141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér það sem alla jafna er kallað aðalmál eða stærsta mál hvers þings, þ.e. fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þannig að enginn velkist í vafa um að stjórnarandstaðan eða einhverjir aðrir standa ekki að baki þessu þingmáli, ekki enn sem komið er alla vega. Umræðan fram að þessu hefur verið mjög góð að mínu viti. Þingmenn eru búnir að fara í gegnum einstaka liði frumvarpsins, eðlilega, og gagnrýna sumt en verja annað. Eins og venjulega þegar kemur að fjárlagafrumvarpi sýnist sitt hverjum um gæði frumvarpsins.

Það er mjög eðlilegt að umræða um þetta frumvarp sé ítarleg þar sem þetta er vonandi síðasta fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar. Þetta er fjárlagafrumvarp fyrir kosningar og ber þess klárlega merki að vera slíkt. Því er ekki óeðlilegt að tekinn sé sá tími sem gefinn er í þingsköpum til að ræða málið.

Ég sakna þess svolítið, frú forseti, að heyra ekki fleiri þingmenn taka til máls enn sem komið er, vitanlega er enn hægt að setja sig á mælendaskrá til að fjalla um þetta stóra og veigamikla mál. Það hefði verið gott að geta spurt þingmenn, sérstaklega þingmenn stjórnarflokkanna sem koma væntanlega til með að styðja málið, út í margt í frumvarpinu eins og mál sem snerta ýmsa þætti samfélagsins. Ljóst er að leita þarf svara við ýmsu.

Áður en lengra er haldið ætla ég að velta hér upp einu sem ég hef furðað mig á frá því að ég settist á þing 2009, en það er af hverju Alþingi tekur við ramma frá framkvæmdarvaldinu þegar komið er að fjárlagagerðinni. Ég tel að Alþingi eigi sjálft að setja sér ramma frá upphafi til enda, en ekki að taka við skipunum eða skilaboðum frá framkvæmdarvaldinu. Eðlilega þarf Alþingi að taka mið af því umhverfi sem notað er við gerð fjárlaga og allt það, en ég held að mikilvægt sé að þingið vinni mál frá grunni til að tryggja sjálfstæði og stöðu þingsins. Mér hefur fundist við þingmenn og þeir sem stjórna þinginu, þar fer að sjálfsögðu forseti fremstur í flokki og aðrir forsetar í forsætisnefnd, eyða of miklu púðri í að verja sjálfstæði Alþingis þegar kemur að framkvæmdarvaldinu. Við þingmenn hljótum því að gera allt sem við getum til að auka sjálfstæði og veg og virðingu Alþingis. Það gerum við ekki síst með því að tryggja að Alþingi fái þá fjármuni sem þarf til að starfa eðlilega. Það er óeðlilegt að Alþingi skuli vera skammtað fé úr hendi framkvæmdarvaldsins. Nóg um þetta.

Það hefur komið fram í þingræðum, m.a. hjá fulltrúum stjórnarflokkanna, að niðurskurðarstefnu sé lokið, nú þurfi ekki meira að skera niður, búið sé að skera niður allt sem þarf og allt sem hægt er að skera niður, ekki verði meira gert af því. Ég get tekið undir það að víða er búið að skera inn að beini. Eftir liggja mögulega heilbrigðisstofnanir sem vart eru starfandi vegna niðurskurðar og þeirra krafna sem hafa verið gerðar. Auðvitað verður ekki meira skorið niður á slíkum stöðum. Þarf í rauninni að velta því upp hvernig menn fara að því að tryggja áfram þá þjónustu sem þar er veitt. Annars staðar hefur verið bætt í. Mér sýnist að áfram eigi að bæta í á sumum stöðum. Mér sýnist til dæmis að stofnanir eins og Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og fleiri fái enn og aftur aukið fé sem þær hafa fengið mjög oft eða nánast öll undanfarin ár ríkisstjórnarinnar. Eflaust kunna að vera ákveðnar skýringar á þeirri fjárþörf vegna áherslna ríkisstjórnarinnar, en ég vil vekja athygli á því að þarna hafa fjármunir aukist mjög að mér sýnist.

