141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér þrjú nefndarálit hv. fjárlaganefndar, meiri hluta og 1. og 2. minni hluta, og síðan breytingartillögur sem er að finna á sex þingskjölum. Þetta eru nefndarálit um fjárlög íslenska ríkisins.

Samkvæmt nýsamþykktum lögum, sem reyndar eru með undantekningu, á að flytja tekjufrumvörpin með fjárlagafrumvarpinu þannig að menn geti rætt málið í einni heild með vitrænum hætti. Það var veitt undantekning í fyrsta skiptið og þá átti ég von á því að tekjufrumvörpin kæmu viku eða tveim vikum seinna. Nei, herra forseti, þeim var dreift í gær. Ég hef ekki almennilega haft tíma til að lesa tekjufrumvörpin og mér finnst alveg fráleitt að ræða um fjárlög íslenska ríkisins án þess að tekjurnar liggi fyrir, bara svo það sé á hreinu, vegna þess að gjöldin sem við erum að ræða hérna byggja á tekjunum. Án tekna eru engin gjöld nema menn ætli að fara út í gífurlegan hallarekstur.

Ég ætla að leyfa mér rétt aðeins að renna í gegnum tekjurnar, herra forseti, þó að ekki sé búið að setja þau frumvörp á dagskrá. Þar er gert ráð fyrir því að bæta við nýju þrepi í virðisaukaskattinn, 14%. Hvað höfum við þá margar tegundir af virðisaukaskatti? Hæsta þrepið er 25,5%, heimsmet, annað þrepið 14%, fyrir ferðaþjónustuna, og svo er 7% þrep, það eru sem sagt komin þrjú þrep. Svo er 0% skattur á landbúnaðarvörur o.fl. og svo er heilmikið af virkni þjóðfélagsins undanskilið virðisaukaskatti. Þar er öll heilbrigðisþjónustan, bæði einkaheilbrigðisþjónusta og ríkisrekin, sem og allt menntakerfið. Við erum í raun með fimm þrep í virðisaukaskatti og hefur þessari ríkisstjórn tekist ágætlega að flækja þetta skattkerfi eins og flestöll önnur skattkerfi. Það er með ólíkindum hvað menn hafa dundað við að flækja skattkerfin í staðinn fyrir að hækka einfaldlega skatta.

Einkenni á þessum tekjufrumvörpum er í fyrsta lagi veiðigjaldið, sem var samþykkt í haust, og síðan atlagan að ferðaþjónustunni, bæði varðandi virðisaukaskattinn og gistináttagjaldið, og síðan vörugjald af bílaleigubifreiðum. Ég hef margoft bent á að ferðaþjónustan nýtur styrkja í gegnum þessa skatta. Hún nýtur styrks frá ríkinu og menn geta virkilega spurt sig hvort það sé eðlilegt að svona stór grein njóti styrks, eins og með bílaleigubílana. Bílaleigur borga miklu lægri vörugjöld en einstaklingar. En þá kemur upp spurningin hvort þessi grein geti yfirleitt borgað skatta, hvort hún sé ekki það veikburða að hún geti í rauninni ekki borgað skatta. Hvergi í heiminum eru borguð há laun eða mikill hagnaður af því að elda mat og búa um rúm þannig að þetta er að minnsta kosti ekki hátekjugrein, ekki nema viss hluti af henni sem er flugþjónustan. Ég ætla ekki að dvelja meira við tekjufrumvörpin en þar gefst tilefni til mikillar umræðu um vaxandi skattlagningu og aukið flækjustig.

Það sem ég ætlaði að ræða fyrst er hlutverk fjárlaga. Ríkissjóður er óskaplega stór í atvinnulífinu, hann er yfirgnæfandi stærri en öll stærstu fyrirtæki landsins og þess vegna skiptir verulegu máli hvernig tekst til með rekstur hans. Víðast um heim fer hann vaxandi og hér á landi er það engin undantekning, ríkissjóður hefur vaxið óhemjumikið. Ég held að það hafi verið ein mestu mistök Sjálfstæðisflokksins svo ég fari nú að ræða um mistök — og nú væri ágætt ef hv. þm. Björn Valur Gíslason væri viðstaddur því að hann hefur svo gaman af að tala um mistök Sjálfstæðisflokksins. Hann ætti að vera hérna sem formaður fjárlaganefndar.

Herra forseti. Ég bið um að hann sé viðstaddur svo hann geti nú hlustað á þessa ádeilu mína á Sjálfstæðisflokkinn.

