141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum fjárlög næsta árs. Eins og sjá má eru þessi fjárlög áframhaldandi barátta vegna hrunsins eins og önnur fjárlög sem við höfum rætt og orðið vör við í þingsal alveg frá 2009. Ég hef ætíð látið þess getið í umræðu minni um fjárlögin að hlutverk fjármálaráðherra og meiri hluta fjárlaganefndar undanfarin ár hafi alls ekki verið öfundsvert, það hafi verið erfitt, snúið. Það beri að hrósa því, sérstaklega núna í ár, hversu vel vinnan hefur gengið og hversu snemma fjárlagafrumvarpið var lagt fram.

Sjálfur er ég nú áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd en ég var fastur fulltrúi þar í tvö þing. Ég hef ekki sótt alla fundi nefndarinnar og mun því ekki tjá mig í miklum smáatriðum um þau mál sem hér um ræðir. Það er ýmislegt gott í fjárlagafrumvarpinu að venju. Þar langar mig sérstaklega að nefna þá viðleitni sem sést í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem ýta á af stað uppbyggingarverkefnum um allt land. Það er kominn tími til og þó að sumir tali um það sem kosningamál og óljóst sé hvaðan fjármunirnir eiga að koma í það er það engu að síður skipuleg viðleitni til að snúa við blaðinu frá þeim mikla niðurskurði sem verið hefur á fjárlögum undanfarin ár.

Hins vegar er það svo í þessum fjárlögum sem í öðrum fjárlögum á kjörtímabilinu að við í Hreyfingunni teljum að aðferðafræðin þar sé ekki rétt, að augljóst hafi verið frá upphafi að skuldsetning ríkissjóðs hafi verið allt of mikil og að skuldastaða ríkissjóðs sé ekki sjálfbær. Skuldir ríkissjóðs, sveitarfélaga, heimilanna og þjóðarbúsins alls eru allt of miklar. Hrunið var það stórt að við stöndum ekki undir því án þess að afskrifa skuldir í stórum stíl. Það á við um skuldir ríkissjóðs sem og annarra í samfélaginu, eins og ég nefndi áðan, sveitarfélaga og heimila. Verið er að afskrifa skuldir fyrirtækja í stórum stíl. Það er viðtekin venja þegar menn ráða ekki við skuldir og vilja reisa við efnahagsstarfsemi viðkomandi aftur að skuldir eru afskrifaðar. Hið sama á við ríkissjóði, á hverju einasta ári einhvers staðar í heiminum eru skuldir ríkissjóða afskrifaðar. Það á að sjálfsögðu líka að gera í þessu tilfelli.

Nærri því 90 milljarðar fara eingöngu í vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs á sama tíma og skorið er niður og búið er að skera niður úti um allt í samfélaginu. Búið er að valda skaða á heilbrigðiskerfinu og í menntamálum og samgöngumálum. Það vantar lækna, það vantar hjúkrunarfræðinga, það vantar tæki, það vantar húsnæði og launin þurfa að hækka. Það vantar vegi, það þarf að halda við vegum, það vantar fleiri lögreglumenn og þeir þurfa hærri laun.

Það hefur allt saman setið á hakanum vegna þess að forgangsraðað hefur verið í þágu þeirra sem eiga skuldir ríkissjóðs, þ.e. fjármagnseigenda. Það er sú aðferðafræði sem við höfum gagnrýnt og það er sú aðferðafræði sem ég held áfram að gagnrýna. Á meðan hún er notuð getum við ekki samþykkt fjárlög, ekki nú frekar en endranær.

Ég held að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi gert mistök frá upphafi með því að láta fjármagnið ráða ferðinni, nærri 90 milljarðar fara eingöngu í vaxtagjöld. Þess má geta að reiknað er með að allur tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla á næsta ári verði um 107 milljarðar. Það er örlítið meira en það sem fer eingöngu í greiðslu af vöxtum.

Ég held að ríkisstjórnin hefði átt að taka slaginn strax og viðurkenna stöðuna og fara af stað með kröfu á þá sem eiga skuldir ríkissjóðs því að undir þeim verður ekki staðið öðruvísi en að hluti af þeim sé afskrifaður. Það er þekkt leið úti um allan heim. Stundum er það gert með öðrum hætti, stundum lækkar seðlabanki viðkomandi ríkis vexti og hleypir af stað verðbólgu sem étur upp skuldir ríkissjóðs þess lands. Það hefur verið efnahagsstefna bandarísku ríkisstjórnarinnar og stefna bandaríska seðlabankans undanfarin þrjú ár. Það er opinber stefna og þykir það engum tiltökumál, það verður einfaldlega að gera þetta. Hér rembast menn hins vegar eins og rjúpan við staurinn einhverra hluta vegna við að greiða niður skuldir og greiða vexti af skuldum þrátt fyrir að það valdi samfélaginu stórtjóni.