Þá vaknar spurningin: Er hægt að hagræða? Einn hv. þingmaður stjórnarflokkanna nefndi það hér í dag eða í gær, man ekki hvort það var, að víða væri hægt að hagræða þó að ekki væri hægt að skera meira niður. Ég hugsa að ég geti tekið undir það með þeim hv. þingmanni að hagræðing hlýtur að þurfa að eiga sér stað ef ekki er hægt að skera meira niður. Fáar hugmyndir virðast vera uppi hjá þingmönnum stjórnarflokkanna, ekki kemur fram í þessu frumvarpi í það minnsta eða breytingartillögum hvernig hægt er að auka tekjur ríkissjóðs til að standa undir öllum þeim væntingum sem gefnar eru í frumvarpinu og í ræðum stjórnarþingmanna. Hvernig er hægt að standa undir þeim væntingum þegar skuldir aukast, vaxtakostnaður eykst, en tekjurnar eru ekki í sama hlutfalli? Þar af leiðandi finnst mér þetta ekki ganga upp hjá þeim þingmönnum sem segja að niðurskurðarstefnunni sé lokið og eingöngu sé hagræðing eftir ef ekki er komið með haldbærar hugmyndir um það hvernig á að bæta við tekjum.

Enn og aftur sýnist mér að í þessu frumvarpi sé leitað leiða við að fresta vandanum, ýta vandanum á undan þannig að ekki þurfi að taka á honum núna. Það er engum greiði gerður með því. Í rauninni er það skiljanlegt því að ég tel að fjögur ár hafi farið til spillis í því að koma hér af stað kröftugu og öflugu atvinnulífi á ný. Þegar verið var að huga að því hvernig við gætum endurreist efnahagslíf okkar var farið í hugmyndafræðilegar breytingar sem komu að mínu viti í veg fyrir að hægt væri að spýta í. Í stað þess að nota tækifærið, eins og oft hefur verið nefnt í þessum ræðustól, þegar þurfti að létta á skuldum og afskrifa og láta einfaldlega erlenda kröfuhafa, sem vissulega tóku verulega mikið á sig, taka meira á sig því að það voru þeir sem lánuðu hingað til verkefna, lánuðu til framkvæmda eða fjárfestinga sem engin glóra var í. Hvers vegna eiga þeir ekki að taka enn meira á sig við enn meira tap? Þetta var því miður ekki gert, ríkisstjórnin ákvað að fara aðrar leiðir, og þar af leiðandi erum við langt á eftir í endurreisninni en við hefðum þurft að vera.

Mér fannst svolítið sérstakt að heyra forustumenn ríkisstjórnarinnar lýsa því yfir fyrir nokkru að kreppunni væri lokið. Ég er ekki viss um að allir finni það á eigin skinni að kreppunni sé lokið enda sagði einn þingmaður stjórnarflokkanna í viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu að kreppunni væri alls ekkert lokið, það hlytu allir að sjá. Nú veltir maður fyrir sér hvort þessir ágætu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna og þingmenn séu á sömu blaðsíðunni þegar kemur að því að meta hvort bjart sé fram undan eður ei.