Velferðarkerfið óx óskaplega undir stjórn Sjálfstæðisflokksins sem margir hafa sagt að hafi verið einn við völd, þ.e. margir hafa talað eins og hann hafi einn verið við völd og borið ábyrgð á öllu. Þá finnst mér að hann eigi líka að bera ábyrgð á því að velferðarkerfið hafi vaxið svona mikið. Ég minni sérstaklega á stöðu fatlaðra sem batnaði feiknarlega undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Fatlaðir voru í mjög slæmri stöðu. Ég ætla ekki að dvelja mikið við það, en ég tel að mál fatlaðra séu mjög vel sett eftir þessa stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að velferðarkerfið hafi vaxið um of og að það hafi verið mistök hjá Sjálfstæðisflokknum að láta það viðgangast, en hann var þá við stjórnvölinn.

Ég ætla ekki að segja meira um tekjufrumvörpin en hlutverk fjárlaga er einmitt að búa til jafnvægi í öllu atvinnulífinu. Ef ríkissjóður er rekinn hallalaus er það merki til atvinnulífsins um að nú sé aðhald, það sé tekið meira út úr atvinnulífinu en er sett inn í það. Það er sem sagt aðhald sem boðar minni verðbólgu eða stöðvun verðbólgu o.s.frv. Alls staðar í heiminum horfa menn mjög mikið til þess hvort ríkissjóður sé hallalaus eða ekki. Ríkissjóður keppir við atvinnulífið um vinnuafl og fjármagn og þess vegna er þetta mjög mikilvægt.

Fjárlög eru alltaf spá og það þurfa menn að hafa í huga. Það er verið að spá fyrir um hvað muni gerast á næsta ári. Velflest liggur nokkurn veginn fyrir á grundvelli gildandi laga o.s.frv. en annað liggur ekki fyrir. Inn í þetta kemur til dæmis áætlun um hagnað fyrirtækja þannig að fjárlögin eru alltaf spá.

Síðan koma fjáraukalög og ég skil ekki, herra forseti, af hverju þau eru ekki látin koma oftar. Ef samþykkt eru ný lög, t.d. um fæðingarorlofið, verða oft og tíðum aukin útgjöld eða minnkandi útgjöld og þá ættu fjáraukalög strax að koma í kjölfarið eða samhliða. Svo gerist eitthvað óvænt, eldgos eða eitthvað sem menn áttu ekki von á, og makríllinn kemur til dæmis og þegar það liggur fyrir ætti að semja og samþykkja fjáraukalög. Ég skil ekki af hverju þau eru ekki fleiri á ári hverju en bara ein. Mér finnst að síðasta dag ársins ættu að liggja fyrir fjáraukalög um allt það sem menn telja enn óleyst þannig að öll útgjöld ríkisins á viðkomandi ári séu annaðhvort í fjárlögum fyrir árið eða í fjáraukalögum.

Þá kem ég að aga í fjármálum sem ég hef verið talsvert upptekinn af. Mér finnst hann ekki nógu mikill. 41. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Ekki í lokafjárlögum eða einhverju slíku, heldur í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég hef hamrað á þessari mikilvægu setningu. Hún hvetur til aga í ríkisfjármálunum. Það þýðir að ef ekki er getið um ákveðna greiðslu eða fjárheimild í fjárlögum eða fjáraukalögum má bara ekki greiða hana. Þá má ekki semja um hana eða gera nokkurn skapaðan hlut með hana. Það má til dæmis ekki borga hana með skuldabréfi eða eitthvað slíkt, það bara má ekki, það er algjörlega bannað. Það er ekki bara bannað með lögum, það er bannað í stjórnarskrá. Það er stjórnarskrárbrot. Þeir sem það gera hafa framið stjórnarskrárbrot. Mér finnst eiga að taka það mjög alvarlega, ef það er ekki meiningin að halda þetta ákvæði ættu menn að taka það út úr stjórnarskránni.

Í fjárreiðulögum stendur í 49. gr., með leyfi herra forseta:

„Forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila bera ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir. Þessir aðilar bera jafnframt ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög þessi“ o.s.frv.

Hvað segir þetta manni? Að ef einhver forstöðumaður fer ekki að heimildum, fer umfram heimildir, er hann að brjóta fjárreiðulög fyrir utan að hann er að brjóta stjórnarskrána líka.

