141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013, 2. umr. um þetta mikilvæga mál, mikilvægasta mál á hverju þingi, mikilvægasta mál hverrar ríkisstjórnar vegna þess að þar kemur forgangsröðun hverrar ríkisstjórnar — forgangsröðun verkefna, í pólitík og á mikilvægi mála — hvergi betur í ljós. Hér hafa bæði stjórnarliðar talað og við í stjórnarandstöðunni og eins og oft áður eru menn ekki alveg sammála um stöðuna. Það sem mér hefur þótt eftirtektarvert í umræðunni er að mér finnst ábyrgðarmenn og talsmenn þessa frumvarps ekki vera sammála um hvort staðan sé góð og fari batnandi. Erum við að komast yfir vandann og sjá fram á jöfnuð í ríkisfjármálum eða erum við enn að glíma við afleiðingar hrunsins, 18 ára valdatíðina sem hv. formaður fjárlaganefndar sem hér er í salnum þreytist ekki á að ræða, og getum ekki uppfyllt alla grunnþjónustu vegna þess að við eigum ekki fyrir því? Hér varð stórfellt efnahagshrun, er jafnan viðkvæðið.

Ég er ekki alveg viss hvort staðan sé þannig að við horfum fram á bjartari tíma eða hvort við séum enn þá í vandanum miðjum. Ég vona að hv. þm. Björn Valur Gíslason nái að skýra þetta út fyrir mér. Eins og þetta blasir við mér finnst mér þetta reyndar mjög skýrt. Eins og ég les tölurnar, eins og ég les það sem er í frumvarpinu og það sem er ekki í því, finnst mér einsýnt að við horfum fram á gríðarlegan vanda. Hér er sópað undir teppið gríðarlegum upphæðum, gríðarlegum vandamálum sem á að takast á við einhvern tímann seinna, einhvern tímann eftir kosningar. Núna er allt kapp lagt á að fegra stöðuna, leyna stöðunni.

Ég skrifaði grein einhvern tímann þegar fjárlagafrumvarpið kom fram og kallaði það fegrunaraðgerð fjármálaráðherra. Við getum tekið dæmi um Íbúðalánasjóð. Sama dag og 2. umr. hófst ákveður ríkisstjórnin að setja 13 milljarða kr. inn í Íbúðalánasjóð eins og allir vita. Af hverju ekki fyrr en núna? Þessi tala var nefnd í þingsal, í fjölmiðlum og opinberlega í apríl og talað um að Íbúðalánasjóð kynni að vanta 12–14 milljarða kr. Af hverju kom þetta ekki fram í fyrsta lagi í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í september og í öðru lagi, af hverju kemur þetta ekki inn í tillögur sem hv. þm. Björn Valur Gíslason ber ábyrgð á sem formaður fjárlaganefndar við 2. umr? Af hverju á þetta að koma inn við 3. umr. sem er miklu styttri en 2. umr.? Er það kannski vegna þess að stjórnarmeirihlutinn þorir ekki að taka þá umræðu?

Það eru fleiri hlutir sem ekki eru tíndir til í frumvarpinu en munu kosta mikla peninga. Það er rakið ágætlega í prýðilegu áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar sem sjálfstæðismennirnir hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifa undir og ég tek að sjálfsögðu undir hvert orð. Þau nefna að mörg kostnaðarsöm verkefni bíða úrlausnar; nýr Landspítali, Íbúðalánasjóður, Harpa, löggæslumálin sem við þekkjum og ég vík að síðar, strandsiglingar og margt annað sem stjórnarmeirihlutinn segir að við megum vænta á útgjaldahlið. Af hverju í ósköpunum eru þessar tölur ekki inni í frumvarpinu? Hvernig í ósköpunum getur þetta fólk í stjórnarmeirihlutanum talað um að verið sé að ná utan um vandann og við séum að horfa upp á nánast hallalausan ríkissjóð? Keisarinn er ekki í neinum fötum, það er bara þannig. (Gripið fram í.) Ríkissjóður verður ekki rekinn hallalaus árið 2013. Ríkissjóður verður ekki rekinn með 2 milljarða kr. halla eins og lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu, það sjáum við best á þeim útgjaldatillögum sem eru lagðar fram til viðbótar auk þess sem ekki er rætt.