Hér hefur verið gagnrýnt, og ég tek undir það, að miklu sé lofað og jafnvel því sem maður hefði haldið að ætti að bíða vegna þess að ekki væri æskilegt að fara af stað með verkefni sem eru fyrst og fremst ávísun á kostnað en ekki tekjur. Ég hef verulegar áhyggjur af því að lenskan í þessu frumvarpi virðist vera að auka útgjöld í staðinn fyrir að leita leiða til að auka tekjur. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé ábyrgt að setja fram slíkar væntingar þegar við sjáum að það eru blikur á lofti varðandi helstu útflutningsgreinar okkar og tekjur af þeim. Það var reyndar jákvætt að sjá í fréttum að álverð fer aftur hækkandi. Við munum vonandi áfram fá þann fjölda af ferðamönnum sem við höfum fengið, en það er alls ekki víst því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja hærri álögur á þá atvinnugrein og að auki er víða kreppa úti í heimi sem hefur að sjálfsögðu áhrif á getu íbúa þar til að ferðast og eyða fjármunum sínum í ferðalög og þjónustu á Íslandi sem og annars staðar. Nægir þar að nefna Evrópu sem er í gríðarlegum vandræðum og virðist ekki unnt að ná nokkrum tökum á þeim vanda sem herjar á lönd Evrópusambandsins. Ég fer nánar yfir það á eftir. Ég átti eftir að nefna sjávarútveginn, okkar helstu útflutningsgrein, okkar helstu atvinnugrein. Í sjávarútvegi starfa tugþúsundir manna þegar litið er til allra hliðargreina og afleiddra starfa af sjávarútveginum í litlum og stórum fyrirtækjum. Samdráttur í útflutningi og á söluafurðum í sjávarútvegi mun hafa áhrif á öll þessi fyrirtæki þegar upp er staðið.

Við fáum nú fregnir af því að mikill þrýstingur sé á að lækka verð á íslenskum afurðum á mörkuðum erlendis á sama tíma og helstu samkeppnisþjóðir okkar, Norðmenn og Rússar, eru að auka veiðar sínar og framleiðslu í skjóli ríkisstuðnings sem ekki er á íslenskum sjávarútvegi. Stundum virðist það vera vilji núverandi stjórnvalda að ýta sjávarútveginum í það horf að þurfa að fá ríkisstyrki. Þá veltir maður fyrir sér hvort mundi ekki heyrast einhvers staðar hljóð úr horni ef við þyrftum að setja milljarða á milljarða ofan í íslenskan sjávarútveg í formi styrkja. Því er jafnvel spáð að lækkunarkrafan á afurðum á gömlum rótgrónum mörkuðum okkar á Spáni, Portúgal, Grikklandi og víðar geti numið allt að 25–30% og þá sjá allir að það mun síga verulega í. Framlegð þeirra fyrirtækja sem selja sjávarafurðir mun minnka og væntanlega hafa þau áhrif að leita þarf hagræðingar sem gæti leitt til samþjöppunar, nokkuð sem við viljum forðast. Á sama tíma ákveður ríkisstjórn landsins og stjórnarflokkarnir að leggja stórauknar álögur á þessa atvinnugrein, þegar öllum er ljóst að meginþorri þeirra sem starfa í greininni getur illa eða ekki staðið undir álögunum, ekki síst vegna þeirra atriða sem ég nefndi varðandi erfiða stöðu á mörkuðum.

Það eru til fyrirtæki sem geta staðið undir mjög hárri skattlagningu eins og hér verður farið af stað með af hálfu ríkisstjórnarinnar, en þau eru mjög fá. Það er spurning hvert þau munu leita með starfsemi sína og rekstur. Það breytir því ekki hvort fyrirtæki eru stór og skuldlétt eða lítil og skuldsett eða öfugt að eðli hvers rekstrar er að reyna að hámarka afraksturinn. Sem betur fer eru nokkur fyrirtæki sem ganga ágætlega, vitanlega þarf það að vera þannig.

Ég hef líka áhyggjur af því að þær auknu álögur sem eru lagðar á atvinnulífið og koma berlega í ljós í því frumvarpi sem við fjöllum um og að sjálfsögðu í tekjufrumvörpunum muni áfram leiða til samdráttar, ekki vaxtar, þar sem við þurfum svo á fjárfestingum að halda í atvinnulífinu. Við vitum að mörg flottustu nýsköpunarfyrirtæki okkar og þau fyrirtæki þar sem hugmyndaauðgi ræður ríkjum eru sprottin upp úr helstu atvinnugreinum okkar, sjávarútvegi og iðnaði. Nægir þar að nefna fyrirtæki eins og Marel og fleiri sem hafa unnið mjög vel með þeim atvinnugreinum.

