141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að hægt hefði verið að laga ástandið með því að lækka skatta. Ég held að það sé alveg einboðið að að einhverju leyti varð að fara þessa blönduðu leið, þ.e. að hækka skatta og skera niður. Víða hefur náðst mjög mikil hagræðing en hún er orðin það mikil að hún er farin að valda skaða.

Ég held að það hefði verið farsælla ef menn hefðu einhent sér í það strax frá byrjun að viðurkenna vandann algjörlega og skorinort og farið í það að vinna að almennri niðurfellingu og lækkun á skuldum heimilanna. Það hefði hleypt miklum gangi í efnahagslífið. Ef menn hefðu líka farið í það að afskrifa skuldir ríkissjóðs hefði staða ríkissjóðs náttúrlega batnað til muna og allir verið stöndugri á eftir. Á þeim tíma var fullur skilningur á því í alþjóðasamfélaginu að Ísland væri í mjög vondum málum og mundi ekki standa undir þessu svo vel væri. (Forseti hringir.) Síðan eru liðin allmörg ár, það er (Forseti hringir.) spurning hvort það sé orðið of seint. Ég held ekki.