141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar samstöðuna þá vitum við öll að ef reynt er að ná einhvers konar samstöðu og báðir aðilar finna fyrir vilja til þess er yfirleitt auðveldara að leysa verkefnið í framhaldinu. Það tekur oft lengri tíma. Það þýðir að við þurfum að setjast niður, tala saman og gera málamiðlanir, allir þurfa að gera málamiðlanir. En það þýðir líka að þá verður miklu auðveldara í framhaldinu að innleiða og gera það sem við ætlum okkur að gera.

Það er verulegt áhyggjuefni að mínu mati hvað óánægjan er mikil, ekki bara hjá aðilum atvinnulífsins heldur öllum aðilum vinnumarkaðarins, hvað þeir eru orðnir ósáttir við ríkisstjórnina og hafa gagnrýnt hana mjög harkalega, sérstaklega að undanförnu og jafnvel hótað málsóknum.

Ég ætla að snúa þessu við og spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér. Það eru mér alltaf ákveðin vonbrigði þegar ég heyri fólk tala eins og við séum búin að fullnýta til dæmis grundvallaratvinnugrein okkar sem er sjávarútvegurinn. Við höfum staðið hér dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman og tekist á um kerfið sjálft, fiskveiðistjórnarkerfið, en ég hef saknað þess að ekki skuli hafa verið meiri umræður um tillögur eins og koma fram í svokallaðri McKinsey-skýrslu, sem ég nefndi hér áðan, um hvernig við getum aukið enn frekar verðmætasköpunina í greininni. Eitt dæmið sem nefnt er er að markaðssetja betur afurðir okkar þannig að við búum til ákveðið vörumerki og fáum þar með hærri verð. Við fáum góð verð fyrir vörurnar okkar, þær þykja vera mjög góðar, en við gætum hugsanlega gengið enn lengra með því að búa til og markaðssetja þær undir ákveðnum vörumerkjum. Ég tel líka að tækifæri til að nýta auðlindina enn betur séu mikil og þá komum við nákvæmlega að því sem hv. þingmaður nefndi varðandi menntunina, hvað hún skiptir miklu máli. Þegar búa á til úrvalsvöru þarf að sjálfsögðu að hafa mjög vel menntað starfsfólk til að gera það.