Ég nefndi hér áðan að mér fyndust undarlegar þær ákvarðanir eða tillögur sem lagðar eru hér fram í ljósi aðstæðna. Það sjá allir að blikur eru á lofti í atvinnulífinu og tekjuöflun okkar. Þegar ég les fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem fylgir með þessu fjárlagafrumvarpi og sé í hvað á að setja fjármunina verð ég að játa það, frú forseti, að ég skil ekki alveg að áherslan skuli vera á ákveðna hluti í áætluninni í ljósi aðstæðna. Þar með er ég ekki að segja að þessi verkefni séu slæm eða eigi ekki rétt á sér. Það er hins vegar miklu mikilvægara að nota þá milljarða sem eiga að fara í þessi verkefni til að efla enn frekar og fjölga störfum eða greiða niður skuldir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ef við getum fjölgað þeim sem borga skatta hraðar en við aukum útgjöldin muni það á endanum skila sér með góðum hætti.

Ég ætla, frú forseti, að telja upp það sem ég held að geti verið jákvætt í þessum fjárfestingaráætlunum, byrja á einhverju jákvæðu. Öryggisfangelsi á Hólmsheiði mun að sjálfsögðu skapa störf meðan verið er að byggja fangelsið og létta á lista þeirra sem bíða eftir að fá að afplána. Auðvitað eru það í rauninni mannréttindi þeirra sem hafa fengið dóm að geta afplánað hann og snúið sér síðan að betra lífi, vonandi. Af hverju þarf að byggja hús íslenskra fræða? Ég geri ekki lítið úr þörf á því en ég held að það sé ekki hægt núna. Mér finnst gott að settir verði meiri fjármunir í kvikmyndagerð. Það skilar okkur umtalsverðum fjármunum í landkynningu og hreinlega beinum sköttum af öllum þeim flottu verkefnum sem er verið að vinna hér á landi, auk þess að vera gríðarlega mikilvægt fyrir okkur menningarlega. Ég get haldið áfram. Ég skil ekki hvað grænkun íslenskra fyrirtækja á að gera fyrir okkur á þessum tímapunkti eða að netríkið Ísland skuli vera svona mikilvægt akkúrat núna. Svo eru einhver græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana. Hér er einnig talað um hönnunarsjóð og myndlistarsjóð. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að styrkja menningu okkar, en er þetta það sem við þurfum að gera núna? Eigum við að eyða peningum í þetta núna? Ég held ekki. Annað er að mörg þessara verkefna kalla á frekari útgjöld. Ég held að þegar upp er staðið verði í rauninni ekkert hægt að fara í mörg þessara verkefna því að þær tekjur sem eru áætlaðar í þau muni ekki skila sér á endanum. Svo að ég nefni aftur veiðigjaldið þá mun aldrei verða hægt að innheimta það eins og ríkisstjórnin ætlar sér vegna þeirrar stöðu sem sjávarútvegurinn er að lenda í. Mér finnst þessi fjárfestingaráætlun ósköp ómerkilegt plagg.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er lagt til að ákveðnar ríkisstofnanir skili arði til ríkissjóðs. Ég er mjög hugsi yfir því að hægt sé að fara í svona hókus pókus-æfingar milli umræðna og segja bara: Við skulum láta Landsbankann greiða okkur 9,6 milljarða í arð og við skulum taka 2,6 milljarða úr Seðlabankanum í arð. Ég hef ekki enn fengið svar við því hvernig og hvaðan sá arður kemur. Líklega er það bara einhver meinloka í mér en ég hef ekki fengið svör við því hvernig sá arður á að verða til.

Ég hef áhyggjur af því að Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins eigi að skila samtals 370 millj. kr. arði til ríkisins. Eins og ég kann á þessa rafmagnsreikninga alla saman verður það notandinn sem borgar þennan arð á endanum. Ég fæ dæmið ekki til að ganga upp öðruvísi. Ég ímynda mér í það minnsta að ekki verði hægt að ná þessum arði með hagræðingu eða breytingum innan þessara fyrirtækja, þannig að á endanum munu notendur orkunnar frá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins greiða arðinn. Að vísu held ég að ég fari með rétt mál þegar ég segi að Orkubú Vestfjarða standi býsna vel. Það kann að vera að það geti greitt þennan arð, en mér hefur sýnst undanfarin ár að í því fyrirtæki eins og öðrum sé frekar vilji til að velta kostnaði yfir á þá sem nota orkuna. Þetta eru fyrst og fremst álögur sem á að leggja á landsbyggðina sem notar orku frá þessum fyrirtækjum. Enn og aftur ætlar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að leggja sérstakar álögur á landsbyggðina.

