141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum stutt góð mál og greitt atkvæði gegn vondum málum en við höfum aldrei stutt fjárlög þannig að það er ekki rétt að við höfum stutt ríkisstjórnina.

Hvað varðar skattlagningu og skattstofna þá hljómar Laffer-kúrfan og sú kenning í kringum hana ágætlega. Hún er auðseld og margir hafa látið glepjast af henni. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki fyrr en skattar ná mjög háum hæðum að kenningin fer að sanna sig. Menn hafa tekið sem dæmi kannanir á vinnumarkaði sem hafa verið gerðar og það er ekki fyrr en skattar eru í einhverjum tilvikum komnir upp undir 70% að menn fara að minnka við sig vinnu.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að skattar á atvinnulífið eigi að vera miklu einfaldari en þeir eru í dag. Við erum að vinna að tillögum núna á vettvangi Dögunar, þar sem ég er að koma mér fyrir í pólitík, um róttæka uppstokkun og breytingu á skattumhverfi fyrirtækja (Forseti hringir.) þar sem tekjuskattar verða meðal annars afnumdir en veltuskattar (Forseti hringir.) settir á í staðinn.