141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar ég var að velta því fyrir mér hvar ég ætti að byrja í þessari umræðu um fjárlögin kom gamalt kosningaslagorð Framsóknarflokksins upp í hugann. Það var: „Vinna, vöxtur, velferð.“

Á mjög góðri ráðstefnu sem var haldin í Hörpu fyrir nokkru, þar sem verið var að fjalla um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, átti ég samtal við nokkra starfsmenn sjóðsins. Þar kom fram að það hefði komið þeim á óvart, þegar þeir komu hingað til lands, hversu mikil samstaða var í stjórnmálunum og í samfélaginu almennt um mikilvægi þess að standa vörð um velferðarkerfið. Þetta virtist vera eitthvað sem þeir töldu frekar einstakt fyrir Ísland, eitt af einkennum Íslands, þessi samstaða og samhugur um mikilvægi þess að vera með gott velferðarkerfi, að ákveðið net sé til staðar til að styðja við þá sem minna mega sín.

Ég hef því ekki að öllu leyti getað tekið undir þá gagnrýni sem hefur beinst að núverandi ríkisstjórn þess efnis að ríkisstjórn sem vilji kenna sig við norræna velferð sé að skera niður í velferðarkerfinu af því að henni sé svo illa við velferðarkerfið.

Við stóðum frammi fyrir miklum erfiðleikum eftir hrunið þar sem stór hluti þeirra tekna sem ríkið hafði fengið fyrir hrun hvarf. Ríkið hefur síðan þurft að taka á sig miklar skuldbindingar sem hefur orðið til þess að nauðsynlegt hefur reynst að hagræða. Við hefðum vissulega getað gert ýmislegt öðruvísi en gert hefur verið en það er alveg sama hverjir hefðu verið í ríkisstjórn, taka hefði þurft erfiðar og stórar ákvarðanir.

Ástæðan fyrir því að ég nefni sérstaklega þetta gamla slagorð sem ég tel að eigi enn mjög vel við er sú að hugsunin er svo mikilvæg þegar við nálgumst velferðina og hvernig við rekum ríkið. Við þurfum nefnilega að byrja á réttum enda. Vinna, vöxtur, velferð — við verðum að skapa vinnu, tryggja að hér sé öflugt atvinnulíf, til að vöxtur verði og til að við getum borgað fyrir velferðina. Það gerum við ekki með því að hækka skatta. Það gerum við heldur ekki með því að auka bætur eða leggja enn frekar í það að fjölga stofnunum eða jafnvel fækka. Við gerum það fyrst og fremst með því að efla atvinnulífið. Í þessari umræðu vil ég sérstaklega koma inn á sjálfa fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar er tafla þar sem farið er í gegnum hvernig ætlunin sé að ráðstafa 5,6 milljörðum í hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun stjórnvalda. Þar eru nokkur atriði sem ég get tekið undir. Ég er sammála því að mikilvægt sé að efla grænar fjárfestingar. Ég tel mikilvægt að stuðla að því að íslensk fyrirtæki séu sem mest umhverfisvæn í starfssemi sinni, að það muni skila okkur aukinni sjálfbærni og draga úr notkun á gjaldeyri þegar kemur að kaupum á erlendri orku, bensíni eða olíu. En ég stoppa hins vegar við áhersluna sem kemur fram á uppbyggingu á ýmissi menningartengdri starfsemi sem, eins og 2. minni hluti nefnir hér sérstaklega, mun leiða til aukins rekstrarkostnaðar í framtíðinni fyrir ríkið. Það er erfitt að sjá hvar tekjurnar munu koma inn til að geta staðið undir velferðinni sem, eins og ég nefndi hér áðan, við erum öll sammála um að er mikilvæg.