Í 2. mgr. er kveðið á um að brot á ákvæðum laga þessara varði skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það er ekkert annað. Þarna er verið að búa til aga og það væri kannski ágætt að spyrja hv. formann fjárlaganefndar, Björn Val Gíslason, hvort honum sé kunnugt um að forstöðumenn stofnana hafi verið látnir víkja, þeim verið sagt upp, vegna þess að þeir hafi ekki farið að fjárlögum. Hefur hv. fjárlaganefnd tekið menn á teppið og spurt þá, þegar í ljós kemur við ríkisreikning að þeir hafi ekki haldið sig innan fjárlaga, hvort það sé rétt skilið að þeir séu að hætta, að þeir séu búnir að segja upp. Mér finnst það vera það sama.

Ég spyr sem sagt hv. formann nefndarinnar sem kemur væntanlega og svarar í lok umræðunnar í kvöld eða eftir helgi, eða kemur í andsvar og svarar þessu, hvort þessi agi hafi verið haldinn sem er í stjórnarskránni og fjárreiðulögum.

Hvers vegna er svona mikilvægt að hafa aga þarna? Vegna þess að eftir höfðinu dansa limirnir. Ef ekki er agi hjá ríkinu, af hverju skyldi þá vera agi hjá sveitarfélögunum? Og af hverju skyldi þá vera agi yfirleitt í atvinnulífinu varðandi skattgreiðslur og annað slíkt? Ef ríkið leyfir sér að fara fram hjá fjárreiðulögum, stjórnarskránni o.s.frv., af hverju skyldu fyrirtæki borga skatta yfirleitt? Þetta er nefnilega stórhættulegt, herra forseti.

Árið 2010 var áætlaður 70 milljarða halli á ríkissjóði. Hann varð 123 milljarðar. Í fjáraukalögum stóð 70 milljarða halli en í ríkisreikningi og lokafjárlögum 123 milljarðar. Það eru 53 milljarðar sem láku út úr ríkissjóði í ósamræmi við fjáraukalög. Hvað segir þetta mér? Stjórnarskráin var brotin, herra forseti. Ég er búinn að biðja um lista yfir þetta, en hef ekki enn fengið, helst tíu ár aftur í tímann. Þetta hlýtur að liggja fyrir og vera auðvelt að rekja, brotið niður á ýmsar stofnanir og aðgerðir.

Ég minni á að í tilfelli Sparisjóðs Keflavíkur, sem er frægt dæmi, var talað um 23 milljarða, minnir mig. Það er ekki lág tala, herra forseti. Við erum að skera niður hérna, það vantar lækningatæki þarna og lögguna vantar peninga o.s.frv. Á sama tíma láta menn 23 milljarða leka út úr ríkissjóði án heimildar í fjáraukalögum. Ég spyr: Hver gerði það? Hver skrifaði undir lánasamning eða hvað það nú var sem leysti þennan 23 milljarða vanda sem er hjá Sparisjóði Keflavíkur?

Það er kannski spurningin um að hæstv. fjármálaráðherra sé við umræðuna af þessu tilefni. Ég er líka með annað mál sem ég ætlaði að spyrja hann um út af milljarðs dollara láninu í Bandaríkjunum.

Þetta er sem sagt um agann og mér finnst að menn þurfi að taka sig á.

Svo má nefna áætlun AGS og ríkisstjórnarinnar sem gerð var eftir hrun. Mér leist nokkuð vel á hana og hafði trú á að þarna væri ríkisstjórnin að gera rétta hluti. Ó, nei, hún hefur bara ekki farið að þessari áætlun. Árið 2013 — það eru einmitt fjárlögin sem við erum ræða núna — átti ríkissjóður að vera orðinn hallalaus. Hann er það ekki og það sem verra er, hann er götóttur, fjárlögin eru götótt. Það eru risagöt á þeim sem ég kem að á eftir. Ég vona að tíminn endist til þess.

Ég ætla að tala um götin á flíkinni, götin á þessari mynd sem við erum búin að byggja upp. Þar er fyrst að nefna A-deild LSR. Það stóð til, herra forseti, að A-deild LSR yrði sjálfbær, hún var stofnuð til þess, og það var ákvæði í lögunum um að ef stjórn sjóðsins, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, A-deildar, sæi að það vantaði peninga samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt ætti hún að hækka iðgjald iðgjaldsgreiðandans, launagreiðanda, þ.e. ríkisins. Hún gerði það ekki. Það er ekki bara þessi ríkisstjórn heldur ríkisstjórnir á undan, þetta hefur verið að safnast upp. Það eru komnir 47 milljarðar þarna, og ef menn halda að þeir 47 milljarðar labbi bara burt og hverfi hafa þeir rangt fyrir sér. Það er ekki venjan, þeir munu sitja þarna og einhvern tímann munu þeir koma í bakið á okkur, nákvæmlega eins og Íbúðalánasjóður.

