141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er algerlega sammála henni um að við höfum fullt af sóknarfærum í því að nýta afurðirnar betur, sérstaklega þau sem snúa að markaðsátaki í sambandi við sjávarútveginn. Við höfum náð gríðarlegum árangri á örfáum árum í sambandi við nýtinguna, hvernig við vinnum úr aukaafurðum og öðru sem var hent áður og skapar núna milljarðatekjur í þjóðarbúið.

Það er nefnilega út af þessu stríði sem stjórnvöld hafa verið í við sjávarútveginn, alveg sama hvaða skoðun við höfum á kerfinu sem slíku, að þrótturinn til að fara í frekari markaðssetningu hefur verið dreginn úr fyrirtækjunum. Í Noregi nota menn til að mynda ákveðna prósentu af veltu sjávarútvegsins í markaðsátak. Það er mjög mikilvægt að við nýtum þá möguleika sem þar eru, en við gerum það auðvitað ekki með þeim skilaboðum frá stjórnvöldum að vera alltaf í stríði við greinina. Það væri nær að stjórnvöld og greinin ynnu saman að því að markaðssetja vöruna því að þannig sköpum við auðvitað meiri tekjur. Ég var algerlega sammála hv. þingmanni um það.