141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (frh.):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns, vegna þess að hv. þm. Illugi Gunnarsson gat ekki komist að til að ræða fundarstjórn forseta þar sem forseti gerði hlé á ræðu minni vegna matarhlés, gera þá athugasemd sem ég tel að hv. þingmaður hafi ætlað að gera, en hún er sú að á sama tíma og þessi umræða fer fram er þingflokksfundur hjá öðrum stjórnarflokknum. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra verði við þessa umræðu, frú forseti, vegna þess að ég var komin þangað í minni ræðu að fjalla um tekjuhlið frumvarpsins.

(Forseti (UBK): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að forseti hefur sent þau boð til hæstv. ráðherra að óskað sé nærveru hans í salnum.)

Kærar þakkir, frú forseti. Ég held þá áfram. Hér gengur hæstv. fjármálaráðherra í salinn, kann ég henni þakkir fyrir. Ég ætla að ræða aðeins tekjuhlið fjárlaganna, jafnvel þótt ég geri mér grein fyrir því að við munum koma til með að ræða einstakar skattbreytingar þegar þau frumvörp verða til meðferðar. Það er samt þannig að áform ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir og breytingar í þeim efnum voru kynnt í fjárlagafrumvarpinu og teljast að sjálfsögðu til þessarar umræðu. Ég vil byrja á skatti sem ég vil nefna Oddnýjarskattinn. Hæstv. núverandi fjármálaráðherra er í sjálfu sér ákveðin vorkunn að þurfa að taka við þeim sköttum sem voru ákvarðaðir af forvera hennar í starfi, en það eru skattar og skattahækkanir sem snúa í fyrsta lagi að ferðaþjónustunni.

Í fjárlagafrumvarpinu var boðað að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu færi úr 7% skattþrepi upp í 25,5%. Þetta átti að gerast fyrirvaralaust, taka gildi um áramót. Að sjálfsögðu heyrðust mikil mótmæli úr greininni og þessi vinnubrögð voru harðlega gagnrýnd. Við getum alveg tekið þá umræðu hvort ferðaþjónustan og ferðaþjónustufyrirtækin, hvort sem það eru bílaleigur eða hótel, eigi að vera í lægra skattþrepi. Við getum rætt það. Sjálfri finnst mér að við ættum að stefna að því að fara til baka og vera með eitt skattþrep. Ég mundi vilja sjá það lægra en til dæmis þegar við vorum með eitt skattþrep hér áður. Ég tel að það ætti að fara í þá vinnu að kanna hvort ekki sé hægt að einfalda þetta og koma virðisaukaskattinum niður í prósentutölu sem letji ekki fólk til að borga skattinn og hafi ekki þau áhrif á hegðun fólks og fyrirtækja sem flókið og margþrepaskattkerfi hefur í för með sér.

Hver er lausn ríkisstjórnarinnar? Ég verð að gefa hæstv. fjármálaráðherra það kredit að hún reyndi að vinda ofan af Oddnýjarskattinum, en verð samt að gagnrýna hvernig það var gert. Það er algjörlega ómöguleg leið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur valið, að bæta við aukaþrepi og setja gistinguna í nýtt 14% þrep og að það taki gildi nú um áramót, vegna þess að skaðinn er skeður. Það að hækka þennan ágæta skatt um 7% mun verða til þess að þau fyrirtæki sem eru búin að semja um verð langt fram í tímann munu sjálf þurfa að taka á sig þessar hækkanir, vegna þess að það er að sjálfsögðu ekki hægt að brjóta samninga — nema maður sé ríkisstjórn Íslands, hún gerir dálítið af því. Ferðaþjónustufyrirtækin verða sjálf að taka þessa hækkun á sig. Það er algjörlega óboðlegt að svona hækkun komi með svo skömmum fyrirvara.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta liggi fyrir. Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki gefist tími til að fara vandlega í gegnum bandorminn sem kemur til umræðu síðar og það getur verið að þetta komi fram í kostnaðarmati, ég bið forláts á því ef ég er að spyrja um hluti sem liggja fyrir. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað aukaþrepið kosti. Hvað kostar það með tilliti til kerfa? Þarf ekki að fara í alls kyns breytingar á tölvukerfum hjá skattinum, hvað kostar það hið opinbera? Gera menn sér grein fyrir hvað það kostar fyrirtækin að þurfa að breyta tölvukerfum sínum og innheimtuaðferðum þegar þetta nýja þrep verður sett á? Getur hæstv. fjármálaráðherra svarað því?