Það vill svo til, herra forseti, að 1997 benti ég á þennan vanda, ekki bara í A-deildinni, mér datt hún ekki einu sinni í hug, ég benti á vandann í B-deildinni. Þar eru 300–400 milljarðar ógreiddir og ófærðir, eru hvorki á fjárlögum né fjáraukalögum. Ég benti á það þá og barðist eindregið gegn því, flutti hér breytingartillögur og ég veit ekki hvað. Það var allt kolfellt fyrir mér, allar breytingartillögur um að laga stöðu B-deildarinnar.

Það var alveg hægt að bjóða opinberum starfsmönnum að fá annaðhvort há laun og venjuleg lífeyrisréttindi eða lág laun og góð lífeyrisréttindi. Þeir áttu bara að velja. En þá voru líka launin greinilega miklu lægri en á almennum markaði hjá þeim sem það völdu. Nei, það var allt kolfellt, enda hagsmunirnir miklir. Kannski er það sérhagsmunagæslan sem fer verst með fjárlög íslenska ríkisins.

Ég benti líka á það 2004 að það yrði mikill vandi hjá Íbúðalánasjóði ef vextir lækkuðu. Ég benti á þetta í ræðu á Alþingi í tvígang, bæði í byrjun ársins og lok. Menn hlustuðu ekki mikið á það og sögðu: Það getur ekki verið að vextirnir lækki á Íslandi, það gerist aldrei.

Auðvitað gerðist það og nú sitjum við uppi með 2% vexti á markaði. Það er gaman að heyra í þeim sem sögðu að 3,5% vaxtaviðmið lífeyrissjóðanna væri ávöxtunarkrafa sem héldi uppi vöxtum. Ja, þeir sjá nú árangurinn. Það hefur ekki haldið uppi neinum vöxtum. Vextirnir eru komnir í 2% raunvexti og Íbúðalánasjóður er í miklum vanda og vaxandi. Það er enn eitt gatið í þessari mynd ríkissjóðs þannig að þau eru ýmis, götin.

Einu sinni var Rússi sem hét Pótemkin. Hann átti von á fínum gestum og þeir fóru í gegnum eitthvert þorp sem var afskaplega óhrjálegt, subbulegt og fullt af gömlum kofum. Hvað gerði maðurinn? Hann tók sig til og málaði framhliðina. Það heita síðan pótemkintjöld og eru notuð til að sýna eitthvað sem er rotið og skítugt en með fallega framhlið.

Svo var líka þekkt undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar í Þýskalandi fyrirbæri sem á þýsku heitir Zweckoptimismus, þ.e. bjartsýni sem er ætlað að búa til bjartsýni.

Það getur ekki verið svona, sögðu menn, þetta hlýtur að vera í lagi.

Hv. þm. Lúðvík Geirsson, sem er 2. varaformaður fjárlaganefndar, flutti ræðu þar sem hann sagði: Það er stöðug sigling í rétta átt og þetta gengur ljómandi vel. Fleiri voru með þannig ræður í gær. Að mínu mati, herra forseti, er þetta „Zweckoptimismus“. Þá er ég búinn að tala um götin á flíkinni og allt það.

Ég leyfi mér að segja að vinstri menn hafa dálítið þrönga hagfræðilega sýn. Hvað gerir maður, herra forseti, þegar það er halli á ríkissjóði? Maður hækkar skatta. Og hvað gerir maður annað, herra forseti? Maður sker niður. Vinstri menn halda að þetta sé lausnin. En þegar maður hækkar skatta minnkar skattstofninn, hann dregst saman. Frumkvæðið dettur niður, allt fer í frost og tekjur ríkissjóðs verða ekki eins miklar og menn ætluðu. Þetta eru áhrif sem kallast Laffer-kúrfa og er almennt viðurkennt að þegar tekjur ríkissjóðs af ákveðnum skattstofni eru komnar yfir ákveðin mörk — ég er ekki að segja að ef maður lækkaði tekjur ríkissjóðs endalaust mundu tekjurnar stöðugt aukast, það er ekki þannig — hættir skattstofninn að gefa þær tekjur sem hann gaf áður og ríkissjóður tapar á skattahækkuninni. Ég er ansi hræddur um að margt af því sem menn eru að gera núna sé einmitt þetta.

