141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er stóra áhyggjuefnið og þetta er það sem við hér inni og við sem þjóð eigum að fara að taka höndum saman um að breyta. Það var þetta sem allir óttuðust þegar hrunið skall á okkur, að við mundum missa kynslóðir frá okkur líkt og gerðist m.a. í Færeyjum þegar þeir lentu í sinni kreppu hér á árum áður. Að einhverju leyti hefur þetta þegar gerst, því miður. Við sjáum nú þegar brottflutning fólks í leit að tækifærum annars staðar, til Norðurlandanna og til annarra landa. Aftur segi ég: Á sama tíma gumar ríkisstjórnin af því að atvinnuleysi fari lækkandi.

Ég get tekið dæmi um þessa atvinnuleysistölu. Um áramótin detta í kringum 300 manns út af atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum. Við það mun atvinnuleysi á Suðurnesjum lækka, það er gríðarlegt fagnaðarefni, en hvað er að gerast? Þetta fólk er ekkert að fá vinnu, þetta fólk er ekkert að komast í þá stöðu að það sé orðið þátttakendur á vinnumarkaði. Þetta fólk er að detta út vegna þess að bótaréttur þeirra er runninn út og það fer á sveitarfélögin.

Þetta er talnaleikur. Þarna er verið að setja fötuna undir leka þakið en við höfum ekki enn þá, á þessum fjórum árum, ráðist í það að laga þakið. Það er það sem við eigum að vera að gera, skapa verðmætin sem verða til þess að fólk komist í vinnu og unga fólkið okkar sjái tækifærin í því að búa hér áfram vegna þess að heimurinn er orðinn svo lítill. Við missum þetta fólk því miður frá okkur á örskotsstundu ef okkur tekst ekki að skapa hér, ekki bara samkeppnishæft samfélag, heldur betra. Vegna þess að við erum á eyju langt fjarri öðrum löndum, (Forseti hringir.) sem er ókostur, þannig að við þurfum að gera betur til að halda í unga fólkið okkar.