Ég gagnrýni þetta harðlega. Það eina rétta í málinu hefði verið að setjast niður með þessum fyrirtækjum sem lýstu sig reiðubúin til að vinna með ríkisstjórninni í því að finna aðrar leiðir til að auka tekjur af ferðaþjónustunni. Mér þykir mjög miður að þessi leið skuli vera farin vegna þess að eins og við vitum eru þessi fyrirtæki og hótel á Íslandi ekki bara í innbyrðis samkeppni heldur er Ísland að keppa við önnur lönd. Ferðamarkaðurinn er svo kvikur að um leið og þessi áform ríkisstjórnarinnar spurðust út heyrði ég af forstjóra erlends flugfélags sem er farið að fljúga hingað og ætlar sér að vera hér á markaðnum til margra ára, komið hingað til að vera, sem hringdi í sendiherra sinn á Íslandi og spurði hvort þetta væru nú ekki örugglega rangar fréttir sem hann væri að heyra frá Íslandi, það gæti ekki verið að nokkur ríkisstjórn færi þá leið að hækka skatta svona. Viðkomandi forstjóra leist engan veginn á þetta vegna þess að það er ekki nóg að geta boðið upp á lág flugfargjöld hingað til lands ef fólk hefur svo ekki efni á því að gista. Þetta hangir allt saman. Við viljum aukna samkeppni. Við viljum ferðamenn hingað til lands. Það er það sem ríkisstjórnin segir í öðru orðinu en í hinu segir hún: Nei takk, við þurfum að kreista meiri skatt út úr þessu. Hún gerir sér ekki grein fyrir því að það breytir hegðun ferðamanna.

Annað dæmi er ákvörðunin um afnám undanþágu vegna vörugjalda fyrir bílaleigur. Við getum tekið þá umræðu líka og held að við ættum að gera það við annað tilefni hvort bílaleigur eigi yfir höfuð að vera undanþegnar vörugjöldum. Hins vegar er staðan þannig nú og hefur verið það síðan árið 2000. Af hverju voru vörugjöldin lækkuð? Jú, þau voru lækkuð vegna þess að það voru vandkvæði í atvinnugreininni. Það var erfitt að endurnýja bílaflotann, bílaleigur hér voru ekki samkeppnisfærar. Fjármagnskostnaður var hár. Verðlag var mjög hátt á bílaleigubílum fyrir ferðamenn.

Ég minnist þess þegar ég vann með námi í nokkur sumur í afgreiðslu Flugleiða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég man eftir því þegar ferðamenn komu í innritun á flug nánast grænir í framan, skjálfandi á beinunum, vegna þess að þeir höfðu verið að ganga frá bílaleigureikningnum sínum áður en þeir komu í tékkið, eins og menn gera. Það var borgað kílómetragjald þannig að menn borguðu eftir því hvað þeir óku mikið og upphæðirnar gátu verið háar. Þetta var árið 1990 eða 1991. Ég minnist þess að fjölskylda sem hafði verið hér í viku og keyrt hringinn hafði fengið 500 þús. kr. reikning — ég veit ekki hvað 500 þús. kr. árið 1990 eru á verðlagi þessa árs. Fjölskyldufaðirinn var algjörlega grænn í framan og skildi ekkert í þessu. Ætlum við að fara aftur í þennan fasa? Bílaleigurnar hafa fært fyrir því afar góð rök að þetta muni auka kostnað, fækka bílum og bílaflotinn muni eldast og draga muni úr því að ferðamenn ferðist um á eigin vegum. Það hefur þær afleiðingar að litlu hótelin úti á landi, sem taka kannski ekki á móti heilu rútunum en stíla inn á þennan markað, munu lenda í vandræðum.

Afleiðingarnar af þessu öllu saman eru að á endanum munum við öll tapa. Það eru afleiðingarnar. Þessi ágæta ríkisstjórn getur ekki skilið að skattstofn er ekki einhver fasti. Þegar sköttum er breytt breytir fólk um hegðun, fólk leitar þangað sem það fær betri kjör. Það mun gerast í þessu tilfelli.

Þetta hefur ekki bara áhrif á ferðamennskuna. Þetta hefur miklu víðtækari áhrif vegna þess að bílaleigurnar þurfa að kaupa bíla. Hverjir selja bíla? Bílaumboðin selja bíla og flytja inn bíla. Þessi atvinnugrein, bílgreinin, hrundi algjörlega þegar bankakerfið hrundi og hefur átt í erfiðleikum síðan. Það sem hefur haldið greininni gangandi eru bílaleigurnar vegna þess að þær hafa þurft að kaupa bíla og endurnýja. Þetta mun hafa áhrif á bílgreinina, áhrif sem talsmenn bílaleiganna hafa sýnt fram á með góðum rökum og talnaupplýsingum. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjármálaráðherra taki þær upplýsingar til greina vegna þess að sú breyting sem hún leggur til núna mun ekki laga þetta, aðeins fresta því. Höggið kemur samt sem áður á næsta ári, það er ekki fyrr en árið á eftir sem afslátturinn kemur að einhverju leyti til baka, en þá er búið að slátra mjólkurkúnni.

