141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum tveimur atriðum sem eru bæði mjög mikilvæg. Það eru annars vegar skólarnir og ég tek undir með hv. þingmanni að það er alveg rétt, það hefur fjölgað í skólunum, en hvað svo? Þetta dregur umræðuna að því sem ég var að ræða um áðan, að það verður enginn vöxtur hérna, við náum ekki árangri fyrr en við höfum náð að skapa verðmæti og koma hjólum atvinnulífsins í gang.

Atvinnuleysið hefur nefnilega minnkað og það er eitt af því sem ríkisstjórnin hefur verið að guma sér af, að atvinnuleysi, þrátt fyrir að vera í kringum eða á milli 5% og 7% eftir því við hvern þú talar, hefur lækkað mikið og það er rétt. En það gleymist alltaf að það hefur fækkað svo mikið á vinnumarkaði. Vinnumarkaðurinn hefur dregist saman vegna þess að fólk er að fara í auknum mæli inn í skólana. Og það eru engin störf að verða til fyrir þetta fólk þegar það kemur út úr skólunum. Það hafa tapast í kringum 20 þúsund störf á árunum eftir hrun, á þessum fjórum árum, og þetta er vandamál sem ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af, hvað verður um unga fólkið okkar. Það mun halda áfram að flytja til útlanda í leit að betri tækifærum ef svo fer fram sem horfir.

Varðandi Evrópusambandsumsóknina tek ég undir allt sem hv. þingmaður sagði. Það er hreint grátlegt þegar maður sér — alltaf kemur að þessari umræðu um forgangsröðun — að fjármunum ríkisins er forgangsraðað með þessum hætti. Okkur vantar peninga í verkefni sem við verðum að sinna, löggæslu, menntun, velferðarmálin, heilbrigðismálin. Okkur vantar peninga í það og þá eigum við að taka þá peninga frá þeim verkefnum sem okkur langar til að sinna en verðum ekki að sinna. Evrópusambandsumsóknin er besta dæmið um það.