141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta minnir mig á hund sem eltir skottið sitt. Hér er gefin út reglugerð sem verður til þess að Landsnet þarf að hækka gjaldskrá sína, það verður til þess að fyrirtækin þurfa að kaupa raforkuna á dýrara verði sem verður til þess að þau verða að setja hækkunina út í verðlagið, þannig eru heimilin skattlögð meira. Af hverju er þetta gert? Ég heyrði í forstjóra Landsnets í gær og þetta var gert til að auka eigið fé Landsnets. Það er, eftir því sem mér best skilst, í kringum 10 milljarðar í dag og á að auka það til að geta mætt fyrirhuguðum framkvæmdum á næstu árum. Á sama tíma ætlar ríkisstjórnin svo að taka út úr þessum ríkisfyrirtækjum meiri arð með hinni hendinni. Þetta er hundurinn sem alltaf eltir skottið á sér. Það á að taka meiri arð út úr þessum sömu fyrirtækjum og er verið að auka eigið fé og bæta stöðuna hjá með því að skattleggja og hækka gjöldin á íbúana. Þetta gengur einfaldlega ekki upp.

Ég sagði áðan í fyrri ræðu minni að þetta hljómar mjög 2007 þegar verið var að belgja út efnahagsreikninga og reikninga fyrirtækja fyrir hrun og taka út úr þeim mikinn arð þannig að á endanum stóð skelin ein og svo hrundi náttúrlega skelin og ekkert innvols var eftir. Mér finnst ríkisstjórnin vera í nákvæmlega sama fari.