141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágætisræðu. Hægt er að taka undir mest allt þótt ég muni fara inn á ákveðin atriði í ræðu minni á eftir sem ég var til að mynda ekki sammála. Ég ætla að eyða í það nokkrum orðum. Það sem vakti athygli mína er að mér fannst þingmaðurinn gera það sem margir þingmenn gera einmitt ekki hér, fara nákvæmlega yfir hvar megi forgangsraða. Hann var í rauninni að draga fram að þegar upp er staðið verður að forgangsraða fjárlögum, eins og við vitum að þarf alla jafna að gera. Ég held að við séum sammála um að ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki að gera það, alla vega finnst mér þeir forgangsraða á röngum stað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að ef við stæðum frammi fyrir breytingum á þessari svokölluðu nýju fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þá væri kannski betra að forgangsraða meðal annars í þágu lögreglunnar. Ég er í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem hver gesturinn á fætur öðrum kemur og ítrekar að ekki sé lengur hægt að skera niður. Það er ekki síst ráðuneytið sjálft sem er þar í broddi fylkingar fyrir utan lögregluna sjálfa. Er hann mér ekki sammála í því að tryggja þurfi að lögreglan geti haldið uppi þeirri þjónustu sem henni ber lögum samkvæmt að sinna? Er það nú ekki eðlilegra verkefni heldur en mörg af gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar?

Mín stóra spurning er, af því nú hefur þingmaðurinn farið vel yfir frumvarpið, hverjar hans ráðleggingar eru til okkar, og kannski ekki síst ríkisstjórnarinnar, varðandi sóknarfæri í fjárfestingu þannig að við getum farið að laða frekar að erlent fjármagn og erlenda fjárfesta til að vera með okkur í því að byggja upp íslenskt atvinnulíf.