141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að lenskan virðist vera sú að fara í tekjuöflun sem lendir með einum eða öðrum hætti á almenningi. Þó að tekjuöflunarfrumvörpin séu ekki til umræðu hér vil ég nefna að það er sérstaklega augljóst á þeim hvað á að gera.

Ég hef reynt að spyrja þá örfáu stjórnarþingmenn sem hér hafa talað og ég hef náð að komast í tæri við um eitt atriði í fjárlagafrumvarpinu og það er að Seðlabanki Íslands á að greiða arð til ríkisins upp á 2,6 milljarða. Það kann að vera ósanngjarnt að spyrja hv. þingmann þessarar spurningar en þar sem mér gengur illa að fá svör hjá þingmönnum stjórnarflokkanna vil ég grennslast fyrir um það hjá hv. þingmanni hvort hún geti upplýst mig um það hvernig þessi hagnaður verði til hjá Seðlabankanum. Hvar fær Seðlabankinn þann hagnað sem á að greiða til ríkisins?

Ég hygg að svarleysið fram að þessu stafi af því að hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki hugmynd um það hvernig Seðlabankinn græjar þessa 2,6 milljarða, en það er forvitnilegt að heyra ef einhverjir aðrir eru betur að sér í því. Þetta var um arð frá Seðlabankanum.

Annað er að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er gert að greiða 1,2 milljarða í arð. Hvernig mun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ná slíkum arði? Væntanlega með því að hækka álögur á áfengi og tóbak og kannski sérstaklega neftóbak. Maður veltir fyrir sér hvaða afleiðingar það hefur á lán landsmanna því að eins og vísitalan er nú skynsamlega byggð upp, eða þannig, hefur hækkun á tóbaki áhrif til hækkunar húsnæðislána.