141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ljóst er að við þurfum að reikna þetta dæmi til enda ef lánshæfismatið er í uppnámi.

Mig langar að koma inn á annað atriði vegna þess að fjárlagaumræðan hefur farið um víðan völl og beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji að stjórnvöld hefðu getað unnið sig út úr efnahagshruninu og gengishruninu með öðrum hætti en gert var, þ.e. aðallega með auknum aðhaldsaðgerðum, beinum niðurskurði og tekjuöflun. Sumir hafa sagt í þessum ræðustóli að það hefði einfaldlega verið hægt að lækka skatta umtalsvert, jafnvel gífurlega til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Ég tel svo ekki vera vegna þess að fyrirtæki voru fórnarlömb oflánastefnunnar og gátu ekki komið sér í gang strax eftir hrun og því varð að grípa til aðhaldsaðgerða og aukinnar tekjuöflunar. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála mér að þessu leyti og þá ósammála því að (Forseti hringir.) hægt hefði verið að lækka skatta?