141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðallega að velta upp einu atriði sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og það eru þær vísbendingar sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu um tekjuöflunaraðgerðir. Meðal annars er talað um arð af raforkugeiranum og lagt til að Rarik og Orkubú Vestfjarða, og reyndar Landsvirkjun líka, greiði ákveðinn arð til ríkisins.

Hv. þingmaður nefndi áðan að ákveðnar aðgerðir sem ríkisstjórnin virðist ætla að grípa til muni leiða sjálfkrafa til aukinnar verðbólgu og þar með hækkunar á lánum okkar sem skuldum verðtryggð húsnæðislán. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn — ég ætlaði að segja „blessaða“ en hætti við — grípur til slíkra aðgerða sem hafa þannig bein áhrif á kjör landsmanna.

Er það ekki einfaldlega þannig að ef þessi fyrirtæki eiga að standa undir því að greiða þann arð sem þeim er gert að greiða verða þau annaðhvort að hagræða með einhverjum hætti, sem mun þá væntanlega leiða til uppsagna á starfsfólki eða eitthvað slíkt, eða að hækka gjaldskrá sína, sem mun fara beint út í verðlagið og bitna á notendum vegna þess að kostnaður heimilanna við orkukaup eykst?

Ég vek athygli á því að þetta á sérstaklega við viðskiptavini þessara tveggja fyrirtækja ef þetta nær fram að ganga og ef ég skil þetta rétt. Þar af leiðandi má fullyrða að með þessu séu ríkisstjórnarflokkarnir að leggja til ákveðna aukna skattheimtu á hluta landsmanna með því að gera kröfu um arð á þessi tvö fyrirtæki, Rarik og Orkubú Vestfjarða.