141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:38]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi safnliðina þá er ég sammála því að bæta þarf framkvæmdina á þeim úthlutunum og ég styð fyllilega að það verði gert, hún má ekki vera handahófskennd.

Hvað varðar fjármögnun á breytingartillögu okkar snýst hún um 10% af vaxtakostnaði ríkissjóðs, þ.e. 8,8 milljarða, og að einfaldlega verði sagt við þá sem eiga þessar krónur — það má dreifa því á stóran hóp fólks — að ríkissjóður sé í þeirri stöðu að við getum ekki borgað lengur alla þessa vexti nema vega alvarlega að stoðkerfum samfélagsins og að við krefjumst þess af fjármagnseigendum að þeir gangi til samninga um að þessum vaxtagreiðslum verði frestað um nokkur ár, kannski fimm ár, eða að þær verði einfaldlega afskrifaðar. Þetta eru 10% af vaxtagreiðslum, umtalsverð upphæð í ljósi heildarupphæðarinnar (Forseti hringir.) en fyrir hvern og einn veit ég ekki hvað hún verður há.