141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:45]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi kannski já við ýmsu sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi. Það vantar þarna inn LSR, það vantar þarna inn Íbúðalánasjóð og að því leytinu til gefa þessi fjárlög ekki raunhæfa mynd af skuldastöðunni, hún er miklu verri og hærri en þetta.

Hvað varðar að fresta vaxtagreiðslum má vissulega líta á það sem einhvers konar nýtt lán, en menn gera það þá með þeim væntingum að hagkerfið fari að taka við sér og tekjustofnar ríkisins aukist og það verði hugsanlega til meiri peningar eftir einhver ár ef vöxtum er frestað. Mín ósk er einfaldlega sú að 10% af vaxtagreiðslum verði afskrifuð og að eigendur þeirra krafna taki þátt í uppbyggingu samfélagsins með þeim hætti að þeir samþykki að afskrifa þetta.

Ég sagði aldrei að skattar væru ekki nógu háir, skattar eru alveg nægilega háir, en hvað Laffer-kúrfuna varðar hafa (Forseti hringir.) ýmsar rannsóknir sýnt að skattar þurfa að vera hærri (Forseti hringir.) en þeir eru til að hún fari að bíta, en það er samt mjög misjafnt, það er ekki til neitt eitt svar við því.