141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:40]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar frestunina á þessum vaxtagreiðslum mundi fjárlaganefnd og þingið einfaldlega fela fjármálaráðuneytinu að ganga í málið og vinna að því.

Hvað varðar Landspítalann hef ég ekki skipt um skoðun um nauðsyn þess að byggja hér nýjan spítala, en miðað við það sem hefur verið að gerast hér í heilbrigðisþjónustunni undanfarin fjögur ár þá mundi ég vilja sjá rekstur þeirra stofnana sem nú eru til staðar betur tryggðan og kjör og aðbúnað starfsfólks og sjúklinga betur tryggð, helst áður en farið er af stað. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan mundi ég líka vilja sjá hvaða tryggingar menn hafa fyrir því að byggingarkostnaðurinn fari ekki úr böndunum. Ég veit ekki af einni einustu opinberu framkvæmd á Íslandi sem ekki hefur farið úr böndunum, og ef það gerist með þessa byggingu (Forseti hringir.) mun hún ekki standa undir sér eins og reiknað er með heldur munu þurfa að koma til bein framlög (Forseti hringir.) frá skattgreiðendum sem fara þá ekki í annað, t.d. heilbrigðisþjónustu.