141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er ekkert einfalt svar við því, við náum ekkert og komum ekki böndum á þá þróun sem lýst er í nefndaráliti okkar með því að veita safnliði eða loka hjúkrunardeild á Akranesi. Málið er miklu stærra og viðameira en svo að við getum leyft okkur að vinna það þannig að klípa þetta svona hist og her.

Ég er þeirrar skoðunar, sem ég byggi á upplýsingum sem koma fram í nefndaráliti okkar, að við erum dottin með ríkissjóðinn ofan í ákveðinn spíral þar sem skuldir ríkisins, á því þriggja ára tímabili sem ég sæki upplýsingarnar í ríkisreikninginn, vaxa um 150 milljarða og nettóvaxtakostnaðurinn eykst um 23 milljarða. Í árslok 2013, samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir, mun hann nema hátt í öllum tekjuskatti einstaklinga á Íslandi eða 88 milljörðum, brúttóvaxtakostnaðurinn, en tekjuskatturinn losar rétt rúmlega 100 milljarða.

Viðfangsefnið er að mínu mati orðið það stórt að það verður ekkert unnið í einhverjum pólitískum hanaslag á Alþingi. Það er orðið þannig verkefni að menn verða að setjast saman yfir það, hvar svo sem þeir standa í flokki á Alþingi og hvar svo sem þeir standa í fylkingu úti í þjóðfélaginu. Meðan það er ekki gert verðum við í þeim veruleika sem við erum núna þegar allir — það eru allir — að gera kröfu á ríkissjóðsgarminn. Það er gefið til kynna að hann standi það vel að hann ráði alveg við það. Þar af leiðandi gera allir kröfu til þess (Forseti hringir.) að fá sitt, eins og Jón í næsta húsi.