Veiðigjaldið, sem við nefnum annað slagið, er að sjálfsögðu fyrst og fremst landsbyggðarskattur þó að það komi vissulega hart niður á höfuðborgarsvæðinu líka. Það er fyrst og fremst landsbyggðarskattur þar sem 80–90% af öllum aflaheimildum eru úti á landi og mörg fyrirtæki munu illa eða ekki geta staðið undir þeim greiðslum. Við sjáum svo sem í fréttum að það er þegar byrjað að hafa áhrif.

Hér er sem sagt um að ræða að þessi fyrirtæki eiga að greiða arð sem mun á endanum koma frá íbúum úti á landi. Það er ágætt að viðhorf Samfylkingar og Vinstri grænna til landsbyggðarinnar komi skýrt fram.

Það er mjög freistandi, frú forseti, að tengja hér við þau frumvörp sem nú er búið að leggja fram á þinginu um tekjuöflun vegna þess að í þeim er að finna enn meiri álögur sem munu á endanum eins og margt annað lenda í vísitölunni og hækka lánin okkar og gera okkur erfiðara fyrir að standa í skilum og þrengja að heimilunum. Það er svo sem ekki nýtt frá þessari ríkisstjórn að ráðast í slíkar aðgerðir.

Ég ritaði á blað hjá mér minnispunkta upp úr fjárlagafrumvarpinu og þessum ágætu nefndarálitum til að tala um hér. Þar hef ég skrifað að tekjuhliðina vanti. Nú er tekjuhliðin komin fram, þ.e. hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að afla tekna. Það er eiginlega hægt að segja í einu orði: Skattahækkanir. Það á að hækka skatta, hækka skatta og hækka skatta. Það er það sem mönnum dettur í hug, ekkert annað virðist vera hægt að gera.

Annað sem er athyglisvert og hefur loðað við þessa vinstri stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar er að standa ekki við þá samninga sem gerðir eru. Ég nefni eitt sem kemur fram í einu nefndarálitinu, það er að áfram eigi að innheimta skatt á raforku til stóriðjunnar, eða álfyrirtækjanna, sem var lofað að mundi falla niður. Maður veltir fyrir sér hvers konar ráðstafanir það eru að standa ekki við gefin orð eða gerða samninga. Það er umhugsunarefni og bætir að sjálfsögðu ekki ímynd Íslands út á við eða eykur líkur á að þeir sem geta fjárfest vilji gera það hér á landi, því miður. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að orðspor okkar sé skaðað út af óvissu sem stafar af ríkisvaldinu. Mér finnst nánast liggja fyrir, eftir að þetta frumvarp var lagt fram, að verið sé að auka óvissuna.

Annað sem mér sýnist ekki vera tekið á og er svo sem ekkert nýtt er uppsafnaður vandi hjá fjölmörgum stofnunum. Hjá mörgum þessara stofnana er búið að viðurkenna vandann og þann grunn sem þær þurfa. Það er því óheppilegt að velta því alltaf á undan sér að taka á því. Ég ætla að leyfa mér að nefna Háskólann á Hólum sem er fyrir löngu búinn að fá staðfest hversu mikið fé skólinn þarf til rekstrar miðað við þær greinar sem skólinn er með í dag. Það er vitanlega hægt að draga saman og kenna bara eitt fag eða eitthvað slíkt, en það er held ég ekki vel gert ef við förum þá leið. Þessu ýtir ríkisstjórnin enn og aftur á undan sér. Það kemur í hlut einhverra í framtíðinni að taka á því. Þetta mun á endanum koma okkur í koll.

