141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég var mjög hugsi yfir umræðum hér í gær um fjárlög íslenska ríkisins. — Forseti, með leyfi að spyrja: Hef ég ekki 30 mínútur í þessa ræðu?

(Forseti (ÁÞS): Það verður kannað að beiðni hv. þingmanns en 20 mínútur eru engu að síður drjúgur tími [Hlátur í þingsal.] en líklega hefur þingmaðurinn rétt fyrir sér að hann eigi 30 mínútur og það verður þá leiðrétt.)

Ég þakka forseta leiðréttinguna en spurningin varðandi tímasetninguna — tími er afstæður og í lífi þessarar ríkisstjórnar þykja mér 20 mínútur langur tími en [Hlátur í þingsal.] fremur skammur ef hann er notaður til þess að mæla hversu langan tíma maður hefur til að fjalla um störf hennar.

Varðandi það mál sem við ræðum þá vakti það mig mjög til umhugsunar í gær, þegar frumvarp til fjárlaga næsta árs var til umræðu, hvernig viðbrögðin við því voru af hálfu stjórnarliða og einnig stjórnarandstöðunnar. Og svo heldur sú umræða eflaust áfram hér í dag. Maður heyrir, til dæmis í þeim andsvörum sem hafa komið nú þegar, í hvað stefnir með umræðu dagsins.

Ég held að meginspurningin sem við þurfum öll að spyrja okkur sé sú hvort þessi fjárlög fyrir árið 2013 séu marklaust plagg. Svarið við þeirri spurningu, ef við kippum því upp úr pólitískum hjólförum, þarf ekki endilega að vera já eða nei heldur ættum við þá að spyrja um hvað verið sé að spyrja. Er verið að spyrja hvort fjárlögin séu marklaus gagnvart þeim megináformum sem þar eru sett fram um að reyna að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálum? Eða erum við að fara inn í frumvarpið og taka út einstök dæmi þar um fjárveitingar til tiltekinna verkefna?

Ef við byrjum á fjárveitingum til einstakra verkefna getum við alveg fullyrt að þeim fjármunum sem þar eru merktir verður eytt. Að því leyti til eru fjárlög næsta árs ekki marklaus. Ef við horfum hins vegar til stóru myndarinnar og meginmarkmiðsins með fjárlögum, um að ná heildarjöfnuði sem mestum, verður spurningin dálítið flóknari og sennilega fyrst og fremst vegna þess að við höfum enn ekki fengið í hendur þær fjárhagsstærðir sem gera okkur kleift að leggja mat á hvort fjárlögin 2013 séu marklaust plagg.

Ég hallast hins vegar að þeirri skoðun að svo sé, ekki síst í ljósi orða þáverandi fjármálaráðherra, Oddnýjar Harðardóttur, við framlagningu þessa frumvarps í september. Hún vænti þess að hagvaxtarspá Hagstofu Íslands, sem gefin yrði út í nóvember, gæfi tilefni til nokkurrar bjartsýni um að hægt yrði að hækka tekjur í fjárlagafrumvarpinu og ná þar af leiðandi betri stöðu. Veruleikinn varð annar. Hagvaxtarspá Hagstofunnar, Þjóðhagsspáin sjálf, sem er grunnur fjárlagafrumvarpsins, lækkaði um 0,2% þannig að þær væntingar fóru út um gluggann. Sömuleiðis viðhafði fjármálaráðherra við framlagningu frumvarpsins þau orð að um það ríkti nokkur óvissa, sérstaklega að því leytinu til sem lýtur að Íbúðalánasjóði og væntanlegum niðurstöðum í málarekstri út af Icesave-málinu.