Svo er annað, hvað ætli menn skeri fyrst niður þegar þeir ætla að skera niður ríkisútgjöld, herra forseti? Að sjálfsögðu laun vegna þess að 70% af útgjöldum ríkisins eru laun. Það sem eftir situr er yfirleitt svo nauðsynlegt að það er ekki hægt að skera það niður. Hvað gera menn þá? Menn segja upp opinberum starfsmönnum, aðallega konum, herra forseti, hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, meira að segja lágtekjukonum. Hvað verður um þetta fólk sem er sagt upp hjá ríkinu í þessari stöðu, þegar enga atvinnu er að hafa annars staðar? Það fer á atvinnuleysisbætur. Hver skyldi borga atvinnuleysisbæturnar, herra forseti? Nú, það er ríkissjóður. Fólkið fer af launaskrá yfir á atvinnuleysisbætur innan ríkissjóðs, reyndar á lægri bætur, það skal tekið fram.

Hvort tveggja, hækkun skatta og niðurskurður í þessari stöðu, er ógæfulegt, það er röng stefna. Hvað eiga menn að gera í svona stöðu? Reyna að stækka kökuna, hvetja til fjárfestingar og lækka skatta þannig að það sé meiri dugnaður í þjóðfélaginu þannig að kakan stækki. Þá fær ríkissjóður meiri tekjur, ja, það er að minnsta kosti kenningin, og þegar það er komin næg atvinna getur maður farið að skera niður. Þá fær fólkið sem er sagt upp ný störf. Þessi leið trúi ég að sé lausnin en ekki sú helstefna eða ég veit ekki hvað á að kalla hana, ég má kannski ekki kalla það helstefnu en frystistefnu, að skatta og skera niður. Það sem er kannski verst, herra forseti, og var í rauninni alveg óþarfi er flækjustig skattkerfanna. Það var óþarfi en það kemur til viðbótar.

Svo hafa menn verið með alls konar gæluverkefni. Forgangsröðunin hjá hinu háa Alþingi á að vera vandi heimilanna. Og hver er vandi heimilanna? Hann er tvíþættur. Það er annars vegar tekjuvandi, fólk hefur ekki sömu tekjur og áður vegna þess að margir voru í tveim störfum og annað starfið hefur dottið upp fyrir. Margir hafa misst yfirvinnuna, margir hafa verið skertir í launum o.s.frv. Sumir hafa haldið laununum sínum og þeir eru ekki í greiðsluvanda þannig séð, en margir hafa misst vinnuna og hafa miklu minni tekjur og geta þar af leiðandi ekki borgað af lánunum sínum eða framfærslunni. Og það er jafngilt, það þarf áfram að kaupa mjólk, brauð og annað slíkt þó að allt sé orðið dýrara og launin lægri.

Þetta er framfærsluvandinn, greiðsluvandi heimilanna, en svo er líka skuldavandi sem hefur komið niður á ekkert voðalega stórum hluta, um 10% heimilanna, og felst í því að það varð eignabóla og síðan lækkaði fasteignaverð mikið og þeir sem keyptu einmitt á toppi bólunnar lenda margir í því að hafa tapað miklu eigin fé og skulda meira en þeir eiga. Það er ekki búið að leysa þennan vanda nema með sértækum aðgerðum, það er ekki búið að leysa hann almennt. Kannski er það ekki hægt en ég hef reyndar ákveðnar hugmyndir um hvernig væri hægt að gera það, ekki að fullu en mér finnst þurfa að koma til móts við þennan hóp fólks eða fjölskyldna. Það er ekki í þessu frumvarpi.

Í nefndaráliti meiri hlutans stendur, með leyfi herra forseta:

„Á gjaldahlið munar mestu um fjárfestingaráætlun sem boðuð var í frumvarpinu og kynnt 8. nóvember sl. Gjaldaheimildir hækka um 5,6 milljarða kr. vegna áætlunarinnar, auk heimildar til þess að veita 500 millj. kr. stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs.“

Ja, mikið er nú gaman að lifa. Bíddu við, eru ekki kosningar, herra forseti? Þetta skyldi þó ekki hanga saman, menn skyldu þó ekki vera að fiska atkvæði með þessu? Og hvað stendur undir þessu, herra forseti? (Gripið fram í.) Það er veiðigjaldið, aðallega veiðigjaldið. Nú er það sett á og sumir segja að það sé bara fínt mál að útgerðin borgi veiðigjald. Það er alveg sjálfsagt, hún er með aðgang að auðlindinni og hún á að borga fyrir það, að sjálfsögðu. Ég held að flestir séu komnir inn á þá línu. Vandinn við þetta veiðigjald er hins vegar sá að það er ákveðið á Alþingi og það er ákveðið löngu eftir á. Útgerðin vinnur eins og aðrar atvinnugreinar alla daga og hún þarf að selja og hún þarf að kaupa og það eru gæftir eða ekki gæftir og alls konar áhætta. Útgerðin er að vinna sem sagt í núinu en gjaldið er lagt á samkvæmt gamalli sögu, samkvæmt reynslu sem stundum er orðin eins eða tveggja ára gömul.