Í tiltölulega nýlegri skýrslu frá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey eru nefndar ýmsar leiðir sem hægt væri að fara til að styrkja og efla íslenskt atvinnulíf. Mér finnst vanta í þessa tillögu og áherslurnar hvað það varðar að rætt sé um hvernig við getum einfaldað kerfið. Lítil og meðalstór fyrirtæki — sem langflest íslensk fyrirtæki eru, fyrirtæki sem skapa störf, borga fólki laun og gera það að verkum að ríkissjóður fær tekjur — standa frammi fyrir því að skattkerfið hefur orðið æ flóknara. Það er svo sem ekki nýtt, það skal alveg viðurkennast, en það hefur hins vegar, sérstaklega ef við horfum á lagaumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á Íslandi, orðið æ flóknara.

Ég hefði talið rétt að hluti af fjárfestingaráætlun stjórnvalda hefði farið í átak í því hvernig hægt væri að einfalda kerfið gagnvart þessum litlu fyrirtækjum. Að það þurfi ekki að vera þannig að fyrirtæki sem er með 10 starfsmenn að hámarki þurfi að hafa einn starfsmann í engu öðru en því að halda utan um nauðsynlega upplýsingaöflun, samantekt og skil á sköttum og fylgjast með þeim skattbreytingum sem venjulega detta inn korteri fyrir áramót. Þetta er kostnaður. Einnig má einfalda félagaréttinn. Ég held að á sínum tíma hafi verið gengið of hart fram í því að hvetja einstaklinga til að færa sig yfir í einkahlutafélagaformið. Það hefur aukið flækjustigið við rekstur viðkomandi fyrirtækja. Það ætti að geta aukið arðsemina, og um leið skatttekjur ríkissjóðs, að fara skipulega í gegnum félagaréttinn og í gegnum skattkerfið með það í huga hvernig við getum einfaldað það þó að það skili okkur sambærilegum tekjum.

Í skýrslu McKinseys er líka talað um það — og ég tel líka skorta mjög á það í fjárfestingaráætluninni — hvernig hægt sé að hvetja fólk til að fara út í nýsköpun, fara út í að stofna fyrirtæki. Ef stofnað er fyrirtæki og búið til eitt starf er í raun hægt að margfalda það með þremur. Hvert nýtt starf á hugsanlega að geta skapað þrjú störf. Í McKinsey-skýrslunni er einmitt sérstaklega talað um að mikilvægt sé að fyrirtækin hafi aðgang að fjármagni, að hægt sé að fá fjármagn í áhættufjárfestingar því að það er alltaf áhætta að skapa ný störf, að skapa nýtt fyrirtæki. Fólk er oft að leggja allt sitt undir, heimili sitt, lífsviðurværi sitt og fjölskyldu sinnar. Því sé mjög mikilvægt að til staðar sé stuðningur og kerfi til að tryggja að allt samfélagið taki þátt í fjárfestingunni.

Í skýrslunni er bent á að eina spariféð sem verið hefur til staðar í íslensku samfélagi er í gegnum lífeyrissjóðina og þeir hafa að mjög litlu leyti verið að koma inn í áhættufjárfestingar og nýsköpun. Horfa þyrfti til þess hvort að einhverju leyti væri nauðsynlegt að breyta lagaumhverfi lífeyrissjóðanna til að tryggja að þeir hafi möguleika á þessu.