Ég ræð ekki ferðinni í þessu máli en ég tala hér sem þingmaður og ég tel að ranglega sé farið í hlutina og ég gagnrýni það. Við munum leggja fram eina breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem snýr að því að hluta af niðurskurði í heilbrigðisþjónustu verði snúið við. Við leggjum til að vaxtakostnaður ríkissjóðs á næsta ári verði lækkaður um 10%, annaðhvort með samningum við fjármagnseigendur um frestun á þeim vaxtakostnaði eða með samningum við þá um að hann verði afskrifaður. Það eru 10% af vöxtum sem fjármagnseigendur eiga að fá, það eru ekki 10% af skuldum þeirra, það eru um 8,8 milljarðar kr. miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það var upphaflega. Það eru fjármunir sem við viljum forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins í staðinn. Við viljum reyna að minnka álagið á Landspítalanum og við viljum auka framlög til þriggja sjúkrastofnana á landsbyggðinni sem gætu þá tekið að sér fleiri verkefni og gert betur við sitt fólk.

Við leggjum til að framlög til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða verði hækkuð um 20% og að þeir fjármunir renni til sjúkrahússins á Ísafirði. Við leggjum til að framlög til Sjúkrahússins á Akureyri verði hækkuð um 20%. Við leggjum til að framlög til Heilbrigðisstofnunar Austurlands verði líka hækkuð um 20% og að þeir fjármunir renni til sjúkrahússins í Neskaupstað og að afgangurinn renni svo til Landspítalans, sem verða um 7 milljarðar kr.

Það mun gera þessum mikilvægustu stofnunum sem eru úti á landi kleift að sinna hlutverki sínu betur, taka að sér fleiri verkefni, gera betur við starfsfólkið sem er að gefast upp á álaginu og létta álaginu samhliða af Landspítalanum, sem er alveg gríðarlegt. Það vill þannig til að nú í haust hefur einn kunningi minn átt við alvarleg hjartaveikindi að stríða og ég hef fengið að fylgjast með vegferð hans í gegnum heilbrigðiskerfið. Það hefur verið hálfgerð sorgarsaga, hann er heppinn að vera lifandi og það er eingöngu vegna þess að starfsfólk Landspítalans gerir allt sem það getur, en það er samt of mikið álag á stofnuninni og starfsfólkinu.

Hér berum við ábyrgð og hér ber stjórnarmeirihlutinn ábyrgð og ég vona svo sannarlega að við gerum betur áður en fjárlögin verða endanlega afgreidd.

Ég veit ekki hvaða viðtökur breytingartillaga okkar mun fá en við munum halda henni á lofti og hvetja eindregið meiri hluta fjárlaganefndar og stjórnarmeirihlutann til að leggjast yfir hana og skoða hana rækilega. Uppi eru mikil áform um nýjan Landspítala. Sjálfur hef ég setið fundi í fjárlaganefnd þar sem farið var rækilega yfir þá framkvæmd og sýnt fram á með hvaða hætti hún mundi greiða sig upp sjálf. Það eru útreikningar sem ég hef ekki forsendur til að hrekja nema út frá þeirri reynslu að opinberar framkvæmdir hafa alltaf farið langt fram úr áætlunum. Það er ekkert sem tryggir að þessi framkvæmd geri það ekki líka. Ef hún gerir það mun hún ekki greiða sig upp sjálf.

Hér er við vanda að etja og ég held að það væri farsælt fyrir Alþingi og framkvæmdarvaldið að fara frekar af stað í að efla þá starfsemi í heilbrigðisþjónustu sem til staðar er, a.m.k. á næsta ári, og fara sér hægt í byggingu nýs Landspítala þangað til hægt verður, ef það verður einhvern tímann mögulegt, að staðfesta að sú framkvæmd fari ekki fram úr áætlunum. Þetta er gríðarleg framkvæmd og hvert prósentustig sem hún fer fram úr áætlun mun verða mjög dýrt. Ég er stuðningsmaður framkvæmdanna og tel að nýr spítali sé bráðnauðsynlegur og að hann yrði á endanum til mikilla bóta fyrir heilbrigðiskerfið. En sagan sýnir að opinberar framkvæmdir hafa farið úr böndunum, um það höfum við dæmi úti um allt, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, og þess vegna þurfa menn að fara varlega af stað.

