141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að ein helstu rökin fyrir því að ekki sé hægt að innleiða valfrjálst tilvísanakerfi hafa einmitt verið skortur á heimilislæknum og það hversu gamlir þeir eru orðnir. Það má alveg taka undir að allt of seint var brugðist við því og byrjað að hvetja nemendur til að fara í heimilislækningar. Ég hef líka bent á að við megum heldur ekki festa okkur of mikið í formsatriði og segja að þetta sé tómt vandamál og taki allt of langan tíma og þess vegna getum við ekki skoðað þetta fyrr en í fyrsta lagi eftir 10–20 ár þegar við erum búin að mennta alla þessa heimilislækna. Þetta vandamál er ekki bara viðvarandi á Íslandi heldur líka í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem ég hef verið að kynna mér það.

Dæmi um það sem væri hægt að gera fyrir utan það sem hæstv. velferðarráðherra hefur þó verið að gera, sem er einmitt að fjölga námstöðum fyrir heimilislækna, væri að taka út aldursmörkin sem var verið að setja í lög varðandi heilbrigðisstarfsmenn. Það hafa Svíar gert. Í Svíþjóð er ekki lengur reynt að þvinga lækna sem eru hraustir og hafa fulla starfsgetu til að hætta.

Ég lagði fram breytingartillögu við lög um heilbrigðisstarfsmenn þess efnis að eftir ákveðinn aldur gætu þeir fengið framlengingu á starfsleyfinu í eitt ár í senn og þá yrði metið upp á nýtt hversu góða heilsu viðkomandi hefði til að sinna starfinu.

Teymisvinna er annað. Við eigum ekki að vera svona föst í því að það séu bara læknar sem geti sinnt þessari vinnu en ekki aðrir. Nýleg rannsókn sýndi fram á að þriðjungur þeirra sem leita til heilsugæslustöðva gera það vegna undirliggjandi andlegrar vanlíðanar. Sálfræðingar gætu til dæmis komið til móts við og þjónustað þá sjúklinga. Ég hef líka bent á hjúkrunarfræðinga, að þeim væri að einhverju leyti hægt að fela fleiri verkefni sem læknar sinna nú.