Ég hefði líka gjarnan viljað sjá hjá núverandi stjórnvöldum sambærilegt verkefni og breska ríkisstjórnin hefur farið út í. Þeir hafa kallað það verkefni Merlin eftir goðsagnapersónunni og galdramanninum Merlin. Gerður var samningur við fjögur af stærstu fjármálafyrirtækjunum í Bretlandi, þau sem fengu mesta ríkisaðstoðina 2008, um að leggja ákveðna upphæð sérstaklega í að lána fyrirtækjum. Talað var um 190 milljarða punda og þar af ættu um 76 milljarðar að fara til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er ekki nóg að benda bara á það sem maður telur að hefði átt að gera heldur þyrfti maður þá líka að geta þess hvernig hægt hefði verið að fjármagna hlutina. Í nefndaráliti 2. minni hluta er talað um að ætlunin sé að hækka gjald af lánastofnunum til umboðsmanns skuldara úr 0,03% upp í 0,0343%. Það mundi þá skila 2 milljörðum kr. í tekjur. Gera má ráð fyrir því að smátt og smátt dragi úr umsvifum umboðsmanns skuldara og þá er spurning hvort hægt væri að komast að einhvers konar samkomulagi við fjármálafyrirtækin um að þetta fjármagn kæmi þarna inn. Það má líka nefna óhreyfðar innstæður. Það svar fékkst við fyrirspurn í þinginu að svokallaðar óhreyfðar innstæður, sem hafa legið óhreyfðar í 15 eða 16 ár, að mig minnir mig, séu um 1,5 milljarðar. Það er spurning hvort mögulegt væri að nýta þá fjármuni ásamt því að lífeyrissjóðirnir kæmu inn í dæmið til að fjármagna nýsköpun í atvinnulífinu.

Ég hef líka saknað mjög stefnumörkunar hjá stjórnvöldum um það hvernig hægt sé að lækka vextina, sem er náttúrlega aðalatriðið hvort sem við erum að tala um heimili eða fyrirtæki. Í frumvarpi okkar framsóknarmanna er tillaga um endurskoðun á ávöxtunarkröfum lífeyrissjóðanna. Ýmsir hafa bent á að þeir telji að samspil sé þar á milli, að þessi ávöxtunarkrafa upp á 3,5% geti að einhverju leyti leitt til þess að vextirnir hér eru þetta háir. Vaxtakjörin, eins og doktorsneminn Ólafur Margeirsson hefur sýnt fram á, hafa raunar gert það að verkum að framlegðin, hagnaðurinn af íslenskum fyrirtækjum, hefur nánast ekki verið nein, hefur verið mjög lítil ef horft er til þess hve fyrirtækin hafa verið að borga háa vexti. Fyrirtækin þurfa þar af leiðandi að skila mikilli arðsemi til að geta staðið undir þessu.

Ég hefði því gjarnan viljað sjá einhvers konar sambærileg verkefni og ég nefni í Bretlandi með samkomulagi við fjármálafyrirtækin um að þau taki höndum saman um að efla atvinnulífið og stofna ný fyrirtæki á Íslandi. Einnig þarf að horfa til þess að mikil samstaða var í þinginu um mikilvægi þess að byggja upp grænt atvinnulíf og fókusinn gæti að hluta til verið þar.

Ég hef líka bent á skýrslu þriggja vitringa, útlendinga, sem þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fékk til að fara í gegnum menntakerfið og velta fyrir sér hvað við ættum að leggja áherslu á, hvernig við gætum endurskipulagt menntakerfi okkar, til að við gætum farið að byggja okkur upp á nýjan leik. Þeir sáu hvað mest tækifæri fyrir Íslendinga, þar sem við gætum náð afburðaárangri á heimsvísu, á þrem sviðum. Það voru heilbrigðisvísindin. Við erum mjög stolt af heilbrigðiskerfi okkar og heilbrigðisstarfsmönnum. Hér eru fyrirtæki sem hafa verið að þróa ýmsa tækni sem ættu þá að vera hentug til útflutnings á sviði heilbrigðisvísinda. Við erum með vísindamenn, fræðimenn við Háskóla Íslands, sem hafa verið að skila af sér greinum á heimsmælikvarða. Þeir töluðu um að þarna lægju mikil tækifæri. Fyrirkomulag eins og ég nefndi varðandi auðveldari aðgang að áhættufé gæti þá orðið til að auðvelda millifærsluna á þekkingu úr fræðasamfélaginu yfir í vöru eða þjónustu sem hægt væri að selja úr landi.