Hvað skyldi gerast, herra forseti, ef það gerist eitthvað í Evrópu? Ég hef heyrt óljóst að það séu einhver vandræði í Evrópu, það séu jafnvel einhver vandræði með evruna, skuldavandi þar líka. Ég nefni Grikkland sem stikkorð. Hvað gerist ef íbúar í Evrópu telja sig ekki hafa efni á að kaupa dýran íslenskan fisk? Hann er nefnilega mjög dýr. Það er afrakstur af frábærri markaðssetningu sjávarútvegsins, hún er nefnilega alveg frábær, að hafa tekist að selja íslenska fiskinn sem er með dýrari matvöru í Evrópu. Og hvað gerist ef Evrópubúinn hefur ekki lengur efni á að kaupa íslenskan fisk og menn neyðast til að lækka verðið á honum? Var ekki búið að setja eitthvert veiðigjald á útgerðina? Á ekki útgerðin að borga það alveg óháð tekjum núsins? Hún var rukkuð um veiðigjald miðað við tekjur fortíðarinnar, eins eða tveggja ára gamlar upplýsingar. Hvað gerist ef það verður mikið verðfall á næstu tveim, þrem mánuðum? Það gæti gerst, ég er ekki að spá því en það vill svo til að margt sem ég hef sagt hefur ræst. Það yrði skelfilegt.

Hvað mundu menn þá þurfa að gera með veiðigjaldið, herra forseti? Ég geri ráð fyrir að það yrði rokið upp til handa og fóta og það lækkað, a.m.k. á vissum fisktegundum sem mundu lenda illa í því. En bíddu við, það var búið að lofa að gera þetta og hitt í einhverri fjárfestingaráætlun og menn meira að segja búnir að fá atkvæði út á að hafa lofað því að gera hitt og þetta fallegt. Þetta er ekki nógu gott, herra forseti.

Núverandi ríkisstjórn er minnihlutastjórn, hún er ekki með meiri hluta á Alþingi. Í gær hélt hv. þm. Jón Bjarnason ágætisræðu um það sem koma skal. Hann sagði að hann ætlaði ekki að samþykkja fjárlagafrumvarpið nema það yrðu tryggðar fjárveitingar til Hólaskóla, sem honum er mjög umhugað um. Eflaust eru margir kjósendur hans mjög ánægðir með frammistöðu hans gagnvart Hólaskóla, þ.e. hann fær atkvæði út á það. Hann sagði að það ætti að reka Hólaskóla með reisn, það á ekki að vera neinn fátæktarbragur þar. Þar á ekki að skera niður eins og hjá löggunni, nei. Þar á ekki að skera niður eins og í tækjum á spítölunum o.s.frv., nei, nei, nei. Þar á sem sagt að reka Hólaskóla með reisn.

Nú kann að vera, herra forseti, að fleiri stjórnarliðar komi í þennan ræðustól eða annað og segi: Heyrði, ég styð ekki fjárlagafrumvarpið nema það verði bætt í hér og þar.

Þetta er alveg stórhættulegt, herra forseti, fyrir utan hvað það býr til mikla innri spennu í kerfinu þegar sumir fá og aðrir ekki, bara af því að einhver þingmaður ber umhyggju fyrir viðkomandi stofnun eða stað.

Svo er þetta veiðigjald, hvað gerir það eiginlega, herra forseti? Það leggur álögur á eina grein, sjávarútveginn sem er orðinn ansi hvekktur. Maður sér það á öllum viðbrögðum þar. Og þannig eru tekjurnar teknar frá sjávarútveginum. Það er meiningin, einhverjir fara á hausinn, það er fyrirséð og var þekkt. Reyndar skilst mér að kvótafrumvarpið sem átti að koma innan þriggja vikna hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra sé til umræðu í þingflokkum stjórnarliða í augnablikinu. Þeir eru sennilega nýbúnir að ræða það. Ráðherrann ætlaði að klára það á þrem vikum en þetta eru orðnar ansi langar þrjár vikur. Það var í janúar sem hann sagði þetta.

