141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð spurning hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. (PHB: Stutt var hún.) Hún var stutt og hnitmiðuð.

Ég var að lýsa því sem ég tel vera mikilvægustu verkefnin fram undan. Mikilvægustu verkefnin eru að gera allt sem við getum til að stuðla að afnámi haftanna og til að ná tökum á verðbólguþróuninni. Ég minni á yfirlýsingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og spár hans um verðbólguþróunina sem eru svartsýnni heldur en til dæmis spá Seðlabankans. Ég hlýt líka að spyrja að því hversu vel frumvarpið sé til þess fallið að auka líkur á að hér náist kjarasamningar o.s.frv. Ég fór yfir það í ræðu minni.

Hvað varðar hina ljósu þætti sem hv. þingmaður spyr um er það þannig að ég hef hlýtt á ræður stjórnarliðanna. Þeir hafa auðvitað dregið upp allt aðra mynd en þá sem ég hef dregið upp hér. Þeir eru þeirrar skoðunar að það hafi náðst gríðarlegur árangur. Það blasir við að skuldirnar eru enn að aukast og þær forsendur sem menn gefa sér fyrir því að það muni draga úr þeim tel ég hæpnar. Þær efnahagslegu forsendur sem menn gefa sér fyrir því að skuldirnar fari niður á næstu árum tel hæpnar. Það að leggja fram fjárlagafrumvarp eins og hér er gert tel ég að hafi dregið úr líkunum á því að við náum árangri í þá átt að draga úr skuldsetningu ríkissjóðsins. Það hefði þurft breytingar á því í allt aðra átt en þær sem gerðar voru á milli 1. og 2. umr. Ég bendi til dæmis á, virðulegi forseti, að það að ekki eigi að taka tillit til athugasemda (Forseti hringir.) sem Samtök atvinnulífsins hafa komið fram með um skattstefnuna hlýtur auðvitað að vekja mönnum áhyggjur.