Í öðru lagi nefndu þeir það sem þeir kölluðu, að mig minnir, náttúruvísindi eða það sem tengist jarðhitanum og náttúru Íslands. Þar höfum við séð að sprotafyrirtæki hafa verið að ná árangri og þar teljum við líka þau öflugu orkufyrirtæki sem við eigum. Sú nýsköpun sem verið hefur á sviði þróunar í jarðvarmavirkjunum ætti að vera dæmi um það sem við eigum að horfa til og styðja við. Við eigum að styðja við vísindastarf og í framhaldinu sköpun á nýrri þekkingu og nýjum vörum og þjónustu sem hægt væri að selja úr landi til að afla gjaldeyristekna.

Þriðji liðurinn, sem ég held að mikil samstaða sé um innan þingsins, lýtur að því að mikilvægt sé að breyta viðhorfinu innan þings og utan, í samfélaginu, um það að skapandi greinar eru og geta verið mikill vaxtarsproti fyrir íslenskt samfélag. Það er eitthvað sem við getum boðið upp á sem er öðruvísi, sem er sérstakt. Ekki er endilega hægt að segja að við séum betri en aðrir en þarna eru hins vegar möguleikar á að þróa vöru og þjónustu sem hægt er að koma á framfæri með samspili við tæknigeirann eins og varðandi tölvuleikina. Við höfum séð hvernig kvikmyndaiðnaðurinn hefur blómstrað með nýjum verkefnum sem hafa komið utan frá. Þar getum við vísað til þess að undirstaðan hafi einmitt verið sú framsýni sem fólst í því að koma á sérstökum skattaívilnunum gagnvart kvikmyndagerð.

Ég hef nýlega lagt fram frumvarp um að við komum á sambærilegu fyrirkomulagi hvað varðar tónlistariðnaðinn. Ég held að þar stöndum við á góðum grunni í gegnum það fjölbreytta tónlistarnám sem er til staðar í landinu, tónlistarmenningu okkar. Ég held að varla sé til það bæjarfélag hringinn í kringum landið þar sem ekki finnst öflugur kór og mikill áhugi almennt á tónlist. Mér finnst svolítið fyndið að ég skuli vera að tala sérstaklega um þetta vegna þess að ég er alræmd í minni fjölskyldu fyrir að geta ekki haldið lagi, fæ varla að syngja í baðherberginu hvað þá annars staðar. En ég tel hins vegar að mikill möguleiki sé á því, með sambærilegu fyrirkomulagi, að laða hingað erlenda tónlistarmenn sem væru tilbúnir að koma hingað og taka upp tónlist, bæði upptökurnar sjálfar á tónlistarmyndbönd. Líka væri hægt að íhuga sambærilega ívilnun gagnvart tónlistarhátíðum. MTV-hátíðin var á tímabili að velta fyrir sér að koma hingað og hátíðir af þeirri stærðargráðu gætu skilað gífurlegum fjármunum inn í íslenskt samfélag. Ég bendi á Airwaves sem dæmi en tölur þeirra sýna fram á að Airwaves-hátíðin kemur með milljarð inn í samfélagið á þeim tíma sem minnst er að gera í ferðaþjónustunni. Það er alveg frábært framtak. Nefna má fleiri tónlistarhátíðir hringinn í kringum landið. Þetta eru svona dæmi um það hvar möguleikarnir liggja. Ég nefni líka rithöfundana okkar. Þeirra starf fellur að sjálfsögðu undir skapandi greinar. Við byggjum á langri sagnahefð, Íslendingar, og þarna er einmitt möguleiki á því að búa til vöru, bók, sem hægt væri að selja úr landi, markaðssetja í öðrum löndum. Það skilar síðan tekjum og þá störfum hingað til Íslands.

