eldhúsdaginn. Þann dag er ekki rætt um önnur mál þannig að þetta er orðið ansi knappt. Margt af þessu hefur beðið lengi, eins og stjórnarskráin sem er búin að liggja inni í þinginu í eitt og hálft ár. Það er ekki góð verkstjórn.