141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við erum algjörlega sammála um þessa hluti.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann og biðja hann að koma inn á það í seinna andsvari sínu, þ.e. það sem hann hefur oft vakið athygli á og ég kom að í fyrra andsvari mínu, hvernig staðið er að skuldastýringu ríkissjóðs í heild sinni. Það ferli sem við vorum að ræða er held ég öllum óskiljanlegt sem eitthvað hafa skoðað það. Menn ákveða að draga á Norðurlandalánin í lok árs, það lá ekki fyrir við fjárlagagerðina í lok desember heldur var bara tekin ákvörðun að því er virtist á gamlársdag, síðan er farið í skuldabréfaútboð fimm mánuðum seinna og greiddur upp til viðbótar hluti af Norðurlandaláninu með miklu hagstæðari vöxtum og gjalddögum 2016, 2017 og 2018. Þetta er ofboðslega dýr tilraunastarfsemi og rétt eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni bitnar þannig á okkur að skera þarf niður og þar meðal í velferðarþjónustu.