Grunnurinn að þeim hugmyndum sem komu fram í skýrslunni sem unnin var fyrir þáverandi menntamálaráðherra er náttúrlega menntakerfið sjálft. Þegar við ræðum um það hvernig við getum búið til nýjar tekjur eigum við líka að velta því fyrir okkur, og að sjálfsögðu hafa allir stjórnmálamenn á þingi gert það, hvernig hægt sé að nýta betur þá peninga sem við þó höfum. Innan menntakerfisins eru mikil tækifæri til að fá meiri hagnað, meiri arðsemi, meiri árangur af þeim fjármunum sem við setjum í það. Í samanburðarrannsóknum við nágrannalönd okkur kemur í ljós að við setjum töluvert hærri upphæðir í grunn- og framhaldsskólana en aftur á móti lægri upphæðir þegar kemur að háskólanámi og því sem snýr að vísindastarfi.

Miðað við meðaltal Norðurlandanna er hærra hlutfall af Íslendingum í aldurshópnum frá 25–49 ára eingöngu með grunnskólamenntun, eða um 25%, og skýrar ábendingar eru um að sú tala mun væntanlega hækka, þ.e. þeim sem einungis eru með grunnskólamenntun mun fjölga. Það er líka, eins og ég hef nefnt töluvert oft í ræðustól, algerlega óásættanlegt hversu hátt brottfallið er í framhaldsskólunum. Það leiðir til þess að við erum meðal þeirra þjóða sem eru með minnstan árangur hvað varðar það hlutfall sem ekki er með framhaldsskólapróf. Reyndin hefur líka verið sú að færra fólk hefur verið að fara í starfs- og verknám og hætta er á því að þetta geti versnað enn frekar.

Við tökum að auki lengri tíma í að klára námið og það á líka við þegar við á annað borð erum komin upp í háskóla. Þetta hefur með það að gera hvernig við höfum sett kerfið okkar upp. Þeim mun lengri tíma sem nemendur eru að ljúka námi þeim mun meiri peninga setjum við í það. Nemendur eru þá seinni út á vinnumarkaðinn þar sem þeir geta skapað verðmæti fyrir samfélagið. Ég hef lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að fara að taka raunverulegar ákvarðanir um það hvernig við getum aukið gæðin og framleiðnina, afköstin, í menntakerfinu. Þess hef ég saknað í tillögum og aðgerðum stjórnvalda á þessu kjörtímabili.

Það virðist heldur ekki hafa verið forgangsatriði hjá stjórnvöldum hvað varðar heilbrigðiskerfið okkar hvernig við getum nýtt þá peninga sem við setjum inn í kerfið til að ná betri árangri, til að auka gæði þeirrar þjónustu sem veitt er og raunar stýra flæðinu betur inn í kerfið. Við framsóknarmenn höfum ályktað sérstaklega um mikilvægi þess að innleiða valfrjálst tilvísanakerfi sambærilegt og þekkist í Danmörku. Þar getur sjúklingur valið hvort hann vill hefja ferð sína í gegnum heilbrigðiskerfið með tilvísun frá heimilislækni til sérfræðilæknis, og fær þá fulla greiðsluþátttöku frá hinu opinbera, eða hvort hann vill fara beint til sérfræðilæknisins án þess að fá tilvísun og ráðgjöf og borga þá sjálfur.

Þetta er hluti af hugmyndafræði sem kölluð hefur verið „gate-keeping“ og er ein af þeim hugmyndum sem ég veit að menn hafa rætt innan velferðarráðuneytisins og eru vonandi á fullu við að innleiða, hefur einfaldlega með það að gera að bjóða upp á eitt símanúmer sem fólk getur hringt í og fengið upplýsingar um hvert það eigi að leita. Við erum ekki að tala um neyðarnúmer heldur bara að leiðbeina fólki á réttan stað innan kerfisins.