Ég dreifði hins vegar kvótafrumvarpi mínu um eignarhald á kvótanum fyrir tveim mánuðum. Það er svo sem ágætt að ræða það líka. (Gripið fram í: Fyrningarleiðin.) Já, það er fyrningarleið og það er dreift á íbúana sem er mjög skynsamlegt. Það er hinn fullkomni markaður, herra forseti. Ég held að menn ættu að skoða það betur í staðinn fyrir að koma með þetta kommúnistafrumvarp sem var lagt fram hérna í vor og mér skilst að komi aftur. (SER: Þetta er fasistafrumvarp.) Nei, það er kommúnistafrumvarp eða ráðstjórnar-eitthvað. Ég ætla ekki endilega að gefa því nafn.

Meiningin með þessu veiðigjaldi er að taka tekjur af einni atvinnugrein og búa til ákveðið atvinnuleysi þar. Mörg fyrirtæki munu fara á hausinn, það liggur í hlutarins eðli. Tekjur sjómanna verða lækkaðar sem og tekjur fólks í þessum greinum sem hefur verið með mjög há laun og þær fluttar yfir í aðrar greinar, nýjar greinar á nýjum stöðum þar sem er þessi fjárfestingaráætlun. Það myndast engin ný atvinna við þetta, herra forseti. Hagfræðingar segja okkur að það skapist engin atvinna við að taka peninga af einum atvinnuvegi og setja í annan þannig að ég sé ekki að þetta skapi neina atvinnu. Það getur vel vaxið atvinnuleysi á einum stað, Siglufirði, og atvinna skapast á öðrum stað þar sem vantar fólk.

Svo eru menn góðir líka. Í dag var verið að kynna fæðingarorlof, það á að lengja það upp í 12 mánuði. Það er nú aldeilis fínt, það er aldeilis gæskan. En bíddu við, það á að taka gildi í tíð næsta fjármálaráðherra, eftir kosningar. Það verður vandamál næsta fjármálaráðherra, nú er lofað og það á að borga seinna.

Svo var gert samkomulag í nefnd, sem ég sat í, um almannatryggingar. Þar var svokölluð framfærsluuppbót sett inn í lífeyrinn og hún á að hverfa á fjórum árum. Það eru gífurleg útgjöld — en ekki strax. Það gerist líka 2014, 2015 og 2016. Næsti fjármálaráðherra þarf að glíma við það, herra forseti. Svona er stöðugt verið að lofa og lofa. Bíddu við, minnir þetta ekki dálítið á Grikkland? Þetta minnir mig að minnsta kosti á Grikkland, þar var verið að falsa og lofa.

Á þessari mynd eru stór göt. Á meðan erum við með löggæsluna svelta o.s.frv. og það er verið að lofa á öðrum sviðum. Það eru greinilega að koma kosningar þannig að menn séu með það á hreinu. Ég vona að kjósendur átti sig á því að það eru að koma kosningar og að þeir verði látnir borga þetta allt saman eftir kosningar. Allir landsmenn eru skattgreiðendur, meira að segja litlu börnin. Þegar þau fara út í búð og kaupa nammi í poka fyrir hundraðkall borga þau rúmlega 20 krónur í virðisaukaskatt þannig að öll erum við skattgreiðendur og öll munum við borga þau ævintýri sem hér er verið að ræða um.

Nú er það spurningin, herra forseti, hvort hæstv. fjármálaráðherra sé við. Ég óskaði eftir því alveg sérstaklega að hann yrði viðstaddur. Hann reyndar gerði það ekki sjálfur en mig langar (Forseti hringir.) til að spyrja hann —

(Forseti (ÁÞS): Forseti getur upplýst að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er í húsi en það verður kannað hvort ráðherrann er einhvers staðar ínáanlegur eða er að hlýða á ræðu og mál hv. þingmanns.)

Ég man þá tíð, af því að ég er búinn að vera allt of lengi á þingi, að menn kröfðust þess um miðjar nætur, akkúrat þeir sem nú eru ráðherrar, að ráðherrar í ýmsum greinum mættu við alls konar umræður og þar á meðal fjárlagaumræðuna. Ráðherrar komu hlýðnir og sátu undir umræðunni. Þetta er siður sem hefur verið lagður af en það er kannski ágætt fyrst hæstv. ráðherra er í húsi og við erum að ræða um fjárlagafrumvarpið að hann mæti í þingsal og hlýði á mál mitt eða að ég geti spurt hann spurninga.