Enn eitt sem ég vil nefna sem mér sýnist ekki heldur hafa verið tekið á — ég tek það aftur fram að það er ekkert nýtt í sjálfu sér — eru hinar háu lífeyrisskuldbindingar sem hvíla á ríkissjóði. Í nefndaráliti 2. minni hluta, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, er farið vítt og breitt yfir þessi mál. Það kemur svo sem fram í nefndaráliti 1. minni hluta líka að farið hefur verið í gegnum þetta frá A til Ö.

Eitt sem vekur athygli mína er að þetta fjárlagafrumvarp virðist ekki frekar en önnur hafa verið metið út frá þeim áhrifum sem það hefur á byggðir landsins, það er ekki búið að meta það út frá byggðasjónarmiðum. Það er svolítið undarlegt að vera með byggðaáætlun, áætlun 20:20 eða hvað allt þetta heitir, með fínum og fallegum fyrirheitum ef þau passa svo ekki við fjárlagafrumvarpið og þær heimildir sem eru gefnar til næstu 12 mánaða. Þetta hefur verið gagnrýnt og tek ég undir það. Ég hef grun um að frumvarpið hefði ekki fengið góða einkunn, hefði þetta verið gert, þegar horft væri á áhrif þess á landsbyggðina. Nægir þar að nefna það sem ég nefndi áðan varðandi raforkumálin.

Að vísu er í breytingartillögum stjórnarmeirihlutans lagt til, að mig minnir, 175 millj. kr. í auknar niðurgreiðslur húshitunar. Þegar þörfin er 0,5 milljarðar, að mig minnir, í þann flokk sem talað var um þá er þetta bara dropi í hafið. Það er samt allt í lagi að þakka fyrir jákvætt viðhorf.

Okkur sýnist að reiknað sé með stóriðjuframkvæmdum sem eigi að skapa ákveðnar tekjur, en erum við ekki búin að hlusta á það allt þetta kjörtímabil að þær séu alveg að fara af stað, hvort sem það eru framkvæmdir á Bakka eða einhvers staðar annars staðar? Það hefur eiginlega verið í tísku hér að segja að þetta sé alveg að koma, þetta sé alveg að fara að gerast, framkvæmdir og þar af leiðandi tekjur í framhaldinu, en það sést að minnsta kosti ekki enn þá. Við hljótum að auglýsa eftir því að þetta fari að skila sér inn.

Það er að sjálfsögðu gagnrýnt í nefndarálitunum að tekjugrunnurinn sé ekki lagður fram um leið og frumvarpið. Nú er hann hins vegar kominn og hægt að lesa þetta saman. Það var í rauninni bagalegt að byrja þessa umræðu án þess að hann lægi fyrir því að þetta þarf að fylgjast að. Það mun sem betur fer, samkvæmt breytingum á þingsköpum, verða tryggt að gerist næsta haust, ef ég man rétt.

Ég nefndi hér áðan tekjur frá Seðlabankanum sem væri ágætt að fá skýringar á ef einhver hefur.

Töluvert hefur verið rætt hér um safnliði. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þá, ég hef skilning á því. Ég held hins vegar að það hafi verið vond breyting og í raun mistök að breyta safnliðum á þá leið að koma þeim inn í ráðuneytin eða einhverja sjóði sem áttu að vera svo faglegir og fínir. Það er ekki endilega svo að það sé alltaf best. Það kann líka að vera að yfirsýn og framtíðarsýn á einstök verkefni sé betur fyrir komið hjá alþingismönnum eða jafnvel heima í héraði. Það er spurning hvort eigi að skoða að setja safnliðina þangað sem þeir hafa runnið, hvort sem það hefur verið hingað á höfuðborgarsvæðið eða út á land, en það að ætla að fara að deila þeim út frá framkvæmdarvaldinu finnst mér algjör óþarfi og tómt bull. Ég tel að þeir eigi að fara í það form sem þeir voru í áður þangað til menn hafa fundið einhverja heilbrigða og skynsamlega leið til að breyta þeim aftur því að breytingin mistókst algjörlega. Hver segir að þingmenn séu ekki betur til þess eða jafn vel til þess fallnir að hafa skoðanir á þessu og embættismenn í ráðuneytum eða einhverjir sem eru kjörnir í að deila út úr einhverjum sjóðum? Ég kaupi það alla vega ekki og gerði aldrei, fyrir utan það að Alþingi er náttúrlega með þessu að gefa frá sér vald enn og aftur, það er að sumu leyti verið að veikja Alþingi. Ég held að færa megi fyrir því rök.

