141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leitt að heyra að umræða okkar höfðar ekki til allra þingmanna í salnum en [Hlátur í þingsal.] þannig er það nú bara.

Virðulegi forseti. Mig langar að halda áfram með skólamálin og velta þeim fyrir mér. Nú er það vonandi þannig að út úr skólunum kemur vel menntað og kraftmikið fólk sem er til í að leggja hönd á plóg við að stofna fyrirtæki og fjölga störfum og skapa hagvöxt og allt það. Ég velti fyrir mér hvaða umhverfi bíður þessa ágæta fólks sem er að klára nám sitt. Er það vinsamlegt umhverfi sem þessi ríkisstjórn hefur byggt upp? Er það vinsamlegt skattumhverfi? Er andrúmsloftið og viðhorf til þeirra sem vilja leggja hönd á plóginn vinsamlegt?

Í umræðunni áðan kom upp ágætt dæmi varðandi skattlagningu t.d. á ferðaþjónustu. Ég velti fyrir mér hvernig það lítur út fyrir ungt fólk sem vill hasla sér völl t.d. á þeim vettvangi þegar óvissan er sem hún er. Við getum nefnt fólk sem er að vinna og mennta sig í tæknigeiranum og á von um að fá vinnu við iðnaðarverkefni eða eitthvað slíkt, hvort sem við köllum það stóriðju eða smáiðju eða hvað það kallast. Hvernig er umhverfið þar? Það er ekki staðið við gerða samninga. Hvers konar umhverfi erum við að bjóða fólkinu sem er þó að mennta sig? Ég hygg að núna á næstu mánuðum eða á næsta ári komi töluvert af fólki út úr skólunum sem fór inn þegar hrunið skall á og í upphafi hrunsins, og þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvað bíði þessa fólks.

Er það virkilega þannig að við séum að standa okkur vel hér á Íslandi við að mennta fólk þannig að það geti farið til Noregs eða eitthvert erlendis og unnið fyrir sér? Er það þá ekki þannig að við séum að missa út úr samfélagi okkar mikilvæga þátttakendur í því samfélagi? Ég hef miklar áhyggjur af þessu, að það sé eingöngu horft á aðra hliðina. Það er gripið til aðgerða þannig að fólk fari í skólana frekar en að lenda á atvinnuleysisskrá, nóg er nú samt þar og búið að vera, en svo tekur ekkert við þegar (Forseti hringir.) þetta ágæta fólk er búið að mennta sig.