Annað dæmi sem ég vil nefna sérstaklega, og ég veit að mikla áhersla hefur verið lögð á það í Svíþjóð, er það hvernig við getum aukið rafræna þáttinn í heilbrigðiskerfinu þannig að það sé kannski ekki einstaklingur sem tekur við tímapöntunum heldur geti sjúklingar sjálfir bókað tíma á netinu. Einnig er verið að stíga mjög stór skref í þróun á fjarlækningum sem ættu líka að stuðla að betri nýtingu á því starfsfólki og þeim fjárfestingum sem við höfum í kerfinu.

Ég get nefnt sjálfa mig sem dæmi um fjarlækningar. Þegar ég brotnaði voru myndir af úlnliðnum á mér sendar frá Sauðárkróki til Akureyrar og bæklunarskurðlæknir þar skoðaði þær og greindi og ráðlagði lækninum á Sauðárkróki hvað best væri að gera. Ég veit að Svíar hafa líka verið frumkvöðlar í að bjóða upp á ráðgjöf, sálfræði- og geðlæknaþjónustu, í gegnum tölvur. Hefur það gefið góða raun hvað varðar meðferð á ýmsum kvíðaröskunum að veita þá ráðgjöf og meðferð í gegnum tölvur. Þetta eru dæmi um það sem ég hefði talið eðlilegt að kæmi fram í fjárfestingaráætlun og mundi falla undir það hvernig við gætum nýtt fjármuni okkar betur.

Ég hef saknað þess sárlega að stjórnvöld fylgi ekki eftir ályktunum og samþykktum stjórnarflokkanna um mikilvægi þriðja geirans í samfélaginu. Eftir hrun urðu ýmis frjáls félagasamtök fyrir margföldu áfalli. Í fyrsta lagi þurftu skjólstæðingar þeirra enn meira á þeim að halda í framhaldi af því áfalli sem þeir voru að upplifa. Einnig var fjármagn frá ríkinu til frjálsra félagasamtaka skorið mjög niður og styrkir sem áður höfðu fengist frá fyrirtækjum hurfu.

Eitt af þeim lykilverkefnum sem breska ríkisstjórnin, íhalds- og framsóknarflokkurinn, hefur staðið fyrir er svokallað Big Society, stórt samfélag eða betra samfélag. Þar hefur svokallaður samfélagsbanki verið settur upp en hann er hugsaður til að styðja við starf frjálsra félagasamtaka. Þessi frjálsu félagasamtök hafa til dæmis tekið að sér að aðstoða ungt atvinnulaust fólk við að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. Sú þjónusta sem hingað til hefur verið á vegum hins opinbera hefur þá getað farið yfir til þessara frjálsu félagasamtaka og áhersla hefur verið lögð á að ekki er verið að tala um hagnað af þeirri starfsemi heldur einungis bætta þjónusta. Sá hagnaður sem hugsanlega gæti orðið við þessar breytingar mundi þá fyrst og fremst skila sér til þeirra sem nýta þjónustuna. Óhreyfðu innstæðurnar, sem ég nefndi hér áðan, hafa einmitt verið nýttar í þetta. Þeir fjármunir hafa verið settir inn í þennan banka og verið undirstaðan að því að hægt er að fjármagna þessa starfsemi og nýsköpun á þessu sviði.

Í McKinsey-skýrslunni eru ýmsar hugmyndir og ýmsir punktar nefndir; ég hef til dæmis talað mikið um mikilvægi nýsköpunar. Íslenska þjóðin er dugleg. Við höfum náð gífurlega langt á síðustu 100 árum, við höfum gjörbylt lífskjörum íslensks almennings. En í skýrslunni er verið að benda á að við getum gert betur. Við getum bæði nýtt fólkið okkar betur þannig að það þurfi ekki að vinna jafnlangan vinnutíma og það vinnur í dag og geti fengið mannsæmandi laun fyrir 8 klukkustunda vinnu á dag. Það gerum við með því að auka framleiðnina í hverju starfi fyrir sig og huga að því hvernig við nýtum fjármagnið okkar. Þetta verðum við að leggja áherslu á þegar við nálgumst hlutina út frá hugmyndafræðinni: Vinna, vöxtur, velferð. Byrjum á vinnunni, búum til vöxtinn og þannig fjármögnum við velferðina.

