141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, lýsa því yfir að hún hlusti ekki bara heldur bregðist við því sem hún heyrir, ólíkt öðrum eins og hún orðaði það. Það er gott vegna þess að hér hefur margt verið sagt í dag sem ég vona að hv. þingmaður bæði hlusti á og bregðist við. Hún olli mér hins vegar áhyggjum lokasetning þingmannsins í stuttri ræðu hér áðan. Hv. þingmaður sagði: Þetta er verk sem við ætlum að klára fyrir kosningar. Þess vegna verður tímafresturinn að vera svona stuttur.

Þá hugsa ég: Hún er kannski ekki að hlusta, hún er alla vega ekki tilbúin til að bregðast við. Það er nefnilega ekki tímasetningin á þessu sem á að skipta öllu máli heldur afurðin sem við þurfum að koma okkur saman um og vanda okkur við. Nú ætla ég því að biðja hv. þingmann að hlusta og vonandi að bregðast við: Er möguleiki að hv. þingmaður íhugi — þegar nefndir þingsins hafa farið yfir þessar greinar, ég er í tveimur nefndum og við höfum ekki hafið þessa vinnu, það eru þá tíu dagar sem við eigum að hafa til að gera þetta og ég sé engar líkur á því að við getum klárað þetta verkefni — hvort kannski væri skynsamlegt að áfangaskipta þessu verkefni? (VBj: Nei.) Áfangaskipta verkefninu? Nei, segir þingmaðurinn. Þá er svarið komið. Þetta er verk sem á að klára fyrir kosningar alveg sama hvað út úr því kemur. Ég held að þetta sé mesta óvirðing við stjórnarskrá Íslands sem hægt er að hugsa sér.