Í nefndarálitum, m.a. 1. minni hluta, er lýst miklum áhyggjum af hallarekstri ríkissjóðs. Það hefur komið fram í ræðum þingmanna, eins og þegar mælt var fyrir nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þingmanna Kristjáns Þórs Júlíussonar, Ásbjörns Óttarssonar og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Þar er farið yfir reksturinn, eins og í nefndaráliti 2. minni hluta. Fram hefur komið að miklar áhyggjur eru af jöklabréfunum svokölluðu og snjóhengjunni eða hvað menn kalla þetta allt saman. Áhyggjurnar eru vitanlega þær að þetta eru háar fjárhæðir, af sumum er talið að þær séu vanmetnar að einhverju leyti og þar af leiðandi gæti vandinn verið meiri en hér er talað um.

Það er athyglisverð tafla á bls. 3 í nefndaráliti 1. minni hluta yfir vaxtagjöld ríkissjóðs. Miðað við frumvarpið og ef við tökum frumvarp fyrir 2013 og 2010, sem er besta árið af fimm í töflunni, þá er vaxtajöfnuðurinn, þ.e. vaxtatekjur og vaxtagjöld, neikvæður um 63 milljarða en var 38 milljarðar árið 2010. Þetta er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni að bilið sé að aukast á svo neikvæðan hátt. Þetta segi ég meðal annars vegna þess að mér sýnist að ekki hafi verið lagðar fram tillögur eða í það minnsta lítill metnaður lagður í það að búa til tekjur til að greiða niður skuldir og reyna að grynnka um leið á þeim gríðarlega vaxtakostnaði sem þarna er. Ég óttast það, frú forseti, að afrakstur ríkisstjórnarinnar verði að lengja mjög í kreppunni eða nauðsynlegu aðhaldi í samfélaginu. Ég held að það sé verið að lengja vandræðatímann til muna vegna aðgerðaleysis varðandi tekjuöflun ríkissjóðs og annarra. Ég hef ekkert rætt þróun atvinnuleysis eða brottflutning fólks og falið atvinnuleysi, það hafa aðrir gert og þarf ekki að rifja upp. En það er áhyggjuefni að ekki virðist vera gripið til aðgerða til að ná niður þessum mikla vaxtakostnaði ríkissjóðs.

Annað sem er áhyggjuefni er hversu lengi hagvöxturinn getur verið drifinn áfram af einkaneyslu. Hversu lengi geta einstaklingar gengið á sparifé sitt eða tekjur og haldið uppi hagvextinum þegar fjárfestingar virðast ekki gera það? Þessu þarf að breyta. Það þarf nýja hugsun á bak við hvernig við öflum okkur tekna og höldum uppi hagvexti.

Það eru blikur á lofti varðandi fjárlagatillöguna. Við vitum að það á eftir að taka á mörgum stórum verkefnum sem kalla á mikil útgjöld. Ég nefni bara vanda Hörpu, tónlistarhússins, sem er glæsileg bygging og að sjálfsögðu komin til að vera en er náttúrlega dæmi um eitt stórt kjördæmapot sem tókst vel, alla vega er húsið risið. Síðan vitum við að löggæslan þarf á verulega miklum fjármunum að halda. Það er Landspítalinn. Við lásum í fjölmiðlum í dag að horfið hefur verið frá því að byggja hann með svokallaðri leiguleið, heldur verði hann ríkisframkvæmd. Hvaða áhrif hefur það á fjárlögin næstu ár ef farið verður í þá byggingu? Ég held að við þurfum að setjast yfir það, það kann að vera að ekki sé hægt að snúa frá því en ég vil alla vega að menn skoði það.