Þetta eru stór mál og þó ekki væri nema í ljósi þessara orða held ég að við verðum að hafa nokkurn fyrirvara á því hversu mikið mark er takandi á því plaggi sem við ræðum hér. Ég verð líka að játa að sporin hræða. Við höfum séð hvernig gripið hefur verið til ýmissa fjárráðstafana á yfirstandandi fjárhagsári sem birtast síðan ekki fyrr en í ríkisreikningi einu til einu og hálfu ári síðar. Matið sem lagt verður á það frumvarp sem við ræðum hér, er verður að fjárlögum fyrir næsta ár, mun ekki fara fram fyrr en á árinu 2014, vonandi — seint að hausti að öllum líkindum, en væri æskilegt ef hægt væri að gera það í maí þegar ríkisreikningur fyrir árið 2013 kemur fram. Þá fyrst getum við fellt endanlegan dóm.

Ég sagði: Sporin hræða. Ef við horfum á mismun á fjárlögum hvers árs og ríkisreikningi viðkomandi árs sjáum við að á árinu 2010 var mismunur á milli fjárlaga þess árs og ríkisreiknings, hinnar raunverulegu útkomu, 43 milljarðar króna. Uppgjörið á árinu 2011 var þannig að fjárlögin voru 53 milljörðum lægri en raunveruleg niðurstaða varð. Bara á þessum tveimur árum sjáum við útgjöld umfram gildandi fjárlög upp á rétt um 100 milljarða kr. Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið, og að mínu mati í fyllsta máta eðlilegt, að hv. þingmenn, eftir þessa reynslu undangenginna tveggja ára, hafi ríkan fyrirvara á því hversu mikið mark skuli taka á því fjárlagafrumvarpi sem hér er lagt fram.

Í ljósi umræðna sem áttu sér stað hér í gær þykir mér málsvörn stjórnarliða, fyrir þeim tillögum sem þeir standa fyrir hér, ekki burðug. Það eru miklir veikleikar í henni, sérstaklega í því sem lýtur að því stóra markmiði að ná áfanga í heildarjöfnuði í ríkisfjármálum. Eins og kom fram í máli mínu er markmiðið að heildarjöfnuður í fjárlagafrumvarpinu, þegar það kom fyrst fram, verði 2,8 milljarðar í mínus.

Það er ljóst, eftir þessar tillögur við 2. umr., að hann ætti samkvæmt þeim að lækka. En sömuleiðis er ljóst að margir útgjaldaliðir eiga eftir að falla inn í fjárlögin sem koma til með að raska þessu meginmarkmiði. Hvernig svo sem menn munu reyna að verja það eða fela, skjóta því fram hjá, er alveg ljóst að þegar gert verður upp á árinu 2014, því fjárhagsári sem senn fer í hönd, verður hallinn á ríkisreikningi alveg örugglega ekki neikvæður um 2,8 milljarða heldur töluvert hærri fjárhæð.

Hvað veldur þessu? Það er ekki gott að segja en ég leyfi mér samt sem áður að fullyrða að það eru ákveðin lausatök, ákveðið los, það er skortur á aga og festu í ýmsu því sem lýtur að fjárhagsmálefnum ríkisins. Það er ekki bara úti í stofnunum heldur fyrst og fremst, að mínu mati, í yfirstjórn þessara mála.

Ég hef ekki verið lengi á þingi, að minnsta kosti ekki eins lengi og sá ágæti hv. þingmaður sem hér gengur fram hjá, Pétur H. Blöndal. (Gripið fram í: Allt of lengi.) — Nei, hann hefur ekkert verið allt of lengi hér, það er langur vegur frá. Hann á góða sögu hér í þingsölum og langur vegur frá að hv. þingmaður hafi verið allt of lengi hér inni. Ég hef verið hér í fimm ár og á þessum tíma hef ég vart tölu á því með hve mörgum formönnum ég hef starfað í fjárlaganefnd. Þeir eru sennilega fimm, einn á ári. Ef við horfum bara til þessa árs sem við nú upplifum, þess herrans árs 2012, hvernig er þessu þá háttað? Jú, við höfum verið með tvo formenn í fjárlaganefnd en á fjárhagsárinu 2012, og í þeim fjárlögum sem gilda fyrir árið 2012, höfum við verið með þrjá fjármálaráðherra sem tengjast því með einum eða öðrum hætti.

Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, lagði frumvarp að fjárlögum ársins 2012 fram haustið 2011, fylgdi því eftir allt fram að áramótum. Þá tók hv. þm. Oddný Harðardóttir við ráðuneyti fjármála og annaðist um framkvæmd fjárlaga ársins 2012 í tíu mánuði. Þá tók núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, við embætti fjármálaráðherra og hennar hlutverk og hennar skylda við fjárlögin fyrir árið 2012 sem fjármálaráðherra varir í tvo mánuði. Að minni hyggju er ekki nægilega vel utan um hlutina haldið og þetta býður upp á að upplýsingar, áform og annað fari á skjön og ákveðin lausatök verði í því hvernig viðkomandi ráðherra er ábyrgur og skuldbundinn því verki að halda ríkisrekstrinum innan þess ramma sem Alþingi samþykkti í lögum fyrir það ár.

Að þessu leyti til ber ég ákveðinn ótta í brjósti gagnvart því að útkoman í ríkisreikningi fyrir árið 2012 verði töluvert frábrugðin þeim áformum sem í frumvarpinu eða lögunum fyrir fjárlögin á því herrans ári gáfu tilefni til að ætla. Það er meðal annars í því ljósi sem réttmætar efasemdir eru uppi um frumvarpið sem við nú ræðum, fjárlögin fyrir næsta ár. Til viðbótar lausatökum í yfirstjórninni, í fjármálaráðuneytinu og í fjárlaganefnd og samskiptum þar á milli, þá er ekki síst í því ljósi ástæða til að hafa ákveðinn ótta af því að utanumhaldið sé ekki nægilega traust. Og þegar við bætist óvissa af ýmsum þáttum sem er boðað að komi inn fyrir 3. umr., lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, sjá allir að það er fullkomlega eðlilegt að alþingismenn hafi fullan fyrirvara á því frumvarpi sem fyrir liggur.

Hver eru þessi stóru mál? Stærstur er sennilega Íbúðalánasjóður. Því miður sýnist mér stefna í að stjórnarmeirihlutinn ætli að afgreiða hann með sama hætti og gert var við 33 milljarða kr. framlagið sem sett var inn í sjóðinn á árinu 2011. Það var tekið inn í ríkisreikning á árinu 2010. Nú stefnir í að meiri hluti þingsins ætli að setja 13 milljarða kr. af skattfé almennings inn í þennan sama sjóð, sleppa því að taka þetta inn í fjáraukalögin fyrir árið 2012 til að sleppa því að sýna raunverulega stöðu á ríkissjóði á árinu 2012 heldur skjóta þessu inn í fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013, væntanlega rétt fyrir lokaumræðu þess.

Hvernig mun það fara? Ég spái því að það fari eins með það framlag, að restin af því verði tekin inn í fjáraukalög á árinu 2013 og síðan verði þessir 13 milljarðar gjaldfærðir inn í ríkisreikninginn 2012. Þetta er illt og til viðbótar fullyrði ég að ef þetta gengur eftir — nú er sá fyrirvari á þessari athugasemd minni að við höfum ekki enn séð tillögu ríkisstjórnarinnar né heldur þá útfærslu sem hún ætlar að hafa á þessu, en ég spái því að þetta verði svo. Þó ekki væri nema í því ljósi að Alþingi hefur ekki enn barið augum tillögu upp á að minnsta kosti 13 milljarða kr. á föstudegi, þegar starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir því að lokaumræða um fjárlögin hefjist á miðvikudegi, þá spyr maður sig hvers lags vinnubrögð þetta séu.

Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Það er ekki boðlegt að vinna með svona stórar stærðir án þess að Alþingi fái tíma til að ræða og rýna þær. Þó fullyrði ég að utanumhald fjárlaganefndar um Íbúðalánasjóðinn, að svo miklu leyti sem það snýr að henni, hefur hingað til verið ágætt, allt þar til nú að við höfum ekki fengið að sjá þá útfærslu sem ætlunin er að setja inn í þetta. En okkur hefur gefist ágætisfæri á að rýna þá skýrslu og greinargerð sem til grundvallar liggur og það skal undirstrikað og sagt hér.

Það eru fleiri þættir í þessu. Í andsvörum áðan var verið að ræða um Landspítala – háskólasjúkrahús. Dettur mönnum virkilega í hug að halda því máli til streitu með þeim hætti að taka þetta inn til afgreiðslu á miðvikudaginn kemur, framkvæmd upp á marga tugi milljarða, að lágmarki 55 milljarða kr., þegar gert var samkomulag um það í þinginu, þegar frumvarp um byggingu Landspítalans var gert, að áður en ákvörðun um framhald þess verks yrði tekin kæmi málið til fjárlaganefndar, það yrði unnið þar og rýnt og á upplýstum grunni yrði tekin ákvörðun um hvort og hvernig haldið yrði áfram með verkið. Við höfum ekki séð stafkrók um þessi áform í tengslum við það frumvarp sem hér er til umræðu um fjárlög til næsta árs. Við höfum ekki séð stafkrók um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss í tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár.

Að auki má nefna annað mál sem hefur ekki verið nefnt hingað til í þessari umræðu en það er Lánasjóður íslenskra námsmanna. Hvernig ætla menn að fara með hann? Það liggur fyrir að útlánaheimildir þar hafa verið rýmkaðar. Það liggur sömuleiðis fyrir að veðin sem lánasjóðurinn hefur haft fyrir útlánum sínum hafa verið rýrð. Það liggur líka fyrir að hæstv. menntamálaráðherra gengur með hugmyndir um einhverjar breytingar á lánasjóðnum. Ekkert af þessum málum liggur hér inni. Ekkert af þessum málum er komið inn í frumvarpið eins og það birtist okkur. Ekki er gerð ein einasta tilraun til að meta áhættuna af þessum þætti í ríkisreikningunum, vegna lánasjóðsins, sem vissulega má fullyrða að geti lent í svipaðri stöðu og Íbúðalánasjóður er lentur í. Hafa ber fullan fyrirvara á fjárhagslegri stöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sambærilegar áhyggjur og svipaðar og af Íbúðalánasjóði.

Þegar stjórnarandstaðan hefur verið að rækja sitt lögbundna hlutverk, að gagnrýna og veita ríkisstjórnarflokkunum aðhald við fjárlagagerðina — það er fyrst og fremst hlutverk okkar að gagnrýna þær tillögur sem koma fram — er nauðvörn stjórnarliða oftar en ekki fólgin í því að kalla á stjórnarandstöðu og skora á hana að koma með tillögur. Hverjar eru ykkar tillögur? Þegar okkur hefur gefist tími og ráðrúm til hefur ekki staðið á því að stjórnarandstaðan hafi sett fram tillögur. En þó svo að tími og ráðrúm sé fyrir hendi skortir í það minnsta einn þátt enn til að tillögugerð sé sett fram af einhverju skynsamlegu viti, og það eru upplýsingar.

Nú háttar svo til að ég hef gert ítrekaðar tilraunir til þess í fjárlaganefnd að afla mér upplýsinga um raunverulega stöðu fjárlagaliða á árinu 2012. Þá ber svo við að meiri hluti fjárlaganefndar hafnar óskum um aðgang að upplýsingum. Fjármálaráðuneytið hafnaði á fundi með fjárlaganefnd óskum um aðgang að upplýsingum. Þó að þingsköpum hafi verið beitt, til að reyna að fá fram þessar upplýsingar, hafa stjórnarliðar í nefndinni ekki orðið við þeirri ósk og nefndin hefur ekki verið virt viðlits af fjármálaráðuneytinu, hefur ekki fengið fram nauðsynlegar upplýsingar til að geta sett fram skynsamlegar, vel ígrundaðar tillögur í tengslum við fjárlagagerð ársins 2013.

