141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lýsi mig sigraðan yfir því að auka á bjartsýni hv. þingmanns á framtíðina, sérstaklega framtíð ungs fólks í landinu. Hún verður að glíma við það myrkur ein og án minnar aðstoðar.

Rætt var um háskólana áðan af hálfu hv. þingmanns og framlög til þeirra. Þau hafa vissulega verið skert, til Háskóla Íslands, til Háskóla Reykjavíkur, til Hóla, til Bifrastar og allra þeirra skóla sem lentu í efnahagshruninu eins og allir aðrir. Get ég reiknað með því að ef ég kæmi nú hingað, sem ég veit ekki hvort ég geri, með tillögu um að auka framlög til Háskóla Íslands eða Háskólans í Reykjavík, get ég reitt mig á stuðning hv. þingmanns hvað það varðar?

Ég fékk ekki svar við fyrri spurningunni áðan varðandi framhaldsskólana. Get ég treyst því að hv. þingmaður muni styðja meiri hluta þingsins varðandi framhaldsskólana? Og ef tillaga kæmi um að auka útgjöld til háskólasamfélagsins sömuleiðis, getum við þá treyst á stuðning hv. þingmanns hvað það varðar?

Í öðru lagi, það voru ágætar spurningar sem hv. þingmaður kom með áðan um það hvers vegna ástandið væri eins og það er. Já, hvers vegna er það eins og það er? Hvers vegna, ef hv. þingmaður gæti nefnt bara bestu fimm atriðin, ættum við að treysta aftur þeim ráðum sem brugðust algjörlega og leiddu til efnahagshrunsins, meðal annars undir stjórn hv. þingmanns sem ráðherra í ríkisstjórn? Hvers vegna ættu efnahagstillögur, efnahagsráð og ráðgjöf Sjálfstæðisflokksins að duga í dag fyrst það dugði ekki fyrir þremur árum?