Svo eru það strandsiglingarnar sem margir kalla eftir en aðrir hafa efasemdir um. Ég held að það sé verkefni sem verður bara að gera tilraun með.

Það eru blikur á lofti varðandi kjarasamninga og hver þáttur ríkissjóðs eða ríkisins verður í þeim. Ég held að einsýnt sé að einhver krafa mun koma á ríkisvaldið þegar kemur að því og að við lendum í vandræðum með kjarasamningana. Ég fæ ekki séð, það kann að vera að ég hafi ekki tekið eftir því, að eitthvað sérstaklega sé horft til þess í frumvarpinu. Til að vera sanngjarn er kannski erfitt að áætla eitthvað þar um en það hefði kannski verið skynsamlegt að líta til reynslunnar og velta því upp hvort ekki þyrftu að vera einhverjir fjármunir þarna til ráðstöfunar.

Við höfum fengið hér upplýsingar um hvernig vöruskiptajöfnuðurinn hefur þróast. Það er áhyggjuefni og vísar enn og aftur í það hvernig okkur gengur að afla okkur tekna eða hvort við eyðum of miklu.

Frú forseti. Ég tel að við hljótum að þurfa að horfa til þess eða gera okkur í það minnsta grein fyrir því að þau fjárlög sem hér er verið að leggja fram eru útgjaldafjárlög að því leytinu til að það er verið að lofa fjármunum í verkefni sem ég tel að munu kalla á enn frekari útgjöld. Það eru að koma kosningar. Það kann að skýra þetta að einhverju leyti.

Gerðar hafa verið ýmsar breytingartillögur milli umræðna. Ég get tekið undir að sumar þeirra að séu mikilvægar til að örva atvinnulífið, eins og auknir fjármunir í Kvikmyndasjóð. Ég skil hins vegar ekkert í því af hverju þarf að auka fjármuni um 81 milljón til Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Það er hægt að spara þá fjármuni með því að hætta þessu Evrópusambandsrugli öllu saman. Það sjá það flestir Íslendingar og mjög margir Evrópusambandssinnar nú orðið að þetta verður aldrei.

Ég ætla að geyma mér það, frú forseti, að fara yfir þessar breytingartillögur þangað til síðar. Eins og ég segi eru þarna mörg spurningarmerki, en það eru líka jákvæðir hlutir. Það er í raun jákvætt að setja þurfi meiri fjármuni í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það sýnir að mikill áhugi er því að nota Ísland sem vettvang fyrir kvikmyndir og það kostar eitthvað að halda okkar striki. Ég held að þegar upp er staðið hafi það jákvæð áhrif á samfélag okkar og efnahag. Það er í það minnsta mín trú.

Ég hef ekki farið neitt yfir þau nefndarálit og einstakar breytingartillögur sem ég nefndi áðan. Ég ætla að geyma það aðeins. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, svo að því sé haldið til haga, að töluverðar breytingar verði á frumvarpi til fjárlaga milli umræðna. Ég hygg að oftar en ekki hafi þær leitt til útgjaldaaukningar, en tekjuöflun á móti þarf þá að vera raunhæf, hún þarf að vera þannig að við efumst ekki um að þær tekjur skili sér. Mér sýnist því miður að í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum þegar kemur að öflun tekna sé það fjarlægur draumur að þessar tekjur skili sér.

Það er vitanlega bara hægt að skattpína einstaklinga og fyrirtæki að ákveðnu marki. Að mínu viti er nú komið allnærri þolmörkum þar. Þegar skattahækkanir eru farnar að leiða til samdráttar, uppsagna eða þess að fyrirtæki geti ekki vaxið eins og þau þyrftu og vildu þá er það að sjálfsögðu neikvætt og hefur neikvæð áhrif.

Frú forseti. Eins og ég sagði ætla ég að bíða með breytingartillögurnar sem ég ætlaði að renna hér í gegnum og fara yfir út frá því sem ég nefndi áðan. Ég bið forseta að setja mig á mælendaskrá til að ég geti gert það.

Eins og ég segi þá líst mér ekki vel á heildarmyndina. Það er eitt og eitt sem er ágætt en heildarmyndin er ekki góð.