Það er mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvernig við getum betur komist til móts við kjarnafjölskylduna, barnafjölskyldurnar. Allar rannsóknir á vegum stjórnvalda hafa sýnt fram á að þær fjölskyldur eiga í hvað mestum erfiðleikum í íslensku samfélagi. Þar þarf að íhuga þætti eins og þá hvort hægt sé að veita skattaívilnanir út af leikskólagjöldum, hvernig við getum tryggt fólki ódýrara húsnæði, hvernig við getum tryggt fólki lægri vexti, það skiptir máli fyrir okkur öll. Þá erum við að vissu leyti komin að því sem við höfum rætt hér varðandi áhyggjur okkar allra af Íbúðalánasjóði en við erum í raun ekki að taka á vandanum sjálfum, hvernig við ætlum að leysa úr þessari skekkju, þessum halla í fjármögnun sjóðsins.

Ég vil hins vegar nefna eina hugmynd — kannski hv. formaður fjárlaganefndar gæti svarað því líka, hann hefur verið hér í salnum. Ég velti því fyrir mér hvort eitthvað hafi verið rætt um möguleikann á því að Íbúðalánasjóður fari út á markað og nýti það fjármagn sem hann hefur og kaupi upp sín eigin bréf. Ég hef verulegar efasemdir — og tel að lífeyrissjóðirnir mundu mótmæla því mjög harðlega ef miðað er við hvernig þeir hafa hingað til staðið vörð um eignarrétt sjóðfélaga — um að mögulegt sé að breyta skilmálum afturvirkt á þeim skuldabréfum sem eru til staðar. En ég get ekki séð að neitt komi í veg fyrir að Íbúðalánasjóður nýti þá tugi milljarða sem nú liggja kyrrir og vinna enga vinnu til að kaupa upp sín eigin bréf á markaði. Ef formaður fjárlaganefndar getur ekki svarað þessu er mikilvægt að fjárlaganefnd velti þessu alla vega upp. Ég velti því fyrir mér hvort Íbúðalánasjóður geti nýtt þá fjármuni sem hann situr uppi með til þess að kaupa upp sín eigin bréf í staðinn fyrir að ríkissjóður sé að taka enn frekari vexti. Það er eitt dæmi. Við þurfum síðan virkilega að fara í endurskoðun á því hvernig við ætlum að reka íbúðalánakerfið okkar til framtíðar.

Þar sem búið er að setja mjög skýrar takmarkanir af hendi ESA um það hvað Íbúðalánasjóður getur gert er hugsanlegt að í framtíðinni sæjum við frekar að ríkisvaldið mundi veita ríkisábyrgðir til þeirra sem kaupa húsnæði í fyrsta skipti frekar en að lána því fólki. Það setur almennan ramma varðandi þau fjármálafyrirtæki sem hafa í hyggju að lána til húsnæðiskaupa og undir það ættu lífeyrissjóðirnir að sjálfsögðu að falla þannig að skýrt væri hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til að lána fólki. Veita ætti sambærilegar ábyrgðir gagnvart uppbyggingu á félagslegu húsnæði, hvort sem er til eignar eða leigu- eða búseturéttar.

Þetta voru þau helstu atriði sem ég vildi nefna hér og þá fyrst og fremst mikilvægi þess að nálgast hlutina rétt þegar kemur að fjárlögunum. Þar eru þau þrjú orð sem ég nefndi grundvallaratriði: Vinna, vöxtur, velferð. Byrjum á vinnunni, búum til vöxtinn. Ég held við getum síðan öll verið sammála um hvernig við ráðstöfum peningunum í velferðina.