141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er nú einmitt málið, að á meðan ríkisstjórnin, og ég er ekki að tala gegn því, setti fólk í skólana þá var hún ekki á sama tíma að vinna heimavinnuna sína varðandi það að fjölga tækifærum eða stuðla að því að byggja upp tækifæri. Atvinnutækifæri fyrir fólkið þegar það kemur síðan út úr skólunum stendur alveg eftir, þar er enn ein eyðan, þar er enn eitt auða blaðið hjá ríkisstjórninni. Allt í lagi að setja fólkið í skóla, fínt, en hvað bíður þess þegar það kemur út? Ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki staðið sig varðandi fjölgun og fjölbreytni í atvinnumálum.

Herra forseti. Já, það er líka rétt að ríkisstjórnin hefur ýtt þessum vandamálum sem við erum sífellt að tala um á undan sér, og ég fór held ég svona þokkalega vel yfir það í ræðu minni. Ég er að tala um brottfallið, ég er að tala um eflingu iðn- og starfsnáms, þessu frestaði ríkisstjórnin að taka á fram til 1. ágúst 2015 af því að hún frestaði þeim lykiltækjum sem einmitt stuðla að því að efla iðn- og starfsnám, koma í veg fyrir brottfallið og svo ég tali nú ekki um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Hún frestaði þessu öllu fram til 2015 með því að fresta námsbrautagerðunum fyrir framhaldsskólana. Þetta eru ákvæði sem allir flokkar, ríkisstjórnarflokkarnir sem og okkar flokkar hv. þingmanns Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, stóðu að í góðri sátt.

Þess vegna er sárt að sjá það að ríkisstjórnin hefur ýtt þessum vandamálum á undan sér af því að það er hugsanlega pólitískt erfitt fyrir ríkisstjórnarflokkana að taka á þessum málum. Hugsanlega út af því að ýmsir innan kennaraforustunnar og -sambandsins í gegnum tíðina hafa ekki verið sáttir við áformin sem hafa verið samþykkt hér á þingi, eða hvað veit ég? Alla vega: Ríkisstjórnin tók ekki á þessu máli strax í upphafi, hún forgangsraðaði ekki í þágu menntamála og hún forgangsraðaði ekki í þágu rannsókna.