Þetta gerist þrátt fyrir að í fjárlaganefnd sitji einstaklingar, ágætir einstaklingar og félagar manns, sem hafa þá reynslu að baki að hafa starfað við fjölmiðla í landinu. Þetta eru þeir einstaklingar sem eiga að hafa hvað bestan og mestan skilning á því hversu upplýsingar eru nauðsynlegar í lýðræðissamfélagi ef menn eiga að geta unnið og rækt skyldur sínar. Um blaðamann eða fjölmiðlamann eða þingmann í leit að upplýsingum gilda nákvæmlega sömu lögmál. Það er ömurlegt að vita til þess að einn hv. þingmaður í fjárlaganefnd er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og hann gengur fram með þeim hætti að fella óskir þingmanna um að fá aðgang að upplýsingum. Sá sem ég ræði um hér er hv. þm. Lúðvík Geirsson.

Ég hefði aldrei trúað því að menn gengju fram með þeim hætti að koma í veg fyrir það beinlínis að þingmenn gætu rækt hlutverk sitt. Þingmenn hafa verið kjörnir til ákveðinna starfa en þó er kannski sá stigsmunur á þingmönnum og fjölmiðlamönnum að fjölmiðlamenn hafa þá ákveðið frelsi um það hvort þeir sinni því starfi eða ekki, þeir eru ekki kjörnir til skyldustarfa. Að óreyndu hefði ég ekki trúað þessari framgöngu. En svo lengi lærir sem lifir og það getur stundum verið sárt að þurfa að horfa upp á hluti af þessu tagi. En ég hefði að óreyndu, og vil ítreka það, aldrei trúað því að ég ætti eftir að upplifa það að þingnefnd virði ekki þau ákvæði þingskapa sem kveða á um upplýsingagjöf. Það er einfaldlega sárt að þurfa að viðurkenna það.

Þegar verið er að gagnrýna aðhaldsmarkmið og annað, hvernig útfærslu þeirra er háttað, er oft bent á eðlilega þætti sem stjórnarliðar telja sér til bóta. Það er bara gangur lífsins að menn reyni að verja sig og ekkert við það að athuga. Þar er nefnt sérstaklega að bætur skuli hækkaðar til barnafólks í formi barnabóta og vaxtabóta og miðað er við ástandið eins og það er gott. Ég hef þó haft þá skoðun og þann fyrirvara á þeim greiðslum að það sé illt að vera að ráðstafa fjármunum til þessara hluta ef taka þarf þá að láni. Ég fullyrði hins vegar að aðrar ráðstafanir í fjárlagafrumvarpinu kalla yfir þessar sömu fjölskyldur, þá sem munu fá og njóta þessara bótaflokka, allt aðrar og meiri fjárhagslegar þrengingar vegna áhrifa þeirra breytinga á gjöldum og sköttum sem boðaðar eru í frumvarpinu. Áhrif þeirra á vísitöluna munu hækka framfærslukostnað heimila og fjölskyldna í landinu í formi hærri lyfjakostnaðar og í formi hærri afborgana eða húsnæðisskulda. Þar er um að ræða miklu hærri fjárhæðir nokkurn tímann en í formi þeirra bótaflokka — og ef ég man rétt þá er að minnsta kosti annar þeirra takmarkaður í tíma.