Svo er það næsta mál sem við þurfum að ræða. Ég nefndi í upphafi að fjárlagafrumvarp snýst um forgangsröðun. Lítum aðeins á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin segir að hér sé allt í góðu lagi. Við erum með fjárfestingaráætlun sem stjórnarliðar skilja ekkert í að við föllum ekki í stafi yfir af því að við sjálfstæðismenn erum nú alltaf að kalla eftir fjárfestingu, en við erum ekki að kalla eftir fjárfestingu sem er byggð á sandi. Ríkisstjórnin trúir ekki einu sinni sjálf að þessi áform í fjárfestingaráætlun muni ganga eftir, vegna þess að í öllum tillögunum, öllum fallegu verkefnunum, grænu skrefunum og grænu fjárfestingunum og grænkun íslenskra fyrirtækja, er þessi fyrirvari, með leyfi forseta:

„Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Þetta þýðir með öðrum orðum: Við ætlum núna að vera, og það er við hæfi á þessum árstíma, eins og jólasveinninn. Við ætlum að gefa í skóinn út um allt, en svo verða það bara Grýla og Leppalúði sem taka við eftir kosningar sem munu þurfa að taka nammið úr skónum og passa upp á að þetta verði ekki að veruleika. Það er augljóst að fjármögnun fjárfestingaráætlunarinnar er hvergi í hendi. Það er talað um aukna skattheimtu á sjávarútveginn. Við ræddum hana í löngu máli þegar sú óheillalöggjöf var til umræðu og samþykkt á fyrra þingi. Við höfum ekki séð hverjar tölurnar verða á endanum af hækkun veiðigjaldsins. Við erum hvergi nærri búin að sjá afleiðingarnar af þeirri löggjöf. Við sáum reyndar dæmi um afleiðingar í síðustu viku þegar 35 manns var sagt upp á Siglufirði, en tvö fyrirtæki boðuðu uppsagnir beinlínis vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og vegna veiðigjaldanna. Þetta er að gerast í kjördæmi hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, hann hlýtur að vera ánægður með það.

Þessi fjárfestingaráætlun er því ekki í hendi. En segjum sem svo að fjármögnun hennar væri í hendi, tökum umræðuna eins og hún væri það og við værum bara nokkuð örugg um að ná þessum tekjum. Þá komum við nefnilega að forgangsröðuninni sem ég nefndi áðan. Í hvaða forgangsröð raðar ríkisstjórnin? Ég get nefnt lítið dæmi úr minni heimabyggð. Fjölbrautaskóli Suðurnesja komst í fréttir fyrr í haust. Vegna skorts á framlögum í fjárlagafrumvarpinu stefndi í að fara þyrfti í stórfelldar uppsagnir og neita nemendum um skólavist. Málið snerist um 70 milljónir sem skólinn taldi sig þurfa. Síðan var farið ofan í tölurnar og ég er ekki alveg klár á því hvaða upphæð menn komu sér saman um á endanum að þyrfti til, en hún er ekki fjarri 70 milljónum.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar er safnliður þar sem eru framlög til framhaldsskóla og gerð grein fyrir skiptingunni í sérstöku yfirliti. Þar er Fjölbrautaskóli Suðurnesja með 14,6 milljónir. Menntamálaráðherra hefur sagt að vandi framhaldsskólanna sé að sönnu mikill, en við þurfum að taka tillit til að ekki eru til endalausir peningar. Þarna vantar kannski 30, 40 milljónir til reksturs skólans til að hann geti haldið óbreyttri starfsemi. Þessar fjárveitingar eru ekki síst til þess fallnar að vinna bug á brottfalli sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir gerði að umtalsefni, hún er reyndar fyrrverandi skólastjóri þessa skóla og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og fyrrverandi fjármálaráðherra sem lagði fram þessar tillögur í upphafi. Hún gerði brottfallið að umtalsefni og ég deili þeirri skoðun hennar að það er sannarlega mikið vandamál. Hún sagði að við þyrftum að taka höndum saman um að vinna bug á því. Á sama tíma styður hún væntanlega tillögur meiri hlutans um að vinna ekki bug á brottfalli í þessum ágæta skóla, vegna þess að framlagið er 14,6 milljónir sem dugar ekki til og mun kalla á uppsagnir kennara í skólanum eða starfsliðs og fækkun námsbrauta eða skerta þjónustu við nemendur.

Gefum okkur það að við værum með þessa fjármuni í hendi. Á sama tíma telur stjórnarmeirihlutinn algjörlega rétt að verja 280 millj. kr. í grænkun íslenskra fyrirtækja. Það er vafalaust ágætisverkefni en það er bara eitthvað sem við eigum ekki pening fyrir í augnablikinu. Ég leyfi mér að fullyrða að það má bíða. Við höfum ekki farið í grænkun íslenskra fyrirtækja hingað til og ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki stærsta vandamál íslensks atvinnulífs í dag. En þetta er forgangsröðunin.

