141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisútvarpið er ekki undanskilið því að hagræða í sínum rekstri frekar en aðrar stofnanir eða önnur félög, engan veginn, og það er ekki þannig að verið sé að afhenda einhverjum einum þennan markað. Það hefur margoft komið fram af hálfu þeirra sem eru forsvarsmenn hjá Skjá 1, meðal annars á fundum allsherjar- og menntamálanefndar — það er líka hægt að tala um Útvarp Sögu — að það er viðhorf þessara aðila að takmarka þurfi Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Ég hef meðal annars bent á þær leiðir sem þýska sjónvarpið hefur farið, það er ARD og ZDF, sem takmarka sínar auglýsingar m.a. milli kl. 6 og 8.

Ríkisútvarpið hefur algjöra sérstöðu í samanburði við alla aðra norræna miðla. Ríkisútvarpið er eina ríkisrekna norræna stöðin sem leyfir auglýsingar og ekki er hægt að tala um að auglýsingamarkaðurinn sem RÚV er á snerti ekki vefmiðlana. Þetta er bara einn auglýsingapottur, menn hafa ákveðið tæki sem auglýsendur geta leitað í og Ríkisútvarpið, hvort sem það er á hljóði eða í sjónvarpi, er að sjálfsögðu í samkeppni við vefmiðla eins og alla aðra fjölmiðla á markaði. Að sjálfsögðu. Líka prentmiðlana. Prentmiðlarnir hafa margoft sagt við okkur: Meðan Ríkisútvarpið er svona umfangsmikið á markaði — og ég vil geta þess sérstaklega að Blaðamannafélag Íslands margítrekaði að það væri ekki verið að taka á þessu umfangi Ríkisútvarpsins á fundum nefndarinnar.

Þannig að ég hef margoft talað um það og bent á þýsku leiðina varðandi takmarkanirnar en það er líka rétt að halda því til haga sem vel er gert, verið er að reyna að takmarka auglýsingar Ríkisútvarpsins. Það er bara ekki nóg, að mínu viti, og þá vil ég sérstaklega tala um að þetta eru í rauninni ekki neinar takmarkanir í sjónvarpi sem er verið að leggja til í málinu. (Forseti hringir.) Hins vegar eru ákveðnar takmarkanir varðandi kostunina og ég held að það sé sérstakt fagnaðarefni.