141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er stór spurning. Hvar má finna ástæðu þess að við erum með svona mikið brottfall úr framhaldsskólum? Ég held að svarið við mörgum þeim spurningum sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi sé já. Þetta er margþætt. Eitt af því sem maður hefði gjarnan viljað sjá, jafnvel í fjárfestingaráætluninni, væri verkefni eða úrræði tengd því hvernig ætti til dæmis að taka á viðhorfum samfélagsins til menntunar.

Ég las í morgun lítið viðtal, mjög sætt, við unga 23 ára konu sem var að hefja störf á Fiskmarkaðnum hér í bænum sem matreiðslunemi. Hún sagði að þegar hún var 16 ára hefði það verið hennar helsta áhugamál og ástríða að læra að elda mat, hún lá í matreiðslubókum uppi í rúmi og þegar hún varð 16 ára og búin í grunnskóla vildi hún fara í þetta nám, en foreldrar hennar lögðust gegn því og hvöttu hana til að fara í bóknám í framhaldsskóla sem hún kláraði síðan ekki og er núna að gera það sem hana hefur alltaf dreymt um. Ég hef heyrt fleiri svona sögur þar sem þeir sem hafa námsgetu eiga að fara í bóknám.

Síðan erum við með rannsóknir sem benda til þess að drengjum líði verr í grunnskólum en stúlkum. Það kemur skýrt fram að vanlíðan þeirra er meiri. Þar af leiðandi er námsleiði þeirra orðinn mun meiri þegar kemur upp í framhaldsskóla. Þar getur eitthvað ákveðið tengst kerfinu. Ég átti nýlega mjög gott spjall við einn af stjórnendum sveitarfélags í Suðvesturkjördæmi þar sem hann benti einmitt á að kannski kæmi vandinn upp í framhaldsskóla en lausnina væri að einhverju leyti að finna í þeim strúktúr eða því fyrirkomulagi sem við erum með í grunnskólanum og jafnvel í leikskólanum og þá þyrfti náttúrlega að taka á því. En þetta er vandinn sem við verðum að taka á.