141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að við eigum að gefa okkur þann tíma sem þarf til að vinna málin vel, alveg sama hversu stór eða smá þau eru. Ég held að ágætt sé líka að rifja upp það sem hefur komið í ljós á undanförnum vikum að það hefði betur verið gert í sumum málum sem hafa verið afgreidd héðan. Ég nefni til að mynda lög sem snúa að gengislánadómum. Það hefði verið betra að gefa sér betri tíma til að afgreiða þau.

Ég kem hingað upp undir þessum lið fyrst og fremst til að ræða þá alvarlegu stöðu sem er á heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ. Nú ræðum við í 2. umr. fjárlaga um árangur og árangursleysi ríkisstjórnarinnar og sitt sýnist hverjum, en staðreyndirnar blasa hins vegar við á sumum stöðum á landinu. Nú er því þannig komið að þessari heilsugæslustöð er lokað aðra hvora helgi. Það sparast ekki stórar tölur við það en þetta segir okkur auðvitað hversu hart hefur verið gengið í niðurskurði gagnvart heilbrigðisstofnunum Vesturlands.

Það þarf að aka um 30 kílómetra leið til Grundarfjarðar til að sækja heilsugæsluþjónustu aðra hverja helgi. Því miður er oft illviðrasamt á þessum árstíma og ófært á milli þessara tveggja byggðarlaga. Það blasir við það viðhorf stjórnvalda til þessa fólks sem býr þarna að þau líta á það sem einhvers konar vinnudýr fyrir ríkissjóð. Það á að taka nokkur hundruð milljónir í auðlindagjaldi út úr þessu sveitarfélagi en á sama tíma fær það ekki þá grunnþjónustu sem það á að fá og íbúarnir spyrja sig þessarar spurningar: Ef við þurfum ekki grunnþjónustu í heilbrigðismálum, hvaða þjónustu þurfum við þá yfir höfuð? Ég held að þetta sé umhugsunarvert fyrir hv. þingmenn þegar menn eru að tala um árangur eða árangusleysi eða að minnsta kosti breytta forgangsröðun. Það er mikilvægt að allir íbúar landsins hafi aðgang að grunnþjónustu en um það er ekki að ræða þarna.