141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að gera það að tillögu minni að Snæfellsbær, íbúar Snæfellsbæjar, fái að skipta á milli sín skatttekjunum sem verða til í bænum áður en aurinn er sendur í höfuðborgina. Þá sjáum við til hvort nægur peningur er til að reka heilsugæslu og annað sem þarf að reka. Ég hef grun um að það sé mikill afgangur sem hægt er að senda til að reka ráðuneyti og annað á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir athugasemdina sem hv. þingmaður kemur með. Við höfum séð það úti um allt land að verið er að skera inn að beini. Það er búið að hagræða svo mikið að menn geta varla rekið þessar stofnanir. Dæmið um heilsugæslu í Snæfellsbæ sem hv. þingmaður nefnir er í rauninni merkilegt. Það er lokað aðra hverja helgi og þá helgi sem er opið er einn læknir á bakvakt, ef ég hef skilið það rétt.

Skilaboðin eru hver? Jú, eins og hv. þingmaður sagði: Vinnið, vinnið og skapið tekjur en þið fáið ekki alveg allt til baka. Í rauninni allt of lítið til baka.

Við verðum lítið varir við viðspyrnuna sem talað er um, alla vega í okkar kjördæmi og sjálfsagt ekki annars staðar á landinu heldur. Við sjáum í dag að í landsbyggðarkjördæmi þar sem undirstaðan er til dæmis sjávarútvegur eða landbúnaður, sérstaklega sjávarútvegur núna, eru menn jafnvel að falbjóða fyrirtæki sín, lítil og meðalstór, til stærri fyrirtækja út af auknum kostnaði við rekstur fyrirtækjanna. Myndin er ekkert sérstaklega björt.

Það var nefnt hér fyrir nokkru síðan, og ágætt að nefna í þessu samhengi, að einn þriðji af öllum útflutningstekjum Íslands yrði til á einu landsvæði á landinu, þ.e. á norðausturhorni landsins. Það er svolítið merkilegt ef við horfum á það í því samhengi að þar er iðnaður, sjávarútvegur. Þar er vitanlega álverið og öll stóru (Forseti hringir.) útgerðarfyrirtækin og ekki bara stóru heldur líka litlu, skapa þessar gríðarlegu tekjur.