141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir hans ágæta innlegg í fjárlagaumræðuna. Hann kom inn á mörg atriði og ég get tekið undir eitthvað af orðum hans, þar á meðal um mikilvægi þess að breyta vöxtum í velferð eins og hann leggur til með breytingartillögu sinni sem hann hefur lagt fram við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013.

Mig langar í fyrra andsvari mínu að dvelja aðeins við tillögu hans sem ég held að við getum flest tekið undir efnislega. Hefur hv. þingmaður hugleitt það hvort þessi tillaga geti haft áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins og þá í annan stað hvort einhver fordæmi séu fyrir henni af einhverju tagi á meðal þjóða sem eru álíka þróaðar og Ísland, ef svo má segja?