141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Nei, það er alveg rétt. Eins og það er unnið, og kom fram í minni ræðu, er verið að vinna verkefnið að einhverjum hluta utan þingsins og utan nefndarinnar. Eðlilega vinnur meiri hluti með sínar tillögur og ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við það meðan þetta er svona. Ég er að reyna að draga hérna fram, hvoru tveggja í nefndarálitinu og í þeim ræðum sem ég hef flutt í þeim efnum í gær og í dag, að það verklag gengur ekki lengur upp. Reynsla síðustu þriggja ára sýnir okkur það alveg svart á hvítu og ég hef spáð því að ríkisreikningurinn fyrir árið 2012, og ekki síður fyrir árið 2013, muni staðfesta það enn frekar. Ég legg til að við reynum að setjast saman yfir það að forða því að sú staða komi upp og haldi áfram. Meðan annað er gefið til kynna, með óréttmætum hætti að stórum hluta að mínu mati, og dregin upp einhver fegruð mynd munu kröfurnar sýknt og heilagt (Forseti hringir.) beinast að ríkissjóði.