141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir fagna niðurstöðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær og óska okkur og Palestínumönnum og öllum í heiminum til hamingju með hana.

Nú er vika liðin frá því að við lukum 1. umr. af þremur um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ég lýsti rækilega í ræðustól og kynnti þá hugmynd sem fram hafði komið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að virkja sem flesta þingmenn til vinnu í meðferð málsins og helst alla þingmenn. Ég rakti hvar og hvernig við mundum skipta þessum greinum upp á milli nefnda og allir sem viku að því í umræðunni tóku því fagnandi og enginn gerði neinar neikvæðar athugasemdir við það sem betur fer.

Það er dapurleg staðreynd að allan þann tíma sem frumvarp stjórnlagaráðs hefur verið í meðförum Alþingis frá því síðastliðið haust, það er meira en ár síðan, hefur stjórnarandstaðan alltaf hengt sig í málsmeðferð, aldrei verið tilbúin til að ræða efnislegt innihald. Málsmeðferðin hefur alltaf verið efst á blaði og menn hafa fundið henni allt til foráttu. Það er dapurlegt að núna þegar kallað er eftir efnislegri umfjöllun fagnefnda skuli enn vera talað um málsmeðferð og menn hengja sig í það og mótmæla því hástöfum að nefndir þingsins hafi fengið 15 daga til að skila inn umsögn um tiltekna þætti í frumvarpinu. Það er mikið nýnæmi í störfum Alþingis að viðhafa þessa aðferð og ég hefði haldið að menn mundu fagna því.

Það er ástæðulaust að gera lítið úr því að mismikið álag er í nefndunum og nefndirnar fá líka mismargar greinar til umfjöllunar. Auðvitað taka menn sér þann tíma sem þeir þurfa til að fjalla um mál. Það hafa menn hingað til gert. Skemmst er að minnast rammans (Forseti hringir.) sem hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar kallaði eftir og vildi að umsögn atvinnuveganefndar lægi fyrir 1. nóvember. Hún kom 20. nóvember. Svona er lífið í þingsölum, frú forseti.