Ég varð var við það í ræðum þingmanna í gær að það eru kosningar í vor og ef til vill er eðlilegt að menn tali með öðrum hætti á kosningaári. Við því er svo sem ekkert að segja, menn vilja láta kjósa sig út á þá fjármuni sem þeir útdeila til kjósenda með einhverjum hætti eða hafa hönd í bagga með að útdeilt sé til kjósenda.

Mér þótti dapurlegt að heyra í nokkrum þingmönnum sem vildu endurvekja úthlutun fjárlaganefndar á svokölluðum safnliðum á þeim forsendum að fjárlaganefnd hafi fjárlagavaldið og að við eigum að útdeila þessu fé. Þegar safnliðafyrirkomulaginu var breytt kom í ljós að slíkt fyrirkomulag er óþekkt í öllum nágrannaríkjum. Fjármunum sem útdeilt er með þeim hætti er útdeilt á faglegum nótum af sérfræðingum í stjórnkerfinu, umsóknir eru bornar saman og metnar. Sumar fá fjármuni, aðrar ekki og síðan er eftirfylgni með því hvað gert er við fjármunina. Hér var hins vegar gríðarleg brotalöm hvað safnliðina varðar.

Sjálfur sat ég fundi fjárlaganefndar og ég þreytist aldrei á að segja söguna af því þegar þar kom kona með bein í skjóðum og dreifði til fjárlaganefndarmanna og sagðist vera spákona og vildi fá fjármuni frá skattborgurum til að byggja sér spákonuhof. Svo fór hún. Mér fannst þetta svolítið sérkennileg uppákoma en maður verður vitni að mörgu skrýtnu í lífinu. Mér brá hins vegar þegar ég varð þess var að fjárlaganefndarmenn tóku undir ósk konunnar og úthlutuðu fé í verkefnið. Eftir því sem safnliðirnir voru skoðaðir betur kom náttúrlega í ljós að miklar brotalamir voru á þeim úthlutunum. Hlutir sem kallaðir voru húsafriðun og uppbygging sögufrægra húsa voru í raun breytingar á vöruskemmum til að einhver í viðkomandi kjördæmi gæti sett þar upp vínveitingahús eða veitingahús. Það hafði ekkert með húsafriðun að gera.

Menn gumuðu af því að framlög til húsafriðunar væru stóraukin en þetta voru ekki framlög sem úthlutað var af hálfu fagaðila í húsafriðunarnefnd, heldur var þeim úthlutað af þingmönnum og þá til þeirra kjördæma sem þeir tilheyrðu.

Vissulega vilja þingmenn gera vel við kjósendur sína og kjördæmi, það er ekkert við því að segja, en svona eiga vinnubrögðin ekki að vera. Í rauninni voru úthlutanirnar komnar á svo fáránlegt stig að meiri hluti myndaðist fyrir því í þinginu að afnema svokallaða safnliðaúthlutun og breyta fyrirkomulaginu. Er það vel og vona ég svo sannarlega að menn fari ekki í þá vegferð aftur. Virðing þingsins og þeirra þingmanna sem tóku þátt í því var ekki mikil.

Eins og ég sagði áðan hef ég setið sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og ekki beitt mér mikið fyrir því á þingi að útdeila peningum eða reyna að hafa áhrif á úthlutun fjármagns eitt eða annað, allra síst í mitt eigið kjördæmi sem er Suðvesturkjördæmi. Hér leggjum við til breytingu á frumvarpinu í þágu veikra samborgara okkar sem við teljum að eigi að fá betri þjónustu og búa við betra öryggi, ekki síst á þeim stöðum úti á landi þar sem langt er til Reykjavíkur og oft erfitt að komast um að vetri til.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjárlagafrumvarpið. Fjárlaganefnd hefur unnið ákveðið þrekvirki í því að koma saman fjárlögum, eins og oft áður vegna hrunsins, en hrunið olli hér gríðarlegum skaða. Það ber að virða og ber að hrósa því að fjárlaganefndarmönnum hefur tekist ágætlega upp við fjárlagagerðina innan þess ramma sem nefndin hefur, en það er ramminn sjálfur sem við gerum athugasemdir við. Eins og ég sagði áðan teljum við að aðferðafræðin sé röng nú sem endranær og hvetjum til þess að í framtíðinni, fyrr en síðar, hugleiði menn það af fullri alvöru að fara aðra leið í þessum efnum áður en þeir verða búnir að blóðmjólka alla innviði samfélagsins til að greiða fjármagnseigendum vexti.