Forseti. Af því ég dvaldi hér við aðgang þingsins og þingmanna að upplýsingum þá gleymdi ég að minnast á að í hópi þeirra þingmanna sem standa gegn því að stjórnarandstaðan í fjárlaganefnd fái upplýsingar eru að minnsta kosti tveir hv. þingmenn flutningsmenn að frumvarpi til laga um miðlun upplýsinga. Að vísu er það líka um vernd uppljóstrara. En maður spyr: Hvar er samræmið á milli gerða þessara þingmanna í nefndinni, að vísu á lokuðum fundi, og hér í þingsal, undir opnum umræðum, við framlagningu frumvarps? Ég kem ekki auga á það samræmi og það færi betur að það væri meira. Ég hvet hv. þingmenn til að standa vörð um það sem þeir vilja, alla vega í þessu skjali hér, standa vörð um.

Ef við horfum á forgangsmálin fyrir okkur í tengslum við fjárlagagerðina held ég að allir séu sammála um hver sá grunnur sé, þ.e. hvert sé forgangsverkefni þingsins við fjárlagagerðina. Það er að koma böndum á skuldir og vaxtakostnað ríkissjóðs. Ef við erum sammála um að þetta sé stærsta málið sem við þurfum að vinna að, hvað veldur því þá að forgangsröðunin í verkefnum þingsins er allt önnur.

Ég fullyrði að forgangsröðun bróðurparts þingmanna er sú að þeir láta aðra um þetta verkefni, þ.e. fjárlaganefndina og einhverja örfáa sérvitringa sem hafa mikinn áhuga á þessum hlutum eins og sérvitringarnir sem sitja í nefndinni. Þetta er grundvallaratriði í því sem við erum að gera — með orðinu sérvitringar er ég ekki að gera lítið úr þeim sem hafa áhuga og getu til að stunda þetta, langur vegur frá, af því að mér var gefið, forseti, merki hér utan úr sal af mjög góðum manni. Þetta er spurning um forgangsröðun um verkefni þingsins.

Ég fullyrði, með virðingu fyrir öðrum verkefnum sem þingið vinnur að, að þetta er stærsta einstaka verkefni sem Alþingi ber að fást við og þarf að fást við, það eru þessar tvær stærðir, tvær breytur. Skuldahluti ríkisreikningsins og vaxtakostnaður ríkissjóðs. Í mínum huga þarf allt annað að víkja fyrir þessu máli. Gildir þá einu hvort við ræðum breytingar á lagaumhverfi, hvort heldur það heitir stjórnarskrá eða það stóra vandamál, að dómi sumra, að Ísland sé ekki í ESB o.s.frv. Þetta er algjört forgangsmál í mínum huga og það er dapurt til þess að vita að umræðan sé þannig og vinnan að þingið viti í raun ekki sitt rjúkandi ráð um það hver meðferð þessara skuldahluta er. Við upplifum það að milli jóla og nýárs, hálfum mánuði eftir að fjárlög ársins 2012 eru samþykkt, að gripið er til ráðstafana um að greiða upp tiltekin lán hraðar en ætlunin var, taka síðan ný lán í mars til þess að geta annast um þessa uppgreiðslu.

Þarna er sveifla í lántökuhluta fjárlaganna upp á yfir 100 milljarða kr. og hvað kemur svo í framhaldinu á þessu? Hverjir keyptu skuldabréf ríkisins í skuldabréfaútboðinu í vor, 1 milljarð bandaríkjadala? Umræðan er í þá veru að þar á meðal séu hinir svokölluðu vogunarsjóðir sem hafi tekið þátt í þessu útboði. Maður spyr sig þá: Á hvaða vegferð er íslenski ríkissjóðurinn þegar svo er komið? Ég held að brýn nauðsyn sé á því að spyrja sig, fara yfir það af skynsemi og gaumgæfni, hverjum íslenski ríkissjóðurinn skuldar, hverjir eru eigendur þeirra skulda sem hvíla á íslenska ríkissjóðnum. Meðan menn hafa ekki áhyggjur af þessum þáttum þá er eitthvað mikið að og ástand mála ekki nægilega gott. Ég hvet menn til að hugleiða það (Forseti hringir.) að þetta er það verkefni sem okkur ber fyrst af öllu að rækja.