141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi tel ég að Íbúðalánasjóður eigi strax að gefa út skuldabréf sem eru uppsegjanleg eða dregin út eða einhvern veginn þannig að þeir sem kaupa viti að þeir séu ekki með (BVG: Það tekur ekki á vandanum.) … Nei, en þá er alla vega búið að leysa hann frá og með deginum í dag og það hefði mátt gera strax og þessi vandi kom í ljós fyrir tveimur til þremur árum. Það hefði minnkað skuldbindinguna töluvert mikið. (Gripið fram í.)

Vissulega var bent á vandann sem myndast þegar raunvextir lækka, vextir fóru niður fyrir þá vexti sem Íbúðalánasjóður er að lofa. Þessi ríkisbanki, stærsti ríkisbankinn, fór á hausinn ekkert síður en einkabankarnir. Það er ekkert einkenni á einkabönkum að fara á hausinn. Byggðastofnun, sem líka er ríkisbanki, er einnig í verulegum vandræðum.

Ég gat um 47 milljarða hjá A-deild LSR. Af hverju í ósköpunum er það ekki leyst? Ég get svarað því, herra forseti: Þá þarf að hækka iðgjald ríkisins og það kostar 4 milljarða á ári, og það vilja menn ekki láta sjást. Það er verið að fela vandann, sópa honum undir teppið, geyma hann og sjá hvort næsti fjármálaráðherra muni ekki að leysa hann.