Við getum nefnt fleiri dæmi. Við getum nefnt sjúkraflutninga í mínum heimabæ. Ég hitti slökkviliðsstjórann í Reykjanesbæ, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja. Það vantar rétt innan við 20 milljónir í sjúkraflutninga á Suðurnesjum sem hafa margfaldast vegna skertrar þjónustu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þetta er ekkert einsdæmi á landinu, þetta á við um velflestar heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni. Nálægð Keflavíkur við höfuðborgarsvæðið veldur því að gríðarleg aukning hefur orðið í sjúkraflutningum frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur. Það er afar kostnaðarsamt. Reksturinn hefur verið tekinn í gegn og er algjörlega til fyrirmyndar. Það sem vantar upp á núna er að verðlagsbæta í raun framlögin og bæta stofnanasamninga sem gerðir hafa verið og eru staðreynd. Það verður farið að borga eftir þeim í upphafi nýs árs en þeir eru ekki bættir. Það eru innan við 20 milljónir sem duga til að hægt sé að tryggja þessa mikilvægu þjónustu. Þetta fæst ekki í gegn vegna þess að ekki eru til fjármunir. Hér varð efnahagshrun, er viðkvæðið.

Á sama tíma eru settar 280 milljónir í grænkun íslenskra fyrirtækja. 150 milljónir í græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana, 50 milljónir í grænar fjárfestingar, 500 milljónir í sýningu fyrir náttúrugripasafn og svo mætti lengi telja í fjárfestingaráætlun sem í þokkabót er byggð á sandi. Þetta er forgangsröðunin. Á sama tíma og löggæslumenn í Árnessýslu þurfa að keyra fram hjá slysum, keyra fram hjá vettvangi þar sem orðið hefur slys vegna þess að það er annað alvarlegra slys einhvers staðar annars staðar, vegna þess að það er ekki hægt að halda úti mannskap á þessu gríðarlega stóra landsvæði sem umdæmið er, má setja 280 milljónir í grænkun íslenskra fyrirtækja. Þetta er skammarleg forgangsröðun, herra forseti.

Þetta eru gæluverkefni sem eru fjármögnuð af ófjármagnaðri fjárfestingaráætlun sem byggð er á sandi og byggð á vondri löggjöf um veiðigjöld sem eiga eftir að stórskaða hagsmuni íslensks sjávarútvegs.

Svo er það nýjasta. Til þess að bæta í á tekjuhliðinni á milli umræðna er komið nýtt „fiff“ hjá ríkisstjórninni; að taka auknar arðgreiðslur út úr ríkisfyrirtækjum. Taka meiri pening út úr Landsvirkjun, út úr Rarik, út úr bönkunum, það er leiðin til aukinnar tekjuöflunar.

En vitið þið hvað? Þetta hljómar ótrúlega mikið 2007. Hvað gerðist í aðdraganda hrunsins? Hvað höfum við verið að gagnrýna? Er það ekki að tekinn hafi verið út arður úr fyrirtækjum og þau mergsogin? Telur ríkisstjórnin þetta stönduga tekjuöflun? Ég held ekki. Þetta mun ekki hafa góð áhrif á þessi ríkisfyrirtæki. Þessi fjármögnun aukinna útgjalda á milli umræðna er ekkert annað en ófjármögnuð og illa ígrunduð tekjuöflun byggð á sandi. Það er engin verðmætasköpun. Það er engin aukin verðmætasköpun neins staðar í frumvarpinu eða í stefnu ríkisstjórnarinnar, þvert á móti er komið í veg fyrir verðmætasköpun. Það er verið að draga úr henni. Þar er hægt að nefna orkugeirann sérstaklega, ferðaþjónustugeirann og það má nefna sjávarútveginn.

Mig langar aðeins að koma að tekjuöfluninni vegna þess að nú loksins … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti vill kanna hvort hann megi bjóða hv. þingmanni að gera hlé á ræðu sinni þegar hér er komið.)

Ræðumaður er alla vega ekki búinn með ræðu sína, þannig að ef forseti hyggst gera hlé mun ég þiggja að gera hlé á ræðu minni.

(Forseti (ÁÞS): Forseti hyggst gera 30 mínútna fundarhlé núna. Forseta þótti við hæfi að gera það á þessum tímapunkti.)

Þar sem ákveðin kaflaskil voru að verða í ræðu minni …

(Forseti (ÁÞS): Nákvæmlega.)

… kann ég forseta miklar þakkir.

(Forseti (ÁÞS): Þá verður gert 30 mínútna hlé á þessum fundi. Fundi er frestað til kl. 13.30.)