141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Fyrirvari minn að þessari tillögu lýtur að því að ég hefði álitið að það tæki lengri tíma en svo að ná þessu fram. Það kann vel að vera að það séu leiðir til þess og væri þá tími til að ræða það á milli umræðna væntanlega hvort og hvernig það væri mögulegt.

Það er enginn pólitískur ágreiningur um að styrkja þá grunnstoð sem heilbrigðisþjónustan er, það er bara spurningin um leiðirnar að því. Ég hjó hins vegar eftir því í ræðu hv. þingmanns hér áðan, þegar hann ræddi möguleg byggingaráform við Landspítala – háskólasjúkrahús, að það var kominn ákveðinn fyrirvari á það verk. Ég hefði viljað inna hv. þingmann nánar eftir því hvort hann væri búinn að skipta um skoðun á framgangi þess máls í ljósi þeirrar styrkingar sem óhjákvæmilega þarf að eiga sér stað á innviðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu áður en við tökum næsta skref sem er bygging þessa gríðarlega mikla og mikilvæga (Forseti hringir.) mannvirkis.