Ég bið því hæstv. fjármálaráðherra um að endurskoða þessi áform, setjast niður með greininni og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og athuga hvort ekki sé hægt að komast að betri niðurstöðu sem tryggi aukna fjármuni til ríkissjóðs. Ég veit að lagðar hafa verið fram ýmsar hugmyndir. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að skoða þetta vegna þess að afleiddu áhrifin á ferðaþjónustuna, á bílgreinina, á íslenskt samfélag eru allt of mikil. Á endanum munum við öll tapa á þessu.

Síðan eru það fleiri skattbreytingar. Í þeim frumvörpum sem hæstv. fjármálaráðherra var að leggja fram held ég að það eigi bara að hækka öll gjöld sem fyrirfinnast. Það er tóbak, áfengi, neftóbak, vörugjöld og sykurskattar. Heldur einhver að fólk megrist með skattahækkunum? Ef svo er ætti sú sem hér stendur að standa hér algjörlega tággrönn vegna þess að ríkisstjórnin er búin að hækka alla skatta sem hægt er að hækka. Það sést að það gengur ekki upp. Við ráðum ekki bót á offitu með skattahækkunum. Ég verð að hryggja hæstv. fjármálaráðherra og hv. formann fjárlaganefndar, sem skemmta sér ákaflega yfir þessu, með því. Þetta er ekki leiðin. Og ég held að menn viti það innst inni. Þetta er bara afsökun fyrir því að seilast dýpra og dýpra og dýpra í vasa skattborgarans. Það er nóg komið.

Ef það er eitthvað sem ég mun beita mér fyrir á komandi mánuðum og reyna að hafa áhrif á stefnu þess flokks sem ég býð mig fram fyrir er það að lofa íslenskum kjósendum og íslenskum skattgreiðendum því að loknu kjörtímabili, ef við fáum til þess völd sem við öll hér inni vonum auðvitað, að ríkið taki minna og skattborgarinn haldi meiru eftir. Það er það sem íslensk heimili og fyrirtæki eru að öskra á.

Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort búið sé að reikna út hvað allar þessar skattbreytingar á endalausar vörutegundir og allt það sem ég hef nefnt hér og er alls ekki tæmandi listi muni kosta. Hvaða áhrif hefur þetta á skuldir heimilanna og á vísitölu? Hvað hækka skuldir heimilanna mikið vegna skattbreytinga sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram núna í tengslum við fjárlagafrumvarpið? Það eru upplýsingar sem verða að liggja fyrir fyrir þá umræðu ef þær liggja ekki fyrir akkúrat á þessari stundu.

Og fyrst við erum að tala um atvinnulífið þá er náttúrlega með ólíkindum að verða vitni að því hvernig ríkisstjórnin svíkur gerða samninga, t.d. við raforkufyrirtækin með framlengingu á raforkuskatti sem átti að vera tímabundinn. Og gætið að því að raforkufyrirtækin, stóriðjufyrirtækin, gerðu samkomulag við þáverandi ríkisstjórn. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, hafi eflaust verið einn af þeim ráðherrum sem skrifuðu undir samkomulagið um tímabundinn raforkuskatt.

Í október svaraði hæstv. forsætisráðherra formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, aðspurð um af hverju væri verið að svíkja þetta samkomulag. Hann var með bréf í höndunum þar sem sagt var að ekki væru áform um að skatturinn yrði áfram, hann væri til bráðabirgða. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra: Það er ekki verið að svíkja eitt eða neitt, þessi skattur rann út. Við erum bara að taka nýja ákvörðun. Lesist: Ríkisstjórnin er að framlengja skatt sem hún var búin að lofa að yrði tímabundinn. Á sama tíma buðust þessi fyrirtæki til að borga tekjuskatt fyrir fram vegna þess að þau vildi leggja sitt af mörkum árið 2009 þegar ríkið var sannarlega að glíma við erfiða stöðu í ríkisfjármálunum. Þetta var allt undirritað og gengið frá þessu. Hvað gerist nú? Nú kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að þessi skattur verður áfram, honum verður haldið. Hvað vill hæstv. fjármálaráðherra segja um það? Eru þetta ekki hrein og klár svik? Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að þetta verði látið viðgangast. Það er algjörlega með ólíkindum.

