141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við hv. þm. Þór Saari varðandi umræðuna um safnliði. Ég er ekki viss um að hann hafi skilið almennilega þær athugasemdir sem komu fram í umræðunni í gær. Þær lutu einfaldlega að því að það er ekki staðið að þeim úthlutunum samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir eins og var áður en menn ætluðu að gera þessa breytingu. Það er ekki stóra málið.

Stóra málið lýtur að þeirri tillögu sem hv. þingmaður flytur um uppbyggingu sjúkrastofnana sem allir styðja í grunninn. Ég hef hins vegar töluverða fyrirvara um fjármögnun á þeirri tillögu sem lýtur að 12 milljörðum kr. Ég vil inna hv. þingmann eftir því með hvaða hætti hann sér það geta gengið fyrir sig í tíma að íslenska ríkið nái samningum við kröfuhafa, lánardrottna sína, til að ná fram 12 milljarða vaxtalækkun.