Það sem ekki sést í þessu fjárlagafrumvarpi er stefnumörkun. Ég ætla ekki að fara yfir það hve mörgum hv. stjórnarliðum er í nöp við þá sem eru fjármagnseigendur. Það er að mati þeirra ljótt fólk og það þarf endilega að ná í þessa fjármagnseigendur sem eiga fjármagn og hafa belti og axlabönd og ég veit ekki hvað.

En hverjir skyldu vera fjármagnseigendur, herra forseti? Heimilin í landinu. Enginn annar er fjármagnseigandi. Það er bara sparifjáreigandinn vegna þess að fyrirtæki spara ekki, þau taka lán. Fyrirtæki eru ekki með sparnað. Sveitarfélögin spara ekki, ríkissjóður sparar alls ekki. Eigendur sparifjár í landinu eru alltaf heimilin, þau eru hinn ljóti fjármagnseigandi. Reyndar spara þau á tvennan hátt, annars vegar með frjálsum sparnaði sem rýrnar núna mjög hratt og veglega, þökk sé þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart fjármagnseigendum sem þeir kalla svo, þ.e. sparifjáreigendum, að skattleggja neikvæða vexti. Það er algjör óskundi. Það er verið að ráðast gegn þeirri dyggð að sýna ráðdeild og spara. Það er verið að segja við fólk: Þú átt ekki að sýna ráðdeild og spara. Það er mjög slæmt.

Síðan er líka ráðist gegn fjárfestingum á allan máta alls staðar. Það er verið að setja í byggingarreglugerð að íbúðir verði svo dýrar að ungt fólk geti ekki keypt. Það þýðir að það verður ekki byggt, það verður ekki fjárfest. Ég veit reyndar ekki hvernig það endar þegar unga fólkið fær hvergi húsnæði. Það hlýtur að enda með mjög hárri leigu eða mjög háu íbúðaverði.

Það vantar fjárfestingu. Bíddu við, er ekki allt í lagi að hafa litla fjárfestingu og hún er víst í sögulegu lágmarki, er það ekki allt í lagi? Nei, herra forseti, vegna þess að eina leiðin til að skapa atvinnu er fjárfesting. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ítrekað ráðist gegn fjárfestingu, sparnaði og ráðdeild, kallað sparifjáreigendur fjármagnseigendur og tvöfaldað skattinn á vextina, tvöfaldað hann úr 10% í 20%. Það vill svo til að raunvextir eru yfirleitt neikvæðir. Svo eiga heimilin í landinu sparifé sem er þvingaður sparnaður í lífeyrissjóðunum. Og hvað hefur þessi hæstv. ríkisstjórn gert, herra forseti? Hún hefur skattlagt lífeyrissjóðina líka og þá bara þá sem eru á almennum markaði, ég er búinn að benda á þetta aftur og aftur, því að ríkislífeyrissjóðurinn LSR hefur tryggð réttindi. Þau skulu greidd úr ríkissjóði. Og hverjir skyldu standa undir ríkissjóði? Einmitt sjóðfélagar almennu sjóðanna sem hafa bæði skert réttindi og eru látnir borga réttindi opinberra starfsmanna. Þetta gengur ekki upp, herra forseti.

Nú er tími minn að verða búinn, hæstv. fjármálaráðherra ekki mættur og ég ætlaði að spyrja hann um 1 milljarðs dollara lánið í Bandaríkjunum sem hann tók með 6% vöxtum, hærri vöxtum en voru á Icesave. Og til hvers í ósköpunum var hann að þessu? Til að auka lánstraust Íslands. Bíddu, lánstraust lands sem er í gjaldeyrishöftum? Til hvers? Hvert fóru þessir peningar, hvað var gert við þá? Ég hef grun um að þeir hafi verið lagðir inn á bankareikning, ætli það sé ekki Citibank eða Bank of England, einhvern öruggan banka með kannski 0,3% eða 0,4% vöxtum. Og við borgum 6% vexti, þ.e. 6 milljónir dollara, það eru eitthvað um 200 milljónir kr., algjörlega að óþörfu. Og þetta er það sem mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um en hann er bara ekki á staðnum, herra forseti. Ég vona að hann komi og taki þátt í umræðunni og útskýri fyrir okkur af hverju í ósköpunum hann eða forveri hans tók 1 milljarðs dollara lán þegar landið er í gjaldeyrishöftum og borgar fyrir það 6% vexti. Það var bent á það fyrr í umræðunum að íbúðarkaupandi í New York borgar 3,5% fasta vexti af jafnlöngu dollaraláni.