Nú hef ég rakið hér nokkur atriði hvað varðar tekjuhlið frumvarpsins. Það er ýmislegt fleira sem má segja um útgjaldahliðina. Eitt atriði sem ég hef ekkert nefnt hér er Evrópusambandið. Eins og fram hefur komið í umræðunni eru hér allnokkrar tillögur við 2. umr. til útgjaldaauka vegna aðildarumsóknarinnar. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort einhvers staðar sé verið að vinna úttekt á því hver raunverulegi kostnaðurinn er fyrir öll ráðuneytin. Hér er til dæmis tillaga um 40 millj. kr. aukningu. Það segir í skýringum, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 40 millj. kr. tímabundna fjárveitingu í eitt ár til að standa straum af kostnaði við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Þetta er viðbót við þær 50 millj. kr. sem lagðar voru til í fjárlagafrumvarpinu og er því samtals gerð tillaga um 90 millj. kr. fjárveitingu til viðræðnanna. Nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að heildarfjárþörf vegna viðræðnanna á næsta ári verði um 140 millj. kr. en gert er ráð fyrir að um 50 millj. kr. afgangur af þessum lið á árinu 2012 verði fluttur á milli ára.“

Síðan eru rakin tímabundin framlög sem fara á milli. Síðan segir hér að lokum:

„Um er að ræða kostnað vegna samninganefnda, ferðalaga og sérfræðiþjónustu.“

Eru þetta samninganefndir, ferðalög og sérfræðiþjónusta í öllum ráðuneytum? Eru þetta samninganefndir, sérfræðingar og ferðalög allrar stjórnsýslunnar? Er Alþingi hluti af því?

Við erum nýkomin frá Evrópuþinginu í Strassborg, sjö manna sendinefnd, þar sem þingmannanefnd Íslands ræddi við þingmannanefnd Evrópuþingsins um stöðuna í aðildarviðræðunum. Er sú ferð bókuð á ESB-liðinn, eða er sú ferð bókuð sem ferðakostnaður Alþingis?

Ég hef reynt að spyrja að þessu með reglulegu millibili frá því þetta ævintýri hófst allt saman en hef ekki fengið skýr svör. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann geti upplýst mig um þetta. Erum við einhvers staðar með lið í bókhaldskerfi ríkisins, í reikningum ríkisins, þar sem allt er bókað sem við kemur aðildarviðræðunum við Evrópusambandið? Það er afar nauðsynlegt að hafa það þannig vegna þess að við höfum gagnrýnt hversu mikill kostnaður er lagður í þetta. Við getum aftur komið að því sem ég gat um í upphafi míns máls. Við getum ekki bætt við 20 millj. kr. í sjúkraflutninga á Suðurnesjum eða fjármunum inn í mennta- og heilbrigðiskerfið, vegna þess að hér varð efnahagshrun og fjármunir eru takmarkaðir. En á sama tíma getum við hent fleiri hundruð milljónum inn í þessa umsókn. Hún er ekki til umræðu í dag og við höfum skiptar skoðanir á henni, en ég vil að minnsta kosti fá að vita alla söguna. Er sú ferð sem þingmannanefndin fór um daginn bókuð undir liðnum aðildarviðræður, eða er hún bókuð undir liðnum ferðakostnaður Alþingis?

Síðan eru þýðingarnar. Þýðingamiðstöðin fær hér 128 millj. kr. fjárveitingu. Hæstv. utanríkisráðherra nefnir þýðingarnar gjarnan sem dæmi um verkefni sem ESB leggur okkur til fjármuni fyrir í gegnum IPA-styrkina og mikið hefur verið gert úr því. Við þurfum að greiða þetta mótframlag. Mótframlag okkar er þá væntanlega 180 milljónir frá 2010 plús 128 milljónir núna. Hver verður þessi tala á endanum? Þetta finnst mér vanta. Það er kannski ástæða til að fara sérstaklega yfir heildarkostnaðinn við umsóknina. Það er kannski ástæða til að biðja sérstaklega um skýrslu um þetta frá ráðherra, annaðhvort hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra sem ber ábyrgð á þessu öllu saman, það er tilefni til þess.

Ég er hér með langan lista af hlutum sem ég á eftir að ræða en tími minn er að renna út. En til að súmmera þetta upp er algjörlega kristaltært að staða ríkissjóðs er allt annað en björt og stöndug. Þvert á móti eru hér fjölmörg mál sem ég rakti í fyrri hluta ræðu minnar og núna í síðari hluta hennar sem búið er að sópa undir teppið og verður ekki tekið á fyrr en á seinni stigum. Það sýnir kristaltært að við stöndum enn þá frammi fyrir gríðarlegum vanda í ríkisfjármálunum og honum er hvergi nærri lokið, því miður, og mun ekki leysast nema með auknum skatttekjum vegna (Forseti hringir